21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2696)

37. mál, sveitarstjórar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru tvö efnisatriði, sem aðallega hefur verið rætt um við þessa umr. Annars vegar er það 7. brtt. n., þar sem gert er ráð fyrir því, að sveitarstjórar geti gegnt hreppstjórastörfum, og hins vegar ákvæði 1. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að heimildarlöggjöf þessi taki einungis til hreppa, þar sem fleiri en 500 íbúanna búa í kauptúni. Í tilefni af þessu vil ég taka það fram, að n. óskar að taka aftur 7. brtt. til 3. umr. og mun hún taka til athugunar þau sjónarmið, sem komu hér fram hjá hv. þingmönnum um þetta efni. Ég skal geta þess, að n. bárust fregnir af því, að þær skoðanir ættu nokkurt fylgi á Alþ., að mjög væri æskilegt að gera ráðstafanir til þess að sameina með lagaboði sveitarstjórastörf og hreppstjórastörf í þessum hreppum, sem hér koma til greina. Og þótt ekki kæmu fram ákveðnar till. í þá átt hér í hv. d., þá er mér ekki grunlaust um, að slík till. mundi koma fram í hv. Ed. og að það fyrirkomulag ætti nokkru fylgi að fagna í þeirri hv. d. Að athuguðu máli treysti n. sér ekki til að leggja til, að það verði bundið í lögum, að þessi tvö störf, sveitarstjórastarfið og hreppstjónastarfið, verði sameinuð með lögum. Þess vegna varð það niðurstaða n. að leggja til að heimila að sameina þessi tvö störf, þar sem það þætti eiga við. Hins vegar hef ég ekki lagt þann skilning í þessa gr., að með þessu ákvæði væri verið að breyta l., sem gilda um val á hreppstjórum, og það er sjálfsagt að athuga, hvort þessi 7. tölul. brtt. fer nokkuð í bága við þessi gildandi lög.

Í tilefni af þeirri gagnrýni, sem komið hefur fram á 1. gr., að eðlilegt sé að láta heimildina ná til allra hreppa, sem hafa fleiri en 500 íbúa, hvort sem þeir búa allir í kauptúni eða ekki, — en þeir hreppar eru ekki margir, sem hafa þá íbúatölu, en eru samt sveitahreppar, — þá vill n. gera athugun á þessu til 3. umr. En hún óskar eftir, að frv. fái að halda áfram til 3. umr., að öðru leyti en því, sem ég hef tekið fram um 7. tölul. brtt. n.

Andmæli gegn aðalatriðum frv. hafa ekki komið fram af hálfu hv. þm., nema ef skilja ætti það sem andmæli gegn meginatriðum frv., að hv. þm. V-Húnv. (SkG) brá sér á leik og varpaði því fram, hvort ekki væri þá ástæða til að gera starf bæjarstjóra og borgarstjóra og þá einnig störf ráðh. að föstum störfum, ef það væri ástæða til þess að gera störf oddvita að föstum störfum og gera þá að sveitarstjórum. En á þessu er auðvitað hinn mesti munur. Öll þessi framkvæmdarstörf, bæði í þágu sveitarfélaga og ríkisvalds, eru tvíþætt. Annars vegar er um að ræða hreina stjórn, hreina admínistration, sem inna má af hendi án alls tillits til stjórnmálasjónarmiða. Hins vegar er um að ræða yfirumsjón með framkvæmd laga og um ýmis störf, þar sem stjórnmálasjónarmið skipta eðlilega miklu máli og mjög mikið getur riðið á hver framkvæmir.

Þar sem hvor þátturinn um sig er mjög lítill, eins og er í hinum minnstu hreppum landsins, er varla við því að búast, að þar sé verkefni nema fyrir einn mann, og þá verða menn að gera upp við sig, hvorn starfshlutann þeir telja þýðingarmeiri, þann hlutann, sem er hreint framkvæmdastjórastarf, eða hinn, sem er fólginn í pólitískum umboðsstörfum. Í hinum stærri sveitarfélögum, eins og kaupstöðunum, eru þessi störf svo umfangsmikil, að vandalaust er að skipta þeim milli tveggja starfsmanna. Og hjá ríkinu eru þau svo geysilega umfangsmikil, að þeim er skipt á heila flokka af starfsmönnum. Stjórnarráðsskrifstofunum er þannig fyrir komið hjá okkur og í öðrum lýðræðisþjóðfélögum, að störf ráðherranna eru pólitísk umboðsstörf. En þau störf fyrir ríkið, sem eru algerlega admínistratív, eru í höndum skrifstofustjóra og ýmissa embættismanna, svo sem vegamálastjóra, landlæknis, biskups o. s. frv. Þessi störf eru föst störf. Hingað til hefur verið litið á störf bæjarstjóranna og borgarstjóra sem pólitísk umboðsstörf, sem framkvæmd væru fyrir hinn pólitíska meiri hluta, sem ráðandi væri í kaupstaðnum á hverjum tíma, og þess vegna yrði að ráða þá til sama kjörtímabils og hinn ráðandi pólitíski meiri hluti í bæjarstjórninni er kosinn til. En menn hafa séð, að það var ekki heppilegt að sá pólitíski umboðsmaður færi með öllu með stjórn þeirra mála fyrir bæjarfélögin, sem sveitarstjórum er ætlað að fara með fyrir kauptúnshreppana, og þess vegna hefur starfinu verið skipt hér í Reykjavík með því að stofna embætti borgarritara. Hann hefur á hendi ýmis hinna admínistrativu starfa fyrir bæjarstjórnina. En ég álít, að einnig í Reykjavík ætti að ganga enn lengra á þessu sviði. Öll admínistratívu störfin ættu að vera í höndum fastra borgarstjóra eða borgarritara. Þau ættu ekki að vera í höndum sama manns og er pólitískur umboðsmaður bæjarstjórnarmeirihlutans. Auðvitað þarf bæjarstjórnarmeirihlutinn að hafa slíkan umboðsmann, yfirborgarstjóra eða hvað svo sem hann yrði kallaður, og er það nóg starf. En ég held þó, að meiri hlutinn af þeim störfum, sem bæjarstjórnir þurfa að láta framkvæma í kaupstöðum, sé frekar admínistrativs eðlis en þannig, að nauðsynlegt sé, að þau séu framkvæmd af umboðsmanni pólitísks meiri hluta í bæjarstjórninni. Þess vegna teldi ég það spor í rétta átt að gera ráðstafanir til þess, að framkvæmdastjórastörfin væru meir en nú á sér stað dregin úr höndum pólitísks framkvæmdastjóra bæjarstjórnarmeirihlutans á hverjum tíma og lögð í ríkara mæli í hendur manns, sem liti frekar á sig sem ópólitískan embættismann og væri ráðinn sem slíkur. En þegar um er að ræða kauptún með færri en 500 íbúa, þá háttar þannig til, að heildarverkefnið, sem fyrir hendi er, það admínistratíva og hitt að vera pólitískur umboðsmaður ákveðins meiri hluta í hreppsnefndinni, er svo lítið, að það er ekki verkefni nema fyrir einn mann. Og þá er spurningin, hvort á að leggja meiri áherzlu á admínistratívu eða pólitísku hliðina. Enginn ágreiningur getur verið um það, að framkvæmdarstörfin í slíkum hreppum eru fyrst og fremst admínistratívs eðlis, þau eru þannig, að þau yrðu framkvæmd nákvæmlega eins, hvernig sem stjórnmálaskoðun framkvæmdastjórans yrði háttað. Þess vegna virðist rétt að ráða slíka menn samkvæmt þeim reglum, sem eðlilegastar eru við val þeirra, sem eiga að hafa admínistration með höndum, en ekki pólitísk umboðsstörf. En í hreppum, sem þessi l. mundu gilda um, ef að l. verða, hefur hreppsnefnd meirihlutavald, og oddviti í þeim hreppum verður eftir sem áður framkvæmdastjóri hreppsn. og mundi koma fram fyrir n. hönd, og hann mundi verða hennar pólitíski umboðsmaður.

Þetta vildi ég segja um meginnýmæli þessa frv., í tilefni af ummælum hv. þm. V-Húnv.