07.12.1949
Neðri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (2754)

47. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Pétur Ottesen:

Ég vil segja nokkur orð út af þeirri till. að vísa máli þessu til fjhn. Frv. þetta er um breyt. á II. kafla laga nr. 100 frá 1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, og það eiga að vera rök fyrir því, að þetta frv. verði lagt fyrir hv. fjhn., að það frv. lá fyrir þeirri n., þegar það var hér til umr. En ég vil benda á það, að önnur ástæða var til þess, að það frv. lá fyrir þeirri n., nefnilega III. kaflinn, sem er um dýrtíðarsjóð, en hann er um stórfellda tekjuöflun og var því afgerandi í því, að málið færi til fjhn. En nú er um allt annað að ræða, þar sem um er að ræða heimild handa hæstv. ríkisstj. til að gefa eftir lán, sem hún hafði gengið í ábyrgð fyrir handa síldarútvegsmönnum, og að frestað verði afborgun á lánum þessara sömu aðila. Það, sem Alþ. á að vega og meta, er nauðsyn sjávarútvegsins á þessu, og á málið því að sjálfsögðu að fara til sjútvn. og hljóta þar þá þinglegu meðferð, sem mál fá í n. Ég mun bíða með að koma með till. um þetta, unz ég sé, hvort hæstv. ráðh. breytir ekki till. sinni.

Þá langar mig til að vita, þar eð 2. gr. gefur tilefni til þess, hvort hæstv. ríkisstj. hafi hugsað sér að gera sömu ráðstafanir gagnvart áhvílandi sjóveðum og hún hefur áður gert. þ. e. að leyfa sjóveðin, og eins, hvort ákvæði í frv. þessu ná til skyndilána, sem tekin hafa verið til að leysa sjóveð, sem falla bráðum í gjalddaga og litlar líkur eru til, að hægt verði að leysa. Í 2. gr. er talað um þá, sem síldveiðar stunduðu 1945–49, og virðist því átt við eftirgjöf á slíkum lánum, sem stofnað er til í því skyni að leysa sjóveð, enda þótt það sé ekki tekið skýrt fram. Ég vil því, að það komi skýrt fram, hvort svo sé, en það verður að vera, svo að hægt sé að koma bátunum út, og ef það er ekki, verða n. og Alþ. að gera eitthvað til að kippa þessu í lag. Ég vonast eftir skýringu frá hæstv. ráðh. og hvort hann álíti ekki rétt að gera hliðstæðar ráðstafanir og 1948 og áður í 2 eða 3 skipti.