05.01.1950
Neðri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Í því skyni að leitast við að tryggja sjávarútveginum starfsgrundvöll hefur ríkisstj. undirbúið eða haft með höndum tvíþætt starf. Í fyrsta lagi undirbúning á heildartillögum, miðað við allsherjarlausn á þeim vandamálum, sem dýrtíðin hefur bakað útflutningsframleiðslu þjóðarinnar, og í öðru lagi gert tillögur til bráðabirgðaúrlausnar fyrir bátaútveginn, til þess að hann geti hafið framleiðslu nú þegar, en þurfi ekki að bíða þess, að útséð verði um, hverja afgreiðslu þær heildartill. fá, sem ríkisstj. undirbýr nú og síðar verða bornar fram. Að þessum málum hefur verið unnið af kappi af ríkisstj. hálfu allt frá því að þingleyfi hófst og síðan. Það var í miðjum desember, sem fyrir lágu kröfur Landssambands ísl. útvegsmanna varðandi ábyrgð á fiskverði, og öllum dm. munu vera þær kröfur kunnar í höfuðatriðum að minnsta kosti. En þann 19. des. s.l. kom greinargerð frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þar sem gerð var grein fyrir þeirra þörfum og kröfum til þess að hægt væri að halda áfram rekstri. Jafnskjótt og þessi greinargerð hafði borizt, hófust viðræður milli þessara aðila beggja annars vegar og ríkisstj. hins vegar. Á sama tíma lét ríkisstj. fara fram athugun á þeim kröfum, sem fyrir lágu í einstökum atriðum, og var sú athugun gerð af trúnaðarmönnum stj. með hliðsjón af ábyrgðarverðinu og framleiðslukostnaði á síðasta ári. Þar sem þessi athugun gat ekki hafizt fyrr en rétt fyrir hátíðar, vegna þess að kröfur útvegsmanna og hraðfrystihúseigenda voru ekki kunnar fyrr, var ekki hægt að leggja þetta mál fyrir Alþingi fyrir hátíðar, enda óhjákvæmilegt, að athugun á málinu tæki nokkurn tíma, en hins vegar ekki hægt að leggja fram bráðabirgðatill. nema slík athugun lægi fyrir. Nú hefur þessi athugun farið fram, og hér liggur frv. fyrir og er, eins og segir í grg., úrlausn til bráðabirgða, miðuð við það að skapa nægilegt öryggi fyrir bátaútveginn, svo að hann geti hafið veiðar í tæka tíð, án þess að bíða þurfi eftir niðurstöðum, sem kunna að verða hjá Alþingi, á öðrum aðgerðum varðandi afkomu bæði bátaútvegsins og sjávarútvegsins í heild. Ríkisstj. leggur áherzlu á, að stefna beri að heildarlausn á þessum málum, enda hefur hún í undirbúningi till. í því efni. Hins vegar er það á allra vitorði, að brýn nauðsyn er að koma bátaútveginum af stað, og fyrir þeirra hluta sakir er þetta frv. fram borið, eins og hv. þm. munu hafa kynnt sér, ef þeir lesa aths. við frv.

Frv. gerir ráð fyrir, að til að byrja með sé tryggður rekstur flotans, að svo miklu leyti sem hægt er með þessum ráðstöfunum, til 1. marz, og er þess að vænta, að fyrir þann tíma verði búið að koma sér niður á tillögur til frekari úrlausnar, þannig að þá geti við tekið þær úrlausnir, sem geri ábyrgðina í þessu formi óþarfa. Ef á hinn bóginn, mót von, svo skyldi fara, að ekki yrði búið að koma sér saman um heildarúrlausn á þeim 2 mánuðum, er gert ráð fyrir í frv., að ábyrgðin í þessu formi haldi áfram út vetrarvertíð, eða til 15. maí. Þetta virðist, eftir því sem fram hefur komið, vera óhjákvæmilegur varnagli, enda kom það skýrt fram í viðræðum við útvegsmenn þá, sem í fyrirsvari voru og stóðu fyrir málflutningi af hálfu bátaútvegsins, að það væri óhjákvæmilegt, að ábyrgðin gæti framlengzt yfir alla vertíðina, ef svo skyldi fara, að ekki yrðu aðrar leiðir fundnar á þessu tímabili, er gerðu ábyrgðina óþarfa. Það er hins vegar tilgangurinn, að nær sem slík heildarlausn kemur til, leysi hún af hólmi skuldbindingar ríkisins samkvæmt þessu frv., að svo miklu leyti sem þróun þessara mála gerir slíkt framkvæmanlegt.

Ég ætla, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta mál almennt, en vildi aðeins bæta því við, að eins og nú horfir, er það bæði ósk og von ríkisstj., að hæstv. Alþ. afgreiði þetta mál svo fljótt, að sem fyrst geti orðið sá árangur af, að bátaflotinn hefji sitt starf, og finnst mér hóflegt að gera ráð fyrir og óska eftir, að það dragist ekki lengur en fram í byrjun næstu viku, að frv. afgreiðist frá Alþ. Stjórnin hefur eftir megni reynt að hraða aðgerðum og þykist vita, að Alþ. hafi hug á því sama eða sé sama sinnis og afgreiði þessa bráðabirgðalausn fljótt.

Grundvallarábyrgðarverðið í 1. gr. frv. hefur verið 65 aurar. eða var árið 1949, en nú er gert ráð fyrir 10 aura hækkun pr. kg af blautfiski. Aðalfundur L.Í.Ú. gerði að vísu ráð fyrir mjög miklu hærra verði, og við athugun á ýmsum kostnaðarliðum og mörgu fleiru í sambandi við þetta hefur ríkisstj. komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki verði hjá því komizt að tryggja útveginum 75 aura, eins og gert er með þessari gr. frv. Ég vil og vitna til ákvæða 5. gr., sem inniheldur ákveðin fríðindi, hin sömu og á s.l. ári, er miða raunverulega að því að hækka fiskverðið til framleiðenda.

Um 2. gr. er það að segja, að eigendur frystihúsanna kröfðust þess, að frumverðið á þorskflökum, sem var kr. 1.33, yrði sett í kr. 1.561/2 pr. lbs. Eftir athugun á auknum kostnaði við framleiðsluna, og þegar miðað er við hækkað hráefnisverð, eins og gert er ráð fyrir í 1. gr., er það álit ríkisstj., að ábyrgðarverðið hækki í kr. 1.53. Þá er lagt til, að ábyrgðarverð á saltfiski hækki úr kr. 2.25 í kr. 2.48 pr. kg, og er sú hækkun miðuð við hækkun á hráefnisverðinu. Að vísu hefur nú orðið töluverð lækkun á saltverði, en þar kemur á móti hækkun á vinnslukostnaði, og þegar allt kemur til alls, mun láta nærri, að kr. 2.48 sé rétt verð.

Ég minntist áðan, í sambandi við 1. gr., á ákvæði 5. gr., sem líka var 5. gr. í dýrtíðarlögunum 1949. Þá var áætlað að heimila ríkisstj. að verja 5 millj. kr. til þess að lækka kostnað við framleiðslu sjávarafurða á árinu, og er þar um að ræða hreina uppbót til eigenda veiðiskipanna. Hér er miðað við að halda þessum hætti, og segir nú í 5. gr., að ríkisstj. sé heimilt að verja allt að 1 millj. kr. til þess að lækka kostnað við framleiðslu sjávarafurða í janúar og febrúar þessa árs. Síðar, eða í 12. gr., er ákvæði miðað við hugsanlega framlengingu þessara ráðstafana frá 1. marz til 15. maí, og á framlag ríkissjóðs samkv. 5. gr. þá að hækka um 2.5 millj. kr. á því tímabili, og yrði þá alls varið 31/2 millj. kr. til að lækka framleiðslukostnað sjávarafurða á vertíðinni, eða þeim tíma, er bráðabirgðaástand gæti haldizt samkvæmt frv. Er það hliðstætt að tíma til við þær 5 milljónir, sem voru í lögum í fyrra til þessara ráðstafana.

Þá er það tekið fram í athugasemdum við þetta frv., eins og fyrr segir, að aflamagnið tvo fyrstu mánuði ársins er áætlað 23 þús. smálestir, og sé gert ráð fyrir sömu hlutfallslegu skiptingu á því eftir verkunaraðferðum og var s.l. ár, er talið, að aukinn kostnaður nemi 6 millj. 170 þús. kr. En miðað við sama aflamagn hefði sá hluti fiskábyrgðarinnar, sem komið hefði á fyrrgreint tímabil í fyrra, numið 5,4 millj. kr. Af því leiðir, að hinn áætlaði kostnaður af öllum þeim ráðstöfunum, sem um ræðir í þessu frv. og eiga að ná yfir mánuðina janúar og febrúar, nemur 11 millj. 570 þús. kr. Sé miðað við alla vetrarvertíðina og aflamagnið áætlað 86 þús. smálestir, næmi viðbótarkostnaður alls 21,4 millj. kr., en sá hluti fiskábyrgðarinnar, sem komið hefði á þetta tímabil 1949, hefði numið 20,2 millj., miðað við óbreytt verðlag. Niðurstaðan af þessum áætlunum er því sú, að ef þessar ráðstafanir, sem lagðar eru til í frv., eiga að ná til 15. maí, þarf 41,6 millj. kr. til að standa undir ábyrgðarverði blautfisksins og öðrum þeim útlátum úr ríkissjóði, sem gert er ráð fyrir í ýmsum greinum þessa frv.

6. og 11. gr. eru um framkvæmdaratriði ýmisleg, sem áður eru kunn, og eru þær samhljóða ákvæðum 7.–12. gr. l. nr. 100 1948, en það eru fiskábyrgðarlögin frá þeim tíma, og tel ég ekki, að þær þarfnist sérstakra skýringa. Ég vil samt sem áður, að því er snertir 6. gr., segja aðeins nokkur orð. Hún fjallar um það, að við samninga um sölu íslenzkra afurða erlendis skuli þess gætt, að sem bezt heildarverð fáist fyrir þær, og er ríkisstj. heimilt að binda sölu einstakra vörutegunda nauðsynlegum skilyrðum til þess að því verði náð. Þessa verður að sjálfsögðu gætt eftir fremstu getu, en ég vil aðeins benda á það, að viðhorfið í þessum efnum mun þó breytast eitthvað á þessu ári. Þannig hafa Bretar t.d. tilkynnt nýlega, að matvælaráðuneyti þeirra muni ekki kaupa hraðfrystan fisk eins og undanfarin ár, heldur muni sú verzlun gefin frjáls, og það þýðir, að ekki er lengur beint við stjórnina þar að eiga um sölu á hraðfrysta fiskinum, heldur kaupendur ýmiss konar þar í landi, og lýtur salan þá lögmálum frjálsrar verzlunar, þörf almennings fyrir vöruna og markaðsástandi að öðru leyti.

Ég hef áður vikið að því almennum orðum, sem stendur í 12. gr., en skal þó benda á það, sem stendur í aths. frv. um þá grein. Eins og áður er sagt, gerðu fulltrúar útgerðarmanna það að ófrávíkjanlegri kröfu og skilyrði fyrir því, að útgerðin hæfist í janúar, að afkoma bátaútvegsins eða aflinn yrði tryggður til vertíðarloka. Það var mikið rætt og ákvæði þar um sett í 12. gr. Ég hef áður rætt um þetta ákvæði, og það er svo skýrt, að um verður ekki villzt. Greinin er í samhljóðan við það, að ríkisstj. taldi, að hjá því yrði ekki komizt að taka þessa kröfu útgerðarmanna til greina og framlengja ábyrgðina til vertíðarloka, ef ekki yrði annað aðhafzt fyrir lok vertíðarinnar til að bæta aðstöðu útvegsins.

Ég vík þá að tekjuöfluninni samkv. 13. grein. Það leiðir af sjálfu sér, að er menn eru tilneyddir að gera því skóna, að ríkisábyrgð á fiski haldi áfram fyrir skemmri eða lengri tíma, þá verður að taka tillit til þess, að ríkið þarf á fé að halda til að standa straum af þeirri ábyrgð. Það hefur nú verið talið hæfa að ætla, að upphæð sú, er ríkissjóður tekur að sér að ábyrgjast til 1. marz, nemi 111/2 millj. kr., ef öll vara kæmi til útflutnings, sem framleidd er á því tímabili. Þess er þó ekki að vænta, að svo hratt gangi útflutningur framan af ári. Til tekjuöflunar er lagt til að framlengja III. kafla laga nr. 100/1948, og er gert ráð fyrir, að tekjur af leyfisgjöldum samkv. 30. gr. l. standi straum af fiskábyrgðinni til 1. marz. Ef miðað er við síðasta ár, má gera ráð fyrir, að tekjur af gjöldum þessum nemi um 8 millj. kr., þegar frá eru dregin gjöld af heimilisvélum, en í frv. er lagt til, að afnuminn sé innflutningstollur af heimilistækjum, og er það í samræmi við óskir margra þm. Má í því sambandi benda á, að hér er komið fram frv. um afnám þessa tolls af heimillstækjum. Nú verður að vísu ekki sagt um það með neinni vissu, hversu mikið fé innheimtist til 1. marz, þó að hér sé áætlun um það gerð. Og þó að ríkisstj. hafi lagt til, að leyfisgjöld af þessum tegundum framlengist til ársloka 1950, er það álit hennar, að það ákvæði þurfi að athuga betur, þegar séð er, hve miklar skuldbindingar ríkið þarf að taka á sig til 1. marz. Þessi leyfisgjöld voru lögleidd af illri nauðsyn, vil ég segja, og eru ekki öllum að skapi, miður jafnvel en flest annað, þó að til þeirra yrði að grípa. Kann að vera, að eitthvað af þeim þurfi enn að vera í gildi um tíma, en suma af þessum tekjuliðum ætti að fella úr gildi hið allra bráðasta, og er þá einkum átt við varahluti í bifreiðar og bifreiðagúmmí, og í frv. þessu er gert ráð fyrir, að gjald af heimilistækjum sé þegar fellt niður.

Um 14. gr. vil ég taka fram, sem oft áður, að það er einlæg von ríkisstj., að Alþ. samþykki varanlega lausn dýrtíðarinnar fyrir 1. marz, svo að 12. gr. og þá 14. gr. þurfi ekki að koma til framkvæmda. Þrátt fyrir þá von telur ríkisstj., að ekki verði hjá því komizt, samkvæmt eindreginni kröfu útvegsmanna, að gera ráðstafanir, sem tiltækar væru, ef þessi von brygðist, þ.e. láta ábyrgðarverðið ná yfir alla vertíðina, ella færi útgerðin nú ekki af stað. Ríkisstj. telur sér því skylt að benda á tekjustofna til 15. maí, ef endilega þyrfti til þess að koma, en það gerist einvörðungu, ef Alþingi finnur ekki lausn á dýrtíðarmálunum fyrir þann tíma og bindur þar með bagga ábyrgðarinnar áfram. Það er hugsanlegur möguleiki, og því telur ríkisstj. sér skylt, þar eð hún gerir ráð fyrir útgjöldum til 15. maí undir þeim kringumstæðum, að benda þá einnig á tekjustofna á móti til jafnlangs tíma. Þess vegna er það tillaga ríkisstj., að horfið sé að þeirri leið til tekjuöflunar, sem segir í 14. gr. frv. Eins og fyrr er bent á, eru það 42 millj. kr., sem við álítum, að tryggja þurfi ríkissjóði til þess að geta staðið undir fiskábyrgðinni samkv. þessu frv. Í þessu sambandi hefur nokkuð verið rætt um það að leggja á sérstakan gjaldeyrisskatt til þess að standa undir þessum útgjöldum. Þetta hefur komið fram í umr. um þetta og frá mér, þegar ég lagði síðast fyrir Alþingi fjárlagafrv. Enn er lagt til, að lagður verði á gjaldeyrisskattur, en þó með undanþágu, því að ekki er hægt að láta hann ganga jafnt yfir allar vörur; þá er það af tekjuástæðum það sama og að söluskatturinn yrði hækkaður, sem því nemur, um gjaldeyrisskattinn, og er því lagt til samkv. 21. gr. laga nr. 100/1948, að söluskatturinn verði hækkaður allverulega, eða í stað 6% verði hann allt að 30%, og sennilega verður að ákveða hann nálægt því. Samkvæmt 21. gr. l. um söluskatt var gert ráð fyrir, að hann yrði lagður á innfluttar vörur, en ekki á þjónustu, t.d. fargjöld o.þ.h. Það mælir og með að hækka söluskattinn, heldur en leggja á nýja tolla, að undanþágulistinn er til, svo að framkvæmdin verður einfaldari en ef stofna yrði til nýs gjaldeyristolls.

Frv. þetta er, eins og áður er sagt, bráðabirgðalausn. Þennan vanda verður að leysa á öðrum grundvelli en nú er lagt til, og í þessu frv. er aðeins verið að gera ráðstafanir til þess, að bátaflotinn komist á veiðar, en allir vita, að mikill hluti eldri togaranna hefur legið bundinn mánuðum saman, og nýju togararnir berjast í bökkum. Það vandamál er ekki snert með þessu frv., og bráðabirgðaþörfin er metin hér mest. Þess vegna vil ég benda á það í þessu sambandi varðandi tekjuöflun þá, sem gert er ráð fyrir, að mundi standa undir útgjöldunum samkv. þessu frv., að hún gefur ekki rétta mynd af þeim álögum, sem leggja þyrfti á þjóðfélagsþegnana til varanlegra úrbáta. Ríkisstj. mun síðar bera fram till., sem miða að því, en ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni.

Ég vona, að hv. þm. leggi sama skilning í lausn þessa vanda, sem ég hef lýst, og ætti ekki að vera komið langt fram í næstu viku, að frv. nái lögfestingu. Með því er stuðlað að því, að bátarnir fari á veiðar. Ég bæti því við, að ríkisstj. hefur rætt við lánsstofnanir um þetta, þar á meðal stjórn Landsbankans, og hefur vilji þeirra verið, að reynt verði að koma bátunum til starfa sinna hið allra fyrsta.

Þetta mál hefur mikla þýðingu fyrir sjávarútveginn og ætti því heima í sjútvn. En hér er ekki síður um mikilsvert fjárhagsmál að ræða, og vil ég leggja til, að málinu verði vísað til fjhn. og 2. umr., að þessari umr. lokinni.