03.03.1950
Efri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2714)

37. mál, sveitarstjórar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til athugunar á sínum tíma, þá benti ég á, að það væri fleira, sem taka þyrfti til athugunar í sambandi við þessi mál. Ég vil enn benda á þetta. Þróunin hefur verið sú, að hreppunum hefur verið skipt í smærri einingar. Að vissu leyti er þessi þróun óheppileg. Þær heildir, sem hafa talið sig hafa sérhagsmuna að gæta, hafa klofið sig út úr. Þannig hefur þetta verið um Selfoss, Hvammstanga, Hofsós og fleiri staði, enda þar stuðzt við ákvæði í lögum. Í Noregi er t. d. komizt hjá þessu með því, að hluti hrepps getur tekið á sig kvaðir án þess að allir séu bundnir. Sé um sameiginlegar þarfir að ræða, standa hins vegar allir undir þeim. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að ekkert er því t. d. til fyrirstöðu, að samkomulag sé milli Selfoss og umhverfis um sameiginlegan barnaskóla. Svipað er þessu farið víðar. Úr því að mþn. hefur ekki tekið þetta til athugunar, vil ég beina því til n., að rýmkað verði til í sveitarstjórnarl., svo að hægt sé að skapa heildir, sem standa saman um ákveðin mál, án þess að sveitarfélögin séu klofin, því þau eiga heldur að stækka, en minnka.