21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (2697)

37. mál, sveitarstjórar

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það voru sérstaklega orð, sem féllu hjá hv. síðasta ræðumanni, sem urðu til þess, að mig langar til að beina nokkru til hv. n. — Hann sagði, að sterk hreyfing mundi vera, ef ekki hér í hv. þd., þá í hv. Ed., í þá átt, að sameina beri þessi tvenn störf, starf hreppstjóra og sveitarráðsmanns, þannig, að fastbinda það, að sami maður gegni störfum hreppstjóra og sveitarráðsmanns, þar sem hann væri ráðinn. Ég held, að þetta verði dálítið erfitt og vil vekja athygli hv. n. á því, að meðan það er svo, að þótt ráðning sveitarstjórans sé heimil samkv. ákvæðum frv., þá á ekki að ráða hann til lífstíðar, heldur er heimilt að segja honum upp með vissum fyrirvara, og þá brýtur þetta í bága við hans starf. En hreppstjóra verður ekki sagt upp, nema hann geri einhver afglöp. Hann er embættismaður, sem gegnir lögreglustjórastarfi, nema hann annaðhvort fari úr sveitinni eða geri einhver afglöp, svo að honum sé vikið úr starfi. Þarna er mikill munur á og því, sem á að gilda um sveitarstjórana. Og enda þótt eitthvað sé samþ. hér, þá þarf ekki annað en að sveitarstjórnin verði óánægð með sveitarstjórann, þá er hægt að segja honum upp. En hreppstjórinn ætti að gegna störfum áfram sem slíkur, samkv. því, sem ég hef sagt, þannig að þó að þetta embætti væri stofnað í upphafi, eins og hér er um talað, þá er ekki trygging fyrir, að þetta tvennt verði sameinað.

Ég vil taka undir það með hv. þm. V-Húnv. (SkG), að ég sé enga ástæðu til þess, að þetta gildi ekki líka fyrir sveitahreppa með fleiri en 500 íbúa, sem í frv. er gert ráð fyrir. Og ég vil segja, að það geti jafnvel verið full ástæða til þess og jafnvel þörf. Að minni hyggju gæti þetta vel orðið til þess að vinna á móti þeirri öldu, sem nú hefur verið um langt skeið, að búta stóra hreppa niður í smáheildir. Þetta er að verða plága. Stóru hrepparnir eru að verða margskiptir, og ef eitthvert áfall kemur fyrir, þá getur litlum hrepp verið ómögulegt að standast það, þó að það væri viðráðanlegt fyrir stóran hrepp. Af hverju hefur þetta stafað? Langvíðast af því, að stóru hrepparnir eru svo stórir fyrir oddvitana, framkvæmdastjórana, að það er miklum erfiðleikum bundið að fá hæfa menn, sem fengjust til að sinna þessum störfum. Þannig hafa menn á vissan hátt verið neyddir til að viðhalda þessari óhæfilegu þróun. Ef þessi heimild væri veitt, þá gæti það að minni hyggju orðið til þess að vinna á móti þeirri þróun, sem, eins og ég sagði áðan, ég held, að flestir séu sammála um, að sé óheppileg.