09.05.1950
Neðri deild: 98. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (2607)

94. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. minni hl. (Jónas Árnason) [Í handrit innanþingsskrifara vantar upphaf ræðunnar og að því er virðist frumræðu frsm. meiri hl. (PÞ).]:

Einn daginn er aðalfrétt blaðsins svo hljóðandi: „í mörgum af verstu vistarverum, sem fólk í Reykjavík verður að sætta sig við og að áliti allra dómbærra manna eru heilsuspillandi hverjum sem er, búa fjölmargir, sem læknar hafa sérstaklega lagt bann við, að mættu dvelja í vondum húsakynnum, heilsufars síns vegna. Margs konar heilsubrestir þjá þetta fólk, —sumt nýútskrifað frá Vífilsstöðum og Reykjalundi, og þarf um fram allt að njóta góðra skilyrða, á meðan það er að venjast eðlilegu starfslífi á nýjan leik.“ Heimildir að fregn þessari segist blaðið hafa frá stjórn Leigjendafélagsins og leggur mikið upp úr áliti hennar, og er sú afstaða næsta ólík þeirri, sem hv. þm. þessa hv. blaðs hafa upp tekið nú nýlega, þegar stjórn þessa sama félags sendi þeim bréf út af frv. þeirra um breyt. á húsaleigulöggjöfinni. En það er önnur saga. Þessi vitnisburður er ekki fögur mynd, en ástandið hefur í þessu efni ekki breytzt til batnaðar, er rannsökuð eru hanabjálkaloft og djúpir og dimmir kjallarar. Frams.flokkurinn opinberaði mikinn umbótahug með pennum blaðamanna sinna fyrir kosningar. Aðalblað flokksins talaði mikið um það, að nauðsyn bæri til að rannsaka og gera skýrslur um óhæft húsnæði í bænum og hefja að því loknu skipulagðar byggingarframkvæmdir til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði. Með samþykkt þessa frv. mundu þm. Framsfl. styðja raunhæfar aðgerðir í því hjartans máli þeirra, sem þetta mál var fyrir kosningar. Hinn 4. jan. sendi maður nokkur bréf til blaðs framsóknarmanna, sem birt var af mikilli samúð og fjallar um það, „hvaða áhrif þetta eilífa húsnæðisbasl og dvöl í algerlega óhæfum vistarverum hefur á okkur öll. Börnin eru sífellt lasin“, segir hann, „en við hjónin þreytt og leið og beygð af erfiðleikum og mótlæti.“ Bréfritarinn talar um það mikla „sálarnið“, sem „lagt er á þá, sem dæmdir eru til þess að búa ár eftir ár við þessi ósköp, þótt ekki sé rætt um líkamlega heilsu.“ Fjórum dögum síðar segir blaðið orðrétt: „Hin hræðilega aðbúð í bragga- og fátækrahverfum bæjarins sviptir fólkið trú á lífið og framtíðina og hlýtur óhjákvæmilega að skilja eftir geigvænleg för í þjóðlífinu, ef ekki verður tekið í taumana og ráðin bót á ófremdarástandinu.“ Síðan segir frá því, að á liðnu hausti bjuggu 1666 manns, þar af 419 börn, í bröggum og öðru húsnæði af því tagi, sem teljast verður með öllu óviðunandi. Þessu næst talar blaðið um nauðsyn þess, að hafin verði af opinberri hálfu sókn að því að sjá öllum Reykvíkingum fyrir viðunandi húsnæði á næstu missirum. Enn talar blaðið um bölvun húsnæðisleysisins, sem þúsundir manna, þ. á m. þúsundir barnafjölskyldna, eiga við að búa. „Það hefur reynt að sýna fram á, hvaða afleiðingar það hlyti að hafa fyrir mannfélagið, ef stór hluti af börnum bæjarins eiga í framtíðinni, eins og verið hefur nú um skeið. að alast upp við slíka kosti. Þær afleiðingar hljóta að vera andlegar og líkamlegar og höfuðstað landsins og þjóðinni allri býsna dýrar. Það hefur verið sýnt fram á, hvernig þrekminna fólkið gefst upp í hinni vonlausu baráttu, þegar samfélagið vill ekki eða hirðir ekki um að veita því liðsinni til þess að losna úr utangarðsvist í alls konar hrófum, sem eru eins fjarri því að vera mannabústaðir og skútar uppi á fjöllum. Það hefur sýnt fram á, hversu ægilegt ástand hlýtur að skapast jafnskjótt og bóla tekur á verulegu atvinnuleysi. Og það hefur sýnt fram á, hvernig menn, sem raunverulega eru sjúklingar og ekkert annað, eru settir gersamlega á guð og gaddinn, í stað þess að búa þeim sjúkrahúsvist, þar sem þeir gætu unnið fyrir sér á sómasamlegan hátt, náð heilsu og orðið á ný nýtir menn í þjóðfélaginu.“ Þá er í blaðinu að finna tilkynningu um það, að Framsfl. berjist fyrir alhliða umbótum í kaupstöðum landsins, og segir orðrétt: „Hann hefur einsett sér að brjóta niður ofurvald fjárplógsmannanna og uppræta spillinguna í þjóðfélaginu og gera eymdina og ranglætið útlægt. Vilji nógu margir kjósendur veita honum brautargengi, skapast ný viðhorf.“ Ráðið er m. ö. o. að kjósa Framsóknarflokkinn.

Þessi vitnisburður, sem blað Framsfl. gefur um ástand og horfur í húsnæðismálum í Rvík, er ekki fagur. En ástandið hefur ekki breytzt til batnaðar frá því, að framsóknarmenn rannsökuðu kjallarana, hanabjálkaloftin og braggana, þar sem barnafjölskyldur bjuggu. Framsókn opinberaði mikinn umbótahug með pennum blaðamanna sinna. Aðalblað þeirra, Tíminn, taldi vænlegt, að hafizt yrði handa og gerðar skýrslur yfir allt heilsuspillandi húsnæði í bænum, og að því loknu yrðu hafnar skipulagðar byggingarframkvæmdir til þess að bæta úr ástandinu og útrýma heilsuspillandi húsnæði. Með samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir, mundu hv. þm. Framsfl. stuðla að raunhæfum aðgerðum í þessum efnum, sem þeim lá svo mjög á hjarta í afstöðnum kosningum. Það má því teljast allundarleg breytni, er þm. flokksins rétta Sjálfstfl. hönd í afstöðu sinni til þessa frv. og leggja til, að málið verði afgr. með rökstuddri dagskrá. Þetta eru snögg umskipti hjá þeim mönnum, sem töluðu um hræðilega aðbúð fólksins í kjöllurum og á hanabjálkaloftum, þar sem fólkið missir smám saman trú á lífið og framtíðina. Og nú er verið að samþ. hér á hv. Alþingi með einni rökstuddri dagskrá, að Íslendingar hafi ekki efni á því að byggja upp menningarþjóðfélag.