09.05.1950
Neðri deild: 98. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2608)

94. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. minni hl. fyrir góðar undirtektir í þessu máli, sbr. málflutning þeirra flokka í janúar s. l. Hins vegar hefur nú orðið sú raunin á, eins og kom fram í ræðu hv. þm. A-Sk., að þær öldur, sem risu í janúar, hefur nú lægt. Ég verð að segja, að mig undrar afstaða Framsfl. til þessa máls. Að vísu veit ég ekki, hversu hv. þm. A-Sk. er kunnugur í braggahverfum Reykjavíkur, en ég veit, að þessi hv. þm. les blað sitt, Tímann, og eftir skrif þess blaðs fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar í Rvík þarf ekki að lýsa því ástandi fyrir þessum hv. þm., sem þar ríkir. Nú tala fulltrúar stjórnarflokkanna um það, að þjóðin hafi ekki efni á því að útrýma heilsuspillandi húsnæði í Reykjavík. En var fjárhagsástandið eitthvað betra í desember s. l. og í janúarmánuði, en nú? Þá virtist þessum mönnum, að allir vegir væru færir í þessum efnum, en nú hefur þjóðin ekki efni á því að búa í heilbrigðu og mannsæmandi húsnæði.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frv. Stjórnarliðið mun sjá fyrir afgreiðslu þess. Hins vegar vildi ég minna á það, að orð dagblaðsins Tímans eru enn í fullu gildi varðandi aðbúð fólks í Reykjavík og víðar.