13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (2633)

141. mál, verðjöfnun á benzíni

Jón Gíslason:

Herra forseti. Hv. allshn., sem hafði þetta frv. til athugunar, hefur skilað áliti sínu og flytur þar þá rökst. dagskrá, sem hv. frsm. n. var nú að lýsa. Þetta er nú nokkuð önnur afgreiðsla, en ég sem 1. flm. frv. vonaðist eftir, að yrði. En það eru þó í nál. einar röksemdir, sem ég get fallizt á, sem er, að hætt sé við, að ekki verði hægt að samþ. þetta frv. á þessu þingi.

Við, sem höfum undirbúið þetta frv., höfum nokkuð kynnt okkur, hvernig hægt mundi vera að koma á þessari verðjöfnun á benzíni og hráolíu, og við höfum ekki álitið, að það mundi vera hægt nema með lagasetningu. Að olíufélögin sjálf jafni verðið á sölustöðunum, sýnist geta verið framkvæmanleg leið. En við höfum rekið okkur á einn vondan agnúa í þeim sökum, sem er, að það er svo gífurlega mikill munur á sölu félaganna úti á landi. Sum olíufélögin selja langmest af sínu benzíni í Rvík, og þau sömu félög selja kannske lítið úti á landi. Önnur olíufélög selja tiltölulega miklu meira úti á landi af benzíni, miðað við heildarsölu fél. hvers um sig. Ef eitt allsherjar verð væri sett á benzínið á öllu landinu af verðlagsyfirvöldunum, þá er greinilegt, að olíufélögin, sem selja tiltölulega mikið benzín úti á landinu, yrðu verr úti en hin, sem selja benzín í Reykjavík aðallega og á stærri hafnarstöðunum. Þannig gæti svo farið, að þeim olíufélögum, sem selja mest af sínu benzíni á stærri stöðunum, en lítið úti á landi tiltölulega, yrði með verðjöfnuninni skapaður gróðamöguleiki af verzluninni með þessa vöru fram yfir hin olíufélögin, sem selja tiltölulega meira úti á landinu, miðað við heildarsöluna. Og ég get búizt við, ef svo yrði af stað farið. að olíufélögin yrðu bara miklu tregari til að selja vöruna úti á landi. Þennan agnúa höfum við sérstaklega rekið okkur á, sem höfum unnið að undirbúningi frv.

En það er nú þannig með t. d. benzínið, eins og allir vita, að mikill hluti af verði benzínsins eru óbeinir skattar, sem ganga beint í ríkissjóðinn. Og með því lagi, að flutningskostnaður bætist við hjá þeim, sem gagnvart flutningum eiga erfiðasta aðstöðuna, þá verður náttúrlega benzínið miklu dýrara. Og þar sem það bætist líka við í því, sem þeir, sem erfiðasta eiga aðstöðuna í þessum efnum, þurfa að borga, er, að þeir þurfa að nota svo mörgum, mörgum sinnum meira af benzíni en hinir, sem fá það ódýrara nú, og líka af þeim ástæðum greiða þeir af þessum tekjustofni ríkissjóðs svo miklu hærra hlutfall, sem erfiðasta eiga aðstöðuna um flutninga, heldur en hinir, sem ekki þurfa við þá örðugleika að etja.

En ég mun nú samt sem áður fallast á þær röksemdir hv. allshn., að frv. þetta muni ekki komast í gegnum þingið nú að þessu sinni. Og þar sem rökst. dagskráin fer í þá átt, að vinna beri að þessu máli, að verðjöfnun verði framkvæmd bæði á benzíni og hráolíu, sem er hvort tveggja nauðsynlegt að verðjafna, þá býst ég ekki við, að fundin verði betri lausn á þessu máli í bili, á þessum fáu dögum, sem eftir eru af þessu þingi.