13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2636)

141. mál, verðjöfnun á benzíni

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka fram, viðvíkjandi þessari rökst. dagskrá, að ég álít, að ekki felist í henni nein heimild til þess að hækka verð á benzíni t. d. hér í Reykjavík, þar sem það er lægst. Og ég álít, að það þurfi að koma greinilega fram — af því að ég býst við, að þessi rökst. dagskrá verði samþ. — í dagskránni, að það sé ekki tilætlun Alþ. að neinu leyti, að það sé gefin nokkur heimild til þess, að verðhækkun verði á benzíni hér í Reykjavík, þar sem það er selt ódýrara, en úti á landi, heldur sé meiningin með dagskrártill. sú, að ríkisstj. noti það vald og áhrif, sem hún getur haft gegnum olíufélögin, til þess að knýja þau til þess að lækka verðið á benzíninu úti um land, og það er vitanlegt, að það er mjög auðvelt að knýja fram þá lækkun, ef ríkisstj. notar það vald, sem hún hefur. Og ég álít, að rökst. dagskráin sé tilkynning til ríkisstj. um það frá Alþ., að það ætlist til þess, að hún í þessu efni noti sitt vald.