25.02.1950
Efri deild: 61. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2562)

104. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er að vísu gott, að till. er tekin aftur til 3. umr., en mér skilst þó, að hv. flm. haldi samt sem áður við þann ásetning sinn, að hún komi hér til meðferðar, svo að þetta er ekki nema aðeins stuttur frestur, — eða er það ekki rétt skilið? (GJ: Jú.) Ég vildi þá í þessu sambandi minnast á það, að mér virðist það svo sem ekki neitt óeðlilegt, að hv. flm. athugaði það, og ég vil beina því til hans, hvort hann treysti sér ekki til þess að falla alveg frá þessari till. sinni. Þetta mál er nefnilega þannig vaxið, að það verður ekki nógu undirstrikað, að það gæti farið sínar eigin götur án þess að gerðar séu breytingar, sem fleyga það í sundur, þó að þær séu af góðum hug sprottnar, eins og þessi till. hv. þm. Það er svo ákaflega margt, sem benda má á, að ekki væri óeðlilegt að nyti skattfrelsis, eins og hér er gert ráð fyrir, en ef einu sinni er farið inn á þá braut að veita svona undanþágur, þá erum við komnir inn á annað svið. Það er að vísu alveg rétt, að þessi góðgerðarstofnun er í allra fremstu röð í þessu landi og á mjög mikinn rétt á sér, en hún stefnir sem kunnugt er að því að styrkja fólkið, sem kemur af heilsuhælunum til þess að rétta við, og veita því aðhlynningu, sem gefur von um betri framtíð þess. En ef það er farið inn á þessa braut, þá er það auðsætt, að það er til ýmiss konar góðgerðarstarfsemi, sem verður að telja svipaðs eðlis og þá kæmi þar líklega á eftir. Það hefur verið safnað fé til þess að koma upp barnaspítala, það er félag í þessum bæ, sem vinnur að því, og hefur það lagt sig mjög í framkróka til þess að vinna að byggingu slíks spítala. Það getur verið talið hliðstætt hinu fyrra, og svona mætti lengi halda áfram, ef farið væri inn á þessa braut, sem lagt er til í till. hv. þm. Barð.

Þess vegna vildi ég aðeins minna á það, hvað það mál, sem í frv. greinir, er sérstaks eðlis og hvað ívilnanir þar eru í raun og veru litlar. Ég rakst nýlega á það, sem að vísu kemur þessu máli ekki beinlínis við, að í einu fylki í Bandaríkjunum, Texasfylki, þar sem olíuvinnsla er mikil og ríkið hefur af henni miklar tekjur, þar eru mönnum veitt skattfríðindi til þess að þeir geti leitað að olíu, en það er að ýmsu leyti áhættusamt að leita að henni.

Hér er á ferðinni mál, sem að mínu áliti er glæsilegt mál, og ég álit að það væri til leiðinda fyrir þessa virðulegu stofnun, Alþ., að hafa fellt eða fleygað þannig, að það gengi ekki fram. Vissulega er skógræki á Íslandi þýðingarmikið framtíðarmál og Alþ. mundi gera þarft verk með því að stíga fyrsta skrefið og sýna, hversu mikils það metur starf þeirra manna, sem leggja fram fjármuni til þess að ryðja þar brautina, og ef þetta mál verður fellt, þá held ég, að það yrði til leiðinda. Annars er ekki mitt að segja neitt sérstakt um það, og vitanlega hafa aðrir þm. á því rökstudda skoðun engu síður en ég, og það kann svo sem að vera, að hún fari í aðra átt og sýni sig að styðjast við rök. Ég ætla svo ekki að orðlengja um þetta mál, ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi áhrif á afgreiðslu þess, hvað um það verður sagt, og læt þess vegna staðar numið.