09.05.1950
Neðri deild: 98. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (2611)

94. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð út af einu atriði í ræðu hv. þm. A-Sk. Hann sagði, að löggjöfin um íbúðarbyggingar frá 1946 væri enn í gildi, þótt 3. kafla laganna væri frestað um skeið, og skildist manni, að hægt ætti að vera að leysa húsnæðisvandamál bæjanna með því að hagnýta ákvæði þessara laga um verkamannabústaði, og gerði því ekki til, þótt framkvæmd þessa umrædda kafla væri enn frestað. Nú veit hv. þm. vel, að fjárskortur hefur hamlað starfsemi byggingarsjóðs verkamanna. Einmitt þess vegna höfum við þm. Alþfl. flutt frv. á þskj. 128 um sérstaka fjáröflun til þessa byggingarsjóðs. Fyrst hv. þm. vekur sérstaka athygli á, að mikið megi gera á grundvelli ákvæðanna um verkamannabústaði, þá ætti að mega búast við, að hann og hans flokkur vildu stuðla að framgangi frv. á þskj. 128, því að það má hv. þm. vita, að verulegt átak verður ekki gert á grundvelli þessara ákvæða, nema sérstakar ráðstafanir verði gerðar til þess að stórauka fé byggingarsjóðs verkamanna. Ég vildi mega beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm, meiri hl. n., hvort þessi rök hans gegn frv. því, sem hér er til umr., megi skilja á þann hátt, að hann og hans flokkur sé reiðubúinn að fylgja frv. okkar Alþýðuflokksmanna um útvegun fjár í byggingarsjóð verkamanna? Sé hv. þm. þeirrar skoðunar, að frekar eigi að fara að leið til þess að bæta úr hinu geigvænlega húsnæðisleysi, þá skilst mér, að hann hljóti að fylgja frv. okkar á þskj. 128. Hins vegar hefur lítið borið á liðsinni hans hv. flokksbróður í fjhn. við frv. okkar. Aftur á móti hefur minni hl. n. skilað áliti og leggur þar til, að frv. verði samþ. Ég get nú ekki séð, hvernig hægt er að gera hvort tveggja í senn, að andmæla því frv., sem hér er um að ræða, vegna þess, að hægt sé að leysa húsnæðisvandamálið með því að byggja verkamannabústaði, og vera líka andvígur því, að hægt sé að framkvæma ákvæði gildandi laga um verkamannabústaði, en það verður ekki gert nema því aðeins að tryggt sé fé til framkvæmda, en í frv. á þskj. 128 höfum við einmitt bent á handhæga leið til útvegunar á fé í þessu skyni. Ég vildi óska þess, að það mætti skilja ummæli hv. þm. A-Sk. þannig, að hann og kannske fleiri úr hans flokki séu fylgjandi þessu frv. okkar Alþýðuflokksmanna. Ef það er aftur á móti ekki svo, þá verð ég að segja, að ræða hans er sömu tegundar og blaðaskrif Tímans um húsnæðismál fyrir kosningarnar í vetur.