05.01.1950
Neðri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vildi svara einu eða tveim atriðum í ræðum þeirra hv. 1. þm. S-M. (EystJ) og hv. 8. landsk. (StJSt). Mér kemur það satt að segja undarlega fyrir sjónir, þegar þessir hv. þm., sem báðir áttu sæti í hæstv. fyrrv. ríkisstj., eru að benda núv. ríkisstj. á það, að sú leið, sem þeir fóru í sambandi við gotugjaldeyrinn sé á takmörkunum að vera lögleg. Ég er sammála þeim í því, að þetta sé vandræðaleið, og margt kemur í kjölfar hennar, sem er óæskilegt, en þetta liggur fullkomlega innan þeirra takmarka, sem lög heimila, og löggjafarvaldið hefur heimilað slíkt samkv. l. um fjárhagsráð. Leyfi þetta er mjög víðtækt, og getur ráðið sett reglur um innflutning eftir vild, svo að ég hygg, að þó að skemmtilegt sé að skírskota í lagaheimild, þá sé ekki hér um lögleysu að ræða.

Hv. 1. þm. S-M. vildi halda því fram, að hækkun á aðflutningsgjaldi vegna þess frv. gæti numið 60–80 millj. kr. á ári, og hv. 8. landsk. var með sömu tilgátu og hélt, að það færi nærri sanni. Ég vil nú gera nokkra grein fyrir því, sem stendur í grg. fyrir frv. Það er reiknað með, að innflutningur árið 1950 nemi um 300 millj. kr. Ég skal ekki segja nema hann verði nokkru meiri, ef innflutningur samkvæmt Marshallaðstoðinni væri tekinn til greina. En ef reiknaðar eru útflutningstekjur og duldár greiðslur, þá er óvarlegt að reikna með meiru en 300 millj. á þessu ári. Undanþágur samkv. 23. gr. eru 50–60 millj. kr., segjum 55 millj. kr.; ef þetta er dregið frá, eru eftir 245 millj. kr. Nú er ekki gert ráð fyrir, að söluskattur verði lagður á fyrr en 1. marz, og þá er búinn 1/6 hluti ársins og þá eru ekki eftir nema 200 millj. kr. til að skattleggja til að ná þeim 42 millj., sem þarf. Þá eru þau 21%, sem leggja má á þessar 200 millj. kr., og við það bætast svo 6%, eða samtals 27% álagning, en upphæðin verður þá rúmar 40 millj., en ekki 60–80 millj. En sé þessum 6% skatti, sem lagður er á allt árið, bætt við, getur heildarskattupphæðin komizt upp í 60 millj. kr., og sé ég ekki, að þar geti skakkað miklu, en breytist nokkuð, ef útflutningsáætlunin reynist eitthvað hærri eða lægri. Hv. 8. landsk. áleit, að skurðarpunkturinn í þessum till. ætti að vera 1. marz, og gæti verið, að það væri ekki óhyggilegt, en ef svo væri, þarf ekki að búast við, að miklar tekjur séu komnar þá, en Alþ. verður þá að sjá fyrir greiðslum, sem þá eru fallnar í gjalddaga og ekki er hægt að komast hjá, en fyrir mér vakti, að tekjustofnar stæðu undir kostnaði, sem orðinn yrði 1. marz. Auðvitað er hægt fyrir Alþ. að gera þennan skurðarpunkt og segja, að það ráðstafi þessu ekki lengur, en þá tekur það á sig þá ábyrgð, að útvegurinn stöðvist á miðri vertíð.