28.03.1950
Efri deild: 82. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2737)

37. mál, sveitarstjórar

Eiríkur Einarsson:

Virðulegi forseti. Það er svo margt búið að ræða um þetta frv. hér í d. með hliðsjón af þeim breyt., sem á því hafa verið gerðar. Það skiptir nokkru máli, að rétt sé stefnt með því, og það er von, að menn gefi því fullan gaum, hvað því líður. En ég verð að segja, að það er ekki nema eðlilegt, að menn álíti við fyrstu athugun á frv., að hér sé verið að skapa nýtt embætti, og segi sem svo: Ja, nú skal það vera sveitarstjóri.

Hvað skyldi hann svo eiga að gera? Hreppstjórinn hann er fyrir, hreppsnefndin er líka fyrir og oddvitinn, en nú skal það heita sveitarstjóri. Verksvið hans er ákveðið í frv., en ég verð að segja, að það er heldur hornskakkt og engan veginn árennilegt. Oddvitar og hreppstjórar eru þeir menn, sem bezt verður trúað fyrir málefnum hreppsins, og þeir menn eru bezt til þess fallnir, oddvitinn í broddi fylkingar. En það er engin trygging fyrir því, að þetta verði nokkuð betra, þó að þetta fyrirkomulag sé tekið upp. En mergurinn málsins er sá, að í öllum hinum stærri hreppum eru verkefni oddvitanna orðin svo mikil og margþætt, að það er í hinu mesta ósamræmi við kjör þeirra, og það er það, sem veldur því, að hinir hæfustu menn eru ekki sem fúsastir til þess að taka það að sér. Ég held því, að það færi betur á því, að launakjarabálkur oddvitanna væri eitthvað bættur, það mundi þá verða sanngjörn leiðrétting. En það að hlaða niður störfum á þessa menn fyrir sáralitla þóknun, það er ranglæti. Ég vil taka það fram, að ef þessi leiðrétting yrði gerð, þá þyrfti að taka tillit til fólksfjölda viðkomandi hreppa og þess, hve störfin eru mikil. Það er ekki nema eðlilegt, að sums staðar skuli enginn vilja taka að sér oddvitastörf, af því að þetta eru svo lítil laun, sem í boði eru. Ef þessu yrði breytt, þá mundi það stuðla að því, að bezti maðurinn veldist í stöðuna, og það er þetta, sem þarf að gera, það þarf að gera leiðréttingu á sveitarstjórnarl., með tilliti til kjara oddvitanna, en þessi breyting um sveitarstjórann skýtur nokkuð skökku við, og ég tel, að hún bæti ekkert úr þeim vanda, sem leysa þarf. Með hliðsjón af þessu, að starfið er illa launað, en yfirgripsmikið, þá finnst mér réttara, að gerð sé breyting á kjörum oddvitanna, og ég tel það rétt, að ákveðið sé með löggjöf, hve mikið eigi að greiða þeim eftir fólksfjölda í hreppnum. — Mér þótti rétt að skýra frá þessu núna, en mun ekki skipta mér af atkvgr. um málið, með hliðsjón af því, sem ég hef sagt.