28.03.1950
Efri deild: 82. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (2731)

37. mál, sveitarstjórar

Haraldur Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Það tekur því varla, finnst mér, að vera að eyða mörgum orðum um þetta frv. eftir þær breyt., sem á því hafa verið gerðar við 2. umr. Frv. er, ef það verður að lögum, nálega einskis virði, svo að þess vegna skiptir það raunverulega engu máli, hvort á því eru gerðar breyt. eða ekki eða hvort það verður samþykkt eða ekki samþykkt. Þó er nú líklega rétt að láta það fara aftur til hv. Nd., og skal ég ekki verða meinsmaður þess, ef ske kynni, að einhverjar breytingar til batnaðar gætu á orðið þar.

Út af þeim brtt., sem nú hafa komið fram, vil ég aðeins segja nokkur orð. Ég get vel fallizt á brtt. hv. 11. landsk. þm. og tel rétt að hafa þetta skilyrði til viðmiðunar, að íbúar hreppsins séu 400 eða 300. Ég tel það eðlilegt og sjálfsagt, eða það er að minnsta kosti óeðlilegt að hafa skilyrðið ekki.

Um brtt. hv. þm. Barð. (GJ) verð ég að segja það, að ég held, að hún sé borin fram í spaugi til þess að skopast að d. og þeim breyt., sem hún hefur látið gera á frv. við 2. umr. Í 4. gr. frv. segir: „Sveitarstjóri fer með störf þau, sem oddvita eru falin í sveitarstjórnarlögum, önnur en stjórn á fundum hreppsnefndar, og hefur á hendi framkvæmd málefna hreppsins“. En samkvæmt till. hv. þm. Barð. er það svo, að það megi fela honum það. Sem sagt, frv. segir, að það eigi að fela honum það, en eftir brtt. hv. þm. er það svo, að það er verið að heimila honum það, sem hann á að gera. Ég held því, að hv. þm. sé að gera grín með þessari till., en það yrði þó ekki nema eftir öðru, ef hún verður samþykkt.