13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2632)

141. mál, verðjöfnun á benzíni

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta mál. Ég get í því efni vísað til nál. Hv. þm. hafa einnig kynnt sér efni þessa frv., sem fyrir liggur.

Allshn. hefur, eins og nál. á þskj. 717 ber með sér, orðið ásátt um að afgr. þetta mál með rökst. dagskrá, og ég sé ekki ástæðu til að lesa hana upp, því að hún er prentuð á þessu þskj.

Það hefur á undanförnum árum verið áhugi fyrir því, jafnt til sjávar sem til sveita, hjá þeim mönnum, sem þessar vörur nota, að fá sem mesta verðjöfnun á þeim. Bifreiðastjórar og þeirra félagsskapur hafa verið með ályktanir um þetta efni. Alþýðusamband Íslands hefur einnig látið málið til sín taka, og mun það hafa beint fyrirspurnum um það til olíufélaganna, að komið yrði á sem mestri verðjöfnun á þessum vörum, sérstaklega benzíni. En ég hygg, að sanngjarnt væri að taka einnig hráolíuna með, ef um verðjöfnun á benzíni væri að ræða, því að notkun hráolíu hefur farið mjög í vöxt nú hin síðari ár og á vafalaust eftir að aukast mjög mikið. — Það er mjög misjöfn aðstaða manna um öflun þessara vara, ef ekki er tekið tillit til þess hjá olíufélögunum, hve misjafnt er ástatt um aðstöðu manna til öflunar þessara vara hjá þeim. sem þurfa þeirra með. En ég ætla, að með því fyrirkomulagi, sem er, og með verðlagseftirlitinu sé hægt að ná þessari verðjöfnun nokkurn veginn, án þess að verðið á vörunni þurfi að hækka mjög mikið frá því sem er. Ég hygg, að þar sem sala á þessum vörum hefur aukizt svo stórkostlega, þá geti olíufélögin auðveldlega selt vöruna án þess að hækka verðið af þessum ástæðum, þó að verðjöfnun yrði sem mest komið á.

Það er meining allshn., að hæstv. ríkisstj. láti málefnið til sín taka og reyni að ná einmitt þessum árangri sem allra bezt eftir þeirri leið, sem vakir nú fyrir n., að farin verði, þannig að olíufélögin þurfi vegna verðjöfnunar ekki að færa verðið að neinu ráði fram, þó að þessari verðjöfnun verði sem allra mest komið á.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Ég vænti, að hv. þd. geti á þessar till. n. fallizt.