21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2692)

37. mál, sveitarstjórar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Tveir af hv. nm. hafa nú talað um þær aths., sem ég hreyfði við þetta frv. Fyrsta atriðið, sem ég nefndi, er ekki stórt í mínum augum, en ég vil benda á, að samkv. brtt. er þessu ætlað að gilda þar einnig, sem 500 eða fleiri búa í kauptúni, og samkv. því ákvæði verður verkssvið sveitarstjóra einnig utan kauptúnanna. Hæstv. landbrh. hefur hreyft þessu máli, og er ég honum sammála um það atriði.

Þá er það nýmælið að binda ekki ráðningartímann við ákveðið tímamark, heldur að ráða manninn til æviloka. Hv. 3. landsk. finnst, að þetta skapi meiri festu í allri stjórn hreppsmálanna, og getur það vel verið, en mér finnst, ef hv. n. vill vera sjálfri sér samkvæm, að þá ætti hún að flytja frv. um, að ráðning bæjar- og borgarstjóra skuli þá einnig ekki bundin við neitt ákveðið tímamark. Það getur vel verið, að það skapi meiri festu að ráða t. d. borgarstjóra í Reykjavík upp á lífstíð, eða svo lengi sem hann hefur starfsorku til, hvernig sem fer um meiri hluta í bæjarstjórn. Þetta er nýmæli, sem vel getur verið gott að athuga, en það á ekki einungis að láta það gilda í hreppsfélögunum. En þá má einnig leiða hugann að því, hvort ekki eigi líka að láta þetta gilda um ríkisvaldið sjálft og ráða t. d. ráðherra ævilangt, hvernig sem fer um flokkaskipun í þinginu. Þetta er alveg hliðstætt og ástæða til að athuga þetta mál frá öllum hliðum.

Þá er það atriði að gera sveitarstjórann að hreppstjóra, sem er raunar mikið vafamál, hvort setja eigi inn í frv. Hv. 3. landsk. var eitthvað að óttast um, að sveitarstjórinn þætti kannske ekki hæfur til þess að gegna hreppstjórastörfum nema það væri sett í lög. Ég held, að það sé engin hætta á því, sem hv. 3. landsk. virðist óttast, og þar sem ekki er sagt í gr., að það eigi að fela sveitarstjóra hreppstjórastörf, heldur aðeins heimild til þess, þá held ég, að þessi grein verði aðeins hortittur í l. og engin ástæða til að óttast, að sveitarstjóri geti ekki tekið við hreppstjórastarfi eins og aðrir, þótt þessi gr. sé felld í burtu.