09.05.1950
Neðri deild: 98. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2610)

94. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. meiri hl. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Það má vera, að það sé ekki nema eðlilegt, að hv. 8. landsk. ætlist til meira af núverandi hæstv. félmrh. en hann gerði af sér sjálfu.m, er hann var við það starf. Þetta munum við þm. skilja.

Hv. frsm. minni hl. eru báðir blaðamenn, enda er þeim hugleikið áð byggja skoðanir sínar á því, sem blöðin segja. Ég óska þessum mönnum til hamingju með það, að þeir virðast vera farnir að lesa dagblaðið Tímann. Það blað mun verða þeim hollt leiðarljós. Annars virtust mér ræður þeirra vera helzt til utangátta. Mér skilst, að hér sé um það að ræða að skera úr um það, hvernig eigi að byggja ábúðarhúsnæði og hvernig eigi ekki að undirbúa slíkar framkvæmdir. Þetta frv. fjallar um einn kafla í stórum lagabálki: Þótt 3. kafli þessara laga sé að takmörkuðu leyti í gildi sem stendur, eru aðrir kaflar þeirra í fullu gildi. Hér er því ekki um það að ræða, hvort eigi að leyfa að byggja eða banna með öllu.

Nú höfðu hv. sósíalistar í fyrsta skipti ráðherra í ríkisstj. 1944, og flokkur hv. 8. landsk. átti einnig fulltrúa í þeirri ríkisstj. Þessir tveir flokkar höfðu 4 af 6 ráðherrum. Þá var svo ástatt í landinu, að fjármagn var nóg fyrir hendi og lánsfé fékkst þá með lágum vöxtum. Þá átti þjóðin um 600 millj. kr. í erlendum gjaldeyri. Þá virtust því hæg heimatökin fyrir þá ríkisstjórn, og nú vildi ég mega spyrja: Hversu miklu fé var þá varið til þess að byggja yfir þetta fólk, sem búið hefur og býr í bröggum og öðru heilsuspillandi húsnæði? Flm. þessa frv. taka svo djúpt í árinni um bágindi þessa fólks, að það verði að dveljast í vosklæðum á heimilum sínum. Ef þetta er rétt, að dæmi sé um slíkt, þá vil ég bjóða hv. þm. bandalag um það, hvort ekki mætti takast að finna húsnæði fyrir þessar fjölskyldur, sem væri það gott, að ekki þyrfti að standa þar í vosklæðum innan dyra.