05.01.1950
Neðri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta frv. hefði getað verið komið fyrir nýár, og hefði það verið betra, því að þetta frv. sýnir ekki mikinn undirbúning og hefði hæstv. ríkisstj. getað byrjað að undirbúa það strax og hún var sett á laggirnar, en ekki þurft að bíða eftir kröfum frá útgerðarmönnum um það, hvað þeir teldu sig þurfa hátt ábyrgðarverð. Það var skýrt fyrir þm., áður en þeir fóru heim í jólafrí, að ástæðan fyrir því, að málið væri ekki leyst, væri sú, að ríkisstj. hefði komizt að því, að þörf væri róttækari og gagngerari breytinga, en hún hélt í fyrstu, en svo kemur þetta frv., sem er mjög í sama stíl og undanfarin ár og hefði vel getað verið komið fyrir nýár, svo að bátarnir hefðu strax getað hafið vertíð. Ég er sammála um það, að nauðsyn sé að tryggja ákveðið verð á fiski, svo að bátarnir fari af stað, og geri ég ráð fyrir, að allir hv. þm. séu sammála um það.

Það er vert að líta á þróun þessara mála og hvenær fiskábyrgð var fyrst ákveðin, en hún hófst upphaflega í ársbyrjun 1946 fyrir hluta hraðfrysta fisksins og ákveðið magn af saltfiski til að tryggja rekstur útvegsins. Í ársbyrjun 1947 eða fyrir áramót stóð þannig á, að stjórnarkreppa hafði verið og sjávarafurðir ekki seldar, en söluhorfur sæmilegar og forsendur fyrir ábyrgðinni voru þær, að þetta væri gert til að tryggja rekstur útvegsins, þó að ekki væri búið að selja afurðirnar. Þegar svo hæstv. fyrrv. ríkisstj. tók við, lagði hún höfuðkapp á að sannfæra menn um, að fiskábyrgðin væri óheppileg og það yrði að hætta við hana, en þegar hæstv. ríkisstj. átti sjálf að gera ráðstafanir til að bátaflotinn gæti starfað, fann hún ekkert annað ráð, en þetta og framlengdi fiskábyrgðina óbreytta í þau 2 ár, sem hún sat að öllu leyti að stjórn, þannig að hún kom ekki með neitt nýtt annað en álögur, sem hún afsakaði með því, að þær ættu að standa undir útgerðinni, og ávallt voru hærri en líklegt var, að ábyrgðin yrði. Þannig notaði hún ábyrgðina til að leggja á hærri tolla og skatta, en áður hafa þekkzt, og þetta er orðin svo föst regla, að þegar lögð er fram till. um 12 millj. kr. útgjöld, eins og þegar um uppbót til opinberra starfsmanna var að ræða, þá þykir ekki ómaksins vert að útvega tekjur til að standa á móti því. Útvegurinn er þannig notaður sem bakhjarl til að afsaka með álögurnar og er notaður sem átylla til að leggja nýja, ósanngjarna skatta á almenning af hæstv. fyrrv. og sennilega hæstv. núv. ríkisstj., og dýrtiðin með því móti gerð enn óviðráðanlegri, en áður. Ég minnist þess, að í blaði hæstv. fjmrh. er því haldið fram, að það kosti ríkið 70 millj. kr. á ári að halda bátaútveginum uppi, og almenningur hér í Rvík. sem kominn er úr tengslum við atvinnuvegina, trúir, að allar þessar álögur séu gerðar til að halda útveginum uppi. En sannleikurinn er sá, að álögur þessar gera vandamál útvegsins meiri ár frá ári, en þetta er gert af þeim, sem fá tekjurnar af gjaldeyri þeim, sem útgerðin hefur aflað, og nú verða þeir að halda trúnni við. Að ausa styrkjum til útgerðarinnar þýðir því það, að gróðastéttin hér fái enn meira fé til sinna þarfa, en útgerðin situr eftir með sitt tjón. Það er því engin tilviljun, að hæstv. núv. ríkisstj. hefur haldið áfram á sömu braut. Heildsalarnir hafa viljað halda aðstöðu sinni áfram, og því er lagður nefskattur á almenning í landinu til að halda við gróða auðmannastéttarinnar í Reykjavík.

Ræturnar að erfiðleikunum má rekja langt aftur í tímann. eða til ársins 1933 eða 1934. Og alltaf þegar sá aðilinn, þ.e. sjávarútvegurinn, sem átti að veita blóði í þetta kerfi heildsala og gróðamanna, hefur verið að því kominn að sligast, þá hafa höftin verið aukin. Þegar ég beitti mér fyrir því, að ábyrgðarlögin væru sett, þá var það höfuðröksemdin, að ríkið væri skyldugt til að gera þetta á meðan það tæki gjaldeyrinn frá útveginum, en raunin hefur orðið sú, að ríkinu blæðir, en gróðinn rennur til þeirra, sem hagnýta gjaldeyrinn. Ég er sannfærður um það, að á meðan sá háttur er hafður á, að gjaldeyririnn er tekinn frá þeim, sem afla hans, og fenginn öðrum, sem enga áhættu hafa af þessu, en græða með því móti tugi milljóna, þá er útvegurinn settur í óþolandi aðstöðu, sem ekki verður greitt úr. Hvað svo sem ríkisvaldið gerir og hversu mikið sem það greiðir í þessu skyni. verður það aðeins bráðabirgðalausn, meðan ekki er ráðizt á þetta kerfi. Skattar þeir, sem lagðir hafa verið á almenning undir því yfirskini, að það væri gert til að bjarga útgerðinni, hafa átt höfuðsökina á aukinni dýrtíð í landinu. Höfuðástæðunnar til þess, að launþegar og opinberir starfsmenn kröfðust hærri launa, er að leita í þessum ósanngjörnu nefsköttum, sem ríkisstj. telur, að séu til að bjarga sjávarútveginum. Nú er verið að leggja á nýja skatta, sem talið er að nemi rúmum 40 millj. kr., en sterk rök mæla með að verði 60–80 millj. kr., en ekki eins og hæstv. ráðh. telur, því að hann tekur ekki tillit til þess, að 6% eru ekki lögð á gjaldeyrinn, heldur á vöruna hingað komna og borgaða með íslenzkum peningum. Mér finnst því, eftir að hafa hlustað á umr., að réttara muni, að þessir skattar nemi 60–80 millj. en rúmum 40 millj., eins og hæstv. ráðh. sagði.

Ríkið fór inn á þá braut að ábyrgjast verð á fiski, sem óhjákvæmilegt var, því að annars hefði allt stöðvazt, meðan enginn meiri hluti var fyrir því að breyta innflutningsfyrirkomulaginu, sem óhjákvæmilegt er að gera, eins og bezt sést á þessu frv. En það er hinn mesti misskilningur hjá ríkisstj., úr því að á annað borð er verið að ábyrgjast verð á fiski, að vera að skera það við nögl sér, sérstaklega frá sjónarmiði þeirra, sem ætla sér að greiða kostnaðinn með tollum á almenning, og ef þetta er á annað borð gert, þá verður að koma útveginum vel af stað, svo að sem mest veiðist, því að það skapar meiri gjaldeyri og aukinn innflutning og þar af leiðandi meiri skatta og tolla, og hefur þessi knífni valdið meira tjóni, en græðzt hefur.

Það kom í ljós, að mikill skaði var að því að fylgja ekki till. sósíalista um að framleiða meiri saltfisk, en hæstv. fyrrv. ríkisstj. virtist vera hrædd við það og fór meira að segja inn á þá braut að greiða útflutningsuppbætur á ísaðan fisk, sem leiddi aftur til þess, að hraðfrystihúsin fengu ekki nægilegt hráefni, og varð því framleiðsla þeirra dýrari, og saltfiskframleiðendur fengu ekki heldur nægilegan fisk, en þeir hefðu getað selt meira og fengið meiri gjaldeyri fyrir hann, en ísaðan fisk. Nú er þannig komið, að líkur eru til, að togararnir verði að fara að leggja afla sinn upp í salt. Þetta skapar okkur þörf fyrir mikla og góða saltfiskmarkaði. En markaðsörðugleikarnir fyrir ísfiskinn eru ekki eingöngu okkur Íslendingum að kenna eða dýrtíðinni hér heima, því að hver heilvita maður sér, að það getur alls ekki borgað sig að sigla út með 300 tonn af fiski og fá fyrir þau kannske 3000 £. Þetta bara sýnir, að við verðum að verka fiskinn hér heima og afla okkur nýrra markaða. En þá þýðir ekki að afhenda einokunarhringum einkaleyfi á sölunni, og því fyrirkomulagi, sem verið hefur, að láta eitt félag, Sölusambandið, hafa alla salafisksölu með höndum, verður að breyta. Þess munu vera dæmi, að menn hafa ekki fengið að selja sinn fisk, þó að hærra verð hafi verið í boði en það, sem Sölusambandið seldi fyrir, vegna þess að þeir fengu ekki leyfi til þess. Ég tel það algerlega ranga leið, að binda afurðasöluna til útlanda slíkum skorðum og ekki sízt, þegar hún er fengin í hendur félagi, sem hefur á henni einkaleyfi án þess að þurfa að standa ríkinu reikningsskap gerða sinna, auk þess sem slík aðferð er stórhættuleg vegna markaða. Ég er sannfærður um, að við fengjum betra verð fyrir saltfiskinn, ef framleiðendur fengju að selja hann sjálfir. Auk þess hefur komið fram ákæra frá L.Í.Ú. á þetta sölufélag, að það hafi ekki haft það sjónarmið, að framleiðendur fengju sem hæst verð fyrir fiskinn, heldur hafi einkahagsmunir fárra manna setið í fyrirrúmi. Ég ætla ekki að fara nánar út í það mál hér, þó að það sé mjög alvarlegt og krefjist nákvæmrar rannsóknar. Það er mjög eðlileg og sjálfsögð afleiðing, að ríkið verði að bera ábyrgð á vissu fiskverði, þegar það hneppir útveginn í slíka fjötra sem raun ber vitni í sambandi við afurðasöluna og þar að auki tekur allan gjaldeyri af útgerðinni og ráðstafar honum til heildsala og annarra, sem hafa af honum stórkostlegan gróða. Þetta hefur verið gert nú síðustu ár, en svo er bara komið og sagt, að útgerðin sé komin á ríkið. Sannleikurinn er sá, að allur sá gífurlegi gróði, sem einstaklingar og félög hafa hlotið í sambandi við innflutningsverzlunina, er runninn beint frá sjávarútveginum; og hefði hann lent í höndum útvegsmanna, þá væri sjávarútvegurinn betur stæður. Þessi þróun undangenginna ára er óeðlileg og hættuleg þessum undirstöðuatvinnuvegi okkar, því að sumir eru farnir að trúa þeirri firru, að hann sé raunverulega kominn á ríkið. Það er því alveg nauðsynlegt að stíga skref til þess að samræma hagnaðarvonina í innflutningsverzluninni og áhættuna í sjávarútveginum, svo að hann verði rekinn með öllu því fjármagni og öllum þeim kröftum, sem til eru bæði hjá verzlunarmönnum og útvegsmönnum. Þjóðin á allt undir sjávarútveginum, og hún getur alls ekki haldið uppi eðlilegu fjármálalífi nema útvegurinn sé rekinn með krafti.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er áframhald á sömu braut og áður, og það er í raun og veru mjög eðlilegt, því að þau öfl, sem að ríkisstj. standa, vilja ekki aðra lausn. Ríkisstj. væri sennilega til með að auka enn meira álögurnar á almenning. ef hún þyrði það vegna bæjarstjórnarkosninganna, en við verzluninni má alls ekki hrófla. Það er sem sé alveg útilokað, að hún leysi grundvallaratriði til úrbótar í þessu máli, en það er breyting á gjaldeyrisverzluninni. Heildsalarnir eiga að fá að halda áfram að græða, hvað svo sem það kostar ríkið. Þessi aðstaða, sem innflytjendunum er sköpuð með þessu fyrirkomulagi, veldur hinu geysimikla kapphlaupi eftir gjaldeyri, sem leiðir svo af sér svartamarkaðsbrask og alls konar svindl. Og þetta skipulag veldur því, að fáir fást til að leggja fé í framleiðsluna, enda heppnast þeim, sem gjaldeyrinn hreppa, að safna milljónum á þurru landi, án þess svo mikið sem að koma nærri nokkru, sem heitir framleiðsla. Það er að segja útgerðarmenn og framleiðendur hafa áhættuna, en heildsalarnir hirða ágóðann. Á meðan slíkur háttur er á hafður, er engin von til að finna varanlega lausn á vandamálum útvegsins og framleiðsluatvinnuveganna yfirleitt. — Við sósíalistar höfum borið fram till. um það, að bátaútvegurinn fengi að ráðstafa einhverjum hluta af þeim gjaldeyri, sem hann aflar, og þá um leið hljóta ágóðann af þeim gjaldeyri. Þetta hefur ekki fengizt samþykkt, þó að hver maður hljóti að sjá, að það gæti að verulegu leyti leyst vanda þessa atvinnuvegar, auk þess sem það mundi örva menn mjög til þess að leggja fé og fyrirhöfn í þennan áhættusama rekstur. Við höfum glöggt dæmi þess í sambandi við Faxasíldina í haust. Það var útlit fyrir, að alls ekki yrði gert neitt út á síldveiðar í Faxaflóa á síðasta hausti, en til þess að fyrirbyggja það var útvegsmönnum gefinn kostur á að ráðstafa þeim gjaldeyri, sem fyrir þá síld fengist, sem kynni að veiðast. Þetta varð til þess, að saltaðar voru um 40 þúsund tunnur síldar, sem ella hefðu alls ekki orðið til, auk þess sem það bjargaði fjölda manns frá atvinnuleysi og skapaði miklar tekjur fyrir bátaútveginn. Mér dettur ekki í hug, að hægt sé að gefa allan gjaldeyri frjálsan, en allmiklum hluta mætti leyfa útgerðarmönnum að ráðstafa og létta með því undir erfiðleikum útvegsins. Við þurfum að skapa útveginum betri aðstöðu, og slík ráðstöfun, sem hér hefur verið drepið á, stefndi í rétta átt. Hins vegar er ekkert í frv., sem léttir verulega undir með útveginum eða er til þess fallið að örva hann. Það hefur að vísu verið gefinn frjáls nokkur gjaldeyrir, en það er aðeins gjaldeyririnn fyrir þær vörur, sem ella hefði verið kastað í sjóinn, eins og t.d. hrognin.

Þá ætla ég að víkja nokkuð að ábyrgðarupphæðinni, en þar finnst mér ríkisstj. fara nokkuð gáleysíslega með tölur, eftir því sem gert er ráð fyrir í grg. frv. Ég get ekki séð, að fiskábyrgðin til 15. maí muni kosta 21 millj. kr. Það er talað um, að fiskábyrgðarkostnaðurinn, sem komið hefði á þetta tímabil árið 1949, hefði numið 20 millj. og 200 þús. kr., en svo er gert ráð fyrir 21 millj. og 400 þús. til viðbótar. Ef gert er ráð fyrir, að hraðfrysti fiskurinn verði 20 þús. tonn, þá sé ég ekki, að kostnaðurinn vegna ábyrgðarinnar á honum geti verið meiri en 8,8 millj., miðað við sama verð og í fyrra. Sé svo gert ráð fyrir 15 þús. tonnum af saltfiski, þá nemur sú viðbót á ábyrgðarverðinu ca. 3,5 millj., eða samtals væri um 12.3 millj. að ræða. En þess í stað telur ríkisstj. sig þurfa yfir 20 millj. Jafnvel þótt minn útreikningur væri að einhverju leyti of lágt reiknaður, þá er þessi upphæð ríkisstj. ranglega allt of há. Það virðist því sem ríkisstj. hugsi sér nú að leggja nýjan skatt á vegna allrar fiskábyrgðarinnar, enda þótt allir skattarnir, sem lagðir voru á vegna ábyrgðarinnar í fyrra, hafi verið framlengdir. Ég verð að segja, að mig rak í rogastanz, þegar ég sá þessa viðbótarupphæð, sem ríkisstj. hugsar sér að afla vegna fiskábyrgðarinnar. Það eru harla einkennilegar ráðstafanir, ef afla á tekna vegna fiskábyrgðarinnar, að innkalla allar tekjurnar, sem lagðar voru sérstaklega á vegna fiskábyrgðarinnar fyrir, en bæta svo við nýjum álögum á almenning, sem nema allri fiskábyrgðinni. Þetta eru ráðstafanirnar, að vísu til bráðabirgða, segir ríkisstj. Annars hef ég nú ekki mikla trú á varanlegri lausn á þessum vandamálum frá þeim, sem að stj. standa, en það er bezt að láta reynsluna skera úr því. Ég mótmæli þeirri aðferð, sem hér á sýnilega að viðhafa, en hún er sú að leggja á almenning þunga skatta og nota til þess fiskábyrgðina eða telja fólki trú um, að skattarnir séu allir vegna hennar. Sósfl. hefur frá upphafi verið andvígur skattapólitík fyrrv. og núv. ríkisstj., en hún hefur verið að auka stöðugt tolla og nefskatta. Þessir skattar koma langharðast niður á almenningi og alveg eins á þeim, sem sízt geta staðið undir þeim. Launþegum hefur verið talin trú um, að þessir skattar væru nauðsynlegir til þess að bjarga útveginum frá stöðvun, og vegna þessara blekkinga hefur heppnazt að leggja á óvinsælustu skattana í skjóli fiskábyrgðarinnar. Þetta hefur orðið til þess að baka útveginum óvinsældir og gert marga fráhverfa honum, þegar hann þurfti verulega á örvun að halda. Sömuleiðis hefur því verið haldið fram, að útvegurinn lifði nú orðið á ríkissjóði, og getur hver heilvita maður séð, hvílík firra slíkt er, þó að hann fái lítils háttar styrk á móti margföldum upphæðum, sem af honum eru teknar. Blekkingar sem þessar eru ekki til þess fallnar að auðvelda lausn þeirra vandamála, sem nú bíða.

Í sambandi við lækkun á rekstrarkostnaði útvegsins er ekkert nýtt í þessu frv. Aðeins er gert ráð fyrir að verja svipaðri upphæð og ákveðið var á síðasta ári í þessu skyni, en þá var ákveðið að verja 5 millj. kr. til að lækka vátryggingagjöld bátaflotans. Þá var líka ákveðið, að bankarnir skyldu láta af hendi ódýr rekstrarlán. Framkvæmdin á þessu ákvæði mun hafa orðið sú, að bankarnir lánuðu til stutts tíma rekstrarfé með 4% vöxtum, en væri lánið ekki greitt á þeim ákveðna tíma, hækkuðu vextirnir í 61/2 %, án tillits til þess, hvernig á stóð. Virðist sú framkvæmd allhæpin og í alla staði mjög óréttlát. Sósfl. hefur alltaf lagt áherzlu á, að lækka bæri útgerðarkostnaðinn og aðstoða útveginn á þann hátt. Í því sambandi hefur verið bent á, að eðlilegast væri að bankarnir, sem hafa mest af sínum tekjum af sjávarútveginum, létu í té ódýr rekstrarlán, t.d. með 21/2 % vöxtum. Gæti slíkt orðið verulegt hagræði fyrir útveginn. Þeir bátar, sem fengu stofnlánadeildarlán, verða að borga 6%. Lægstu vextirnir eru af lánum úr fiskveiðasjóði, eða 4%, en svo eru þeir sem sagt allt upp í 6%, sem eru hreinustu okurvextir. Með þessum ráðstöfunum væri hægt að bæta afkomuna mjög mikið, og enn má gera ýmsar aðrar ráðstafanir, sem við sósfalistar höfum hvað eftir annað bent á, t.d. varðandi olíuverzlunina. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, að hún er rekin með þeim endemum, að hver lítri er hátt á annan tug aura hærri en hann þyrfti að vera. Í stað þess að dreifingarkerfið sé aðeins eitt, þá eru þau þrjú. Þrjú olíufélög, sem keppa hvert við annað og öll verða að láta reksturinn bera sig, hafa líka ábyggilega samkomulag um það, og það kemur svo á bak útvegsins að halda rekstri þeirra uppi. Við getum stórlækkað olíuna, jafnvel svo, að þrátt fyrir gengislækkunina hefði engin hækkun þurft að verða á henni, ef dreifing færi fram með hagkvæmari hætti. Þá eru enn fremur óhóflegir skattar á útgerðarvörum og álagning verzlunarfyrirtækja, sem losna mætti við, ef samtök sjómanna sjálfra önnuðust innkaup á þeim. Hefur margoft verið á þetta bent af okkur sósíalistum, en það hefur mætt litlum skilningi af hálfu stjórnarvaldanna, a.m.k. fyrrv. stjórnar. Koma þar ábyggilega fremur til greina annarleg sjónarmið verzlunarmannanna, en sjónarmið útvegsmanna.

Þá er það, sem hvað mestum vandræðum veldur, sú óheillastefna fyrrv. ríkisstj. að láta pólitískt ofstæki ráða markaðsöflun í stað þess að láta viðskiptahagsmuni Íslands eina ráða. Það eru engin skynsamleg rök fyrir því, að okkur hafi ekki staðið til boða markaðir í Sovétríkjunum 1948 eins og 1947. En ríkisstj. gerði allt til að fyrirbyggja, að við hefðum þar viðskipti, og enginn ráðh. gat svo opnað sinn munn, að hann dengdi ekki svívirðingum yfir þessa aðila, enda var þá búið að gera Marshallsamning, svo að fúkyrðin voru ekki út á bláinn sögð. Þá býst ég við, að það sé einsdæmi, að einn ráðherra hafi hagað sér þannig eins og við heyrðum hér, að hann hélt því fram, að Sovétríkin settu pólitísk skilyrði fyrir kaupum á okkar afurðum á sama tíma og verið var að leita þar samninga um markaði. Þeir vissu líka, hvað þeir voru að gera, ráðherrarnir. Þeir voru sem sagt sannfærðir um, að Bandaríkin og Bretland mundu leysa öll okkar viðskiptavandamál. Sú von hefur nú heldur en ekki brugðizt. En svo ákveðin var þessi viðleitni að einskorða markaði okkar við engilsaxnesku löndin, að við vorum byrjaðir að gera tilraunir með landanir í Austur-Þýzkalandi og Sovétríkjunum á ísfiski, en hinn erlendi fulltrúi, sem um þær mundir var staddur hér uppi, var atyrtur á hinn versta hátt, og engir samningar tókust. Hefði þó mátt bíða eftir því að reyna, hvort þessi viðskipti gætu ekki orðið hagkvæm. Um leið og við vorum búnir að missa markaðina í Sovétríkjunum, færði England sig svo upp á skaftið og lækkaði verð á vörum okkar, sem það hafði neyðzt til að hækka á meðan við höfðum sambönd í austri. Sú reynsla hefur orðið hvarvetna, þar sem Sovétríkin hafa komið inn. að verðið hefur hækkað þannig, t.d. það sem nýjast má nefna, að verð á ull frá Ástralíu hefur stórhækkað vegna keppni Sovétríkjanna við auðhringana um þá vöru. — Þannig hafa hagsmunir okkar í viðskiptamálum verið bornir fyrir borð vegna pólitísks ofstækis.

Hæstv. atvmrh. sagði, að ekki bæri að skoða álagningu skatta í frv., sem hann viðurkenndi, að kæmu óréttlátlega niður á almenningi, sem stefnu Sjálfstfl. Finnst nú nokkrum manni líklegt, að Sjálfstfl. komi með þessar till. sínar rétt fyrir kosningar, en geymi sínar sanngjörnu og góðu till. þar til eftir kosningar? Fáir munu verða til að trúa því. Þær till., sem Sjálfstfl. mun hugsa sér að gera eftir kosningar, verða sjálfsagt ekki fallegar, fyrst þessar eru svona. Reynslan er sú af Sjálfstfl., og raunar hinum tveimur stuðningsflokkum fyrrv. ríkisstj. einnig, að þeir hafa verið ákaflega kjarkmiklir til árása á alþýðu rétt eftir kosningar, en móðurinn hefur svo runnið af þeim, þegar kosningar hafa nálgazt. Allar líkur eru til, að sama sagan endurtaki sig nú. Ég verð að segja, að ég er mjög undrandi yfir því, að Sjálfstfl. skuli ekki vera kominn það langt í athugunum sínum á ástandinu, sem honum hefði nú raunar átt að vera fullkunnugt um, að hann geti látið Alþingi vita í höfuðdráttum, hvað hann hugsar sér. Það virðist vera erfitt að fá á því aðra skýringu en þá, að ekkert megi láta uppi, fyrr en að afstöðnum kosningum og mikið liggi við að leyna því þangað til, sem á seyði er.

Hæstv. forsrh. gat þess, að útveginum yrðu látin í té sömu gjaldeyrishlunnindi og á síðast liðnu ári og eitthvað til viðbótar. Væri fróðlegt að vita, hvað fyrirhugað er. Vil ég skora á hæstv. atvmrh. að gefa þær upplýsingar í því efni, sem hann getur.

Í frv. er gert ráð fyrir, að ábyrgðin nái til 15. maí, og bent á, sem rétt er, að ef hún ætti aðeins að ná til 1. marz, mundu bátarnir ekki fara af stað. En ég vil benda á, að hér er eingöngu miðað við vetrarvertíðina við Faxaflóa, en fiskur er víðar dreginn úr sjó en þar. Vertíðirnar á Vestur-, Norður- og Austurlandi byrja í endaðan marz og apríl og standa fram í júní. En 15. maí á fiskábyrgðin að falla niður, og þá á sem sagt að banna þessu fólki að halda vertíðinni áfram, enda þótt Því sé hin mesta nauðsyn, t.d. á Norðurlandi, þar sem síldarleysið hefur komið mjög hart niður, að fiskveiðarnar verði því sem tekjudrýgstar. Það þarf nauðsynlega að ganga þannig frá, að ábyrgðin gildi fyrir allt árið. Allt annað er of mikið öryggisleysi fyrir fólkið í þessum landshlutum og yrði aðeins til að hrekja það í enn stærri stíl til Rvíkur og þorpanna við Faxaflóa, enda er það eitt sanngjarnt, að Alþingi hugsi líka um vandamál þessa fólks.

Hvað snertir tekjuöflunarleiðir til þess að standa undir ábyrgðinni, þá er Sósfl. á móti nefsköttum og drápstollum og hefur hins vegar oft bent á tekjuöflunarleiðir, sem ekki koma niður á almenningi og valda ekki aukinni dýrtíð, en það er aftur á móti raunin um tollana og nefskattana, sem hafa svipaða verkun og að pissa í skóinn sinn. Sósfl. er því andvígur þessum tekjuöflunarleiðum og mun ekki greiða atkvæði með þessum sköttum.