09.02.1950
Efri deild: 51. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (2556)

104. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki mætt á fundi hv. fjhn., þegar hún afgr. þetta mál, og gat því ekki tekið þátt í athugun þess og afgreiðslu frá nefnd. Svo kann að virðast, að hér sé um smáatriði að ræða, er stuðli að gagnlegum framkvæmdum, og það sé því eðlilegt, að fallizt sé á till. n. Ég held þó, að athuga þurfi málið betur, áður en farið er inn á þessa braut. Hv. dm. er vel kunnugt, að oft er sterklega leitað eftir því að fá ýmsar greiðslur gerðar frádráttarhæfar. Hér er farið fram á það, að ákveðinn hluti — 2/3 hlutar — af fé, sem varið er til skógræktar, að vissu hámarki, megi dragast frá skattskyldum tekjum. Verði þetta samþ., held ég, að á eftir komi umleitanir um, að sama regla verði látin gilda um ýmsar aðrar greiðslur, sem ekki er hægt að segja, að skili arði jafnóðum, eins og er um flestar greiðslur í sambandi við jarðræktarframkvæmdir. Af hverju skyldu t. d. ekki kornræktartilraunir, þar sem líklegt er að akurlendi geti orðið í framtíðinni, njóta sömu hlunninda? Þannig mætti lengi telja. Ef skógræktin á að njóta þessara fríðinda, því þá ekki skrúðgarðar og svo framvegis? Á því er enginn efi, að leitað verður eftir þessum fríðindum á mörgum sviðum, ef þessi till. verður samþ. Ég vil taka það fram, að ég er ekki á móti þessu að öðru leyti en því, að ég tel, að þetta sé byrjun, er geti haft þær afleiðingar, er ég áður hef getið. Af þeim ástæðum get ég ekki greitt atkv. með till.

Um till. hv. þm. Barð. er sama að segja, nema haldið er áfram á sömu braut og áður, að framlög til Reykjalundar séu skattfrjáls. Ég gat ekki verið þessu samþ., er það náði fram að ganga, af áðurgreindum ástæðum. Það er hætt við því, að fleiri sæki í sama farið. Einhvern tíma voru framlög til barnaspítala frádráttarhæf, og svo mun um fleiri framlög. Ég tel rétt að stinga við fæti í þessum efnum og fara ekki lengra. Ef rétt er talið að styrkja þessar framkvæmdir, er eðlilegast, að ríkissjóður styrki þær sem þessu nemur. Ég læt svo þetta nægja.