28.03.1950
Efri deild: 82. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2728)

37. mál, sveitarstjórar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Virðulegi forseti. Þegar þetta kunningjafrv. er nú komið hér aftur til umr. á næsta degi, get ég ekki látið hjá líða að segja nokkur orð. Ég skal þó ekki taka upp aftur neitt af því, sem ég sagði í gær, en ég hef hugsað mér að bera fram við það brtt., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Upphaf 1. gr. orðist þannig: Heimilt er hreppsnefnd í hreppi, þar sem eru 400 íbúar eða fleiri, að fela....“ o. s. frv. Og til vara, ef þessi till. kynni að verða felld: „Heimilt er hreppsnefnd í hreppi, þar sem eru 300 íbúar eða fleiri, að fela. . . .“ Ég hef oft, eins og flestir þm. hafa heyrt, talað um það, hvað embættismannafjöldinn væri mikill orðinn. En nú, þegar á að gefa hverri einustu hreppsn. leyfi til að búa til sérstakan embættismann fyrir sig, hærra launaðan en oddvita, þá þykir mér sem skörin sé tekin að færast upp í bekkinn. A. m. k. finnst mér, að hreppar undir 300 íbúum ættu að fá að vera fríir við þetta. Hreppsnefnd getur hlaupið í að skapa þetta embætti að ástæðulitlu, og ég vil, að allra minnstu hrepparnir fái að hafa frið í svipinn. Mér finnst það ekki ofvaxið oddvita að fara með þessi störf í ekki stærri hreppum og á ekki meiri umbrota- bg framfaratímum, en virðast vera fram undan um sinn.

Vil ég leyfa mér að afhenda hæstv. forseta brtt. mína.