09.05.1950
Neðri deild: 98. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

94. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að gera grein fyrir atkv. mínu varðandi þetta frv. Þetta mál á sér nokkra forsögu. Árið 1946 voru sett af Alþingi merk lög um byggingu íbúðarhúsnæðis, og 1. kafli þessarar löggjafar fjallaði um styrkveitingar til sveitar- og bæjarfélaga til byggingar íbúðarhúsnæðis. Nú var svo komið árið 1948, að svo var ástatt um fjárhag ríkissjóðs, að ríkið gat ekki uppfyllt skuldbindingar sínar. Nú má hins vegar gera ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að framkvæma þessi lög, eftir því sem marka má af meðferð mála, þegar gengislækkunarlöggjöfin var sett. Þótt hv. 5. þm. Reykv. hafi verið með napuryrði í garð Alþfl., þá hefur Alþfl. fyrir löngu síðan haft forustu um raunhæfar aðgerðir til úrbóta í húsnæðismálunum. Það má vera, og ég efa það ekki, að eitthvað sé til í því, sem fram kemur í ummælum Tímans, en ég minnist einnig þess, að þetta sama blað talaði um það, að ég sem forsætisráðherra í fyrrv. samsteypustjórn hafi gert of lítið í húsnæðismálunum. Nú hefur Framsfl. fengið félmrh. úr sínum hópi, og ég stend ekki gegn því, að hann stígi feti framar, en ég gat. Og ég vil ekki heldur hindra Sósfl. í þeim áhuga, sem hann vill sýna þessum málum, og mun því greiða atkv. með frv. Mér er og mjög umhugað um það, að lögin frá 1946 verði notuð í sem ríkustum mæli, en nú geta þessir tveir flokkar fengið tækifæri til þess að betrumbæta, ef ekki er hér um að ræða vindbelging einn.