21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2703)

37. mál, sveitarstjórar

Skúli Guðmundsson:

Ég er hissa á, að hv. 3. landsk., form. heilbr.- og félmn., skuli líta svo óhýru auga brtt. mína. Hún er ákaflega meinlaus og breytir litlu um efni frv. Ástæðan er aðeins sú, að ég tel óeðlilegt að slá föstu í l., að ekki megi binda ráðningu sveitarstjóra við kjörtímabil. Hv. 3. landsk. telur, að ef þessi brtt. verður samþ., þá sé frv. gert að engu, því að það, sem skipti höfuðmáli, sé að ráða sveitarráðsmann til langs tíma til að skapa festu í framkvæmd. Hvernig stendur þá á því, að hann og aðrir nm. leggja til, að niðurlag þessarar gr., sem 4. brtt. fjallar um, hljóði svo: Uppsagnarfrestur af hálfu hvors aðila skal vera sex mánuðir? Með þessu er þá kippt grundvellinum undan því, sem er stefna frv., að dómi hv. þm. Það má því kannske segja, að mín brtt. sé óþörf, því að hvaða hreppsnefnd sem er hefur heimild til að segja upp með 6 mánaða fyrirvara. Ég tel aðeins óeðlilegt að setja annað ákvæði um kauptúnahreppa, en kaupstaði. En til þess að hv. 3. landsk. og aðrir geti áttað sig betur á því er ég að hugsa um að taka brtt. aftur til 3. umr., þó að búið sé að leita afbrigða fyrir henni, og bið ég hæstv. forseta að athuga það. Getur hún þá legið prentuð fyrir og bæði nm. og aðrir geta áttað sig betur á málinu.