07.12.1949
Neðri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (2756)

47. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil styðja þá till. hæstv. atvmrh., að þessu máli verði vísað til fjhn., og ég held, að það sé heppilegra en hitt, sem hv. þm. Borgf. hreyfði, að því yrði vísað til sjútvn. Ég geri ráð fyrir því, að fyrir þetta þing komi fleiri mál, sem varða sjávarútveginn, heldur en þetta og sennilega mál, sem hafa enn meiri þýðingu. .— Sjálfsagt gera flestir sér það ljóst, sem nærri þessum málum hafa komið, að ráðstafanir eins og innlausn sjóveða, eftirgjafir á lánum og afborgunarfrestur komi að litlu gagni í sjálfu sér, ef ekki verði jafnframt gerðar aðrar ráðstafanir, sem meiri áhrif hafa til frambúðar. Ég geri ráð fyrir því, að till. um þau mál hljóti að koma fram innan skamms frá hæstv. ríkisstjórn. Þá verður þeim málum að sjálfsögðu vísað til fjhn., og ég hygg, að þá færi bezt á því, að þau mál, sem nú eru til umræðu, verði þá einnig hjá þeirri n., enda var sú löggjöf, sem fyrirhugað er að breyta með þessu frv., í þeirri n. á síðasta Alþ. En jafnframt því, sem ég styð þessa till. hæstv. ráðh., að málinu verði vísað til fjhn., vildi ég leyfa mér að beina til þeirrar hv. n. fáeinum orðum í þessu sambandi. Ég hef orðið þess var, að sumir hv. þm. hafa talið, að óeðlilegur dráttur hafi orðið á því, að skilanefnd sú, sem hér hefur verið um rætt, lyki störfum. En ég ætla, að þetta frv. sýni, að við því hefur ekki verið að búast fram að þessu, að hún gæti bundið endi á störf sín. Það mun sem sagt hafa komið í ljós, að til þess að þau störf, sem henni var falið að vinna, bæru árangur, væri óhjákvæmilegt að gera sérstakar ráðstafanir, sem ekki var á valdi n. að gera. Og það, sem þá reyndist mest aðkallandi, var það, sem 1. gr. frv. hljóðar um. Nú mun fjöldi útgerðarmanna skulda stofnlánadeildinni og fiskveiðasjóði eins til tveggja ára afborganir af stofnlánum, og það, sem þyngst hvílir á útgerðarmönnum, undir eins og þessar stofnanir fengju tækifæri til að innheimta, eru einmitt þessar afborganir. En eins og kunnugt er, þá er það þannig nú, viðkomandi þeim útgerðarmönnum, sem sótt hafa til skilanefndar um aðstoð samkv. dýrtíðarl., að ekki er hægt að gera aðför, fyrr en mál þeirra hafa verið afgreidd í skilanefndinni.

Ég geri ráð fyrir, að þær breyt., sem farið er fram á í þessu frv., séu misjafnlega aðkallandi. Ég held, að það skipti ekki mestu máli fyrir útgerðarmenn, hvað ákveðið verður nú um aðstoðarlánin, sem veitt hafa verið úr ríkissjóði. Þessi lán hafa verið veitt, eins og hæstv. ráðh. tók fram, þrem sinnum eftir að síldveiðin hefur brugðizt, fyrst á árinu 1945, þá um 4 millj. kr., svo 1947 um fimm millj. kr. og loks á árinu 1949 6,5 millj. kr., eða sem næst því. Þetta er til samans nær 15.5 millj. kr., sem ríkissjóður á hjá þessum útgerðarmönnum. Ég geri ráð fyrir, að ekki hafi verið gengið út frá því, að ríkissjóður gengi ákaflega hart eftir þessum lánum, þannig að hætta væri á því, að skipin beinlínis stöðvuðust á næstu vetrarvertíð af þeim ástæðum. Þó er þess að geta viðkomandi lánunum frá síðasta vetri, að þau lán eru tryggð með sjóveði í skipunum, sem fyrst fellur niður ári eftir, að lánin hafa verið veitt, og þess vegna getur verið óhægt fyrir útgerðarmenn að fá rekstrarlán, meðan þessi sjóveð eru ekki leyst af skipunum, með eftirgjöf veðréttarins eða á annan hátt. Þess vegna kann að vera aðkallandi að leysa sjóveðin af skipunum. En að öðru leyti gæti ég trúað því, að það væri ekki það, sem mest væri aðkallandi í þessum efnum, að hraða fullnaðarmeðferð þessara aðstoðarlána hjá ríkissjóði. Hitt er aftur á móti mjög aðkallandi, að lausn fáist á því, sem talað er um í 1. gr. frv., að einhvern veginn verði séð fyrir því, að ekki sé ólokið afborgunum af stofnlánunum. Eins og tekið er fram í grg., nema þessar greiðslur, þ. e. a. s. áfallnar ógreiddar afborganir til Stofnlánasjóðs og Fiskveiðasjóðs, um 5,9 millj. kr. Í því sambandi er full ástæða til að benda á, að ef ekki væri veittur greiðslufrestur og ef því hefði verið að heilsa, að þessar afborganir hefðu verið greiddar, þá hefði komið þarna allmikið fé til umráða fyrir þessar lánsstofnanir, sem hægt hefði verið að verja til nýrra stofnlána. En víða er svo ástatt, að þessara stofnlána er mjög mikil þörf. Mörg fyrirtæki hafa gert sér vonir um að fá stofnlán, sérstaklega úr stofnlánadeildinni, en hafa alls ekki getað fengið þau, vegna þess að ekkert hefur verið fyrir hendi, og sums staðar hafa framkvæmdir jafnvel stöðvazt með öllu, vegna þess að ekki hefur verið hægt að veita þessi lán. Ég hygg því, að þetta, að nú kemur til mála að færa þessar afborganir „aftur fyrir“, þannig að þær komi ekki til með að verða innheimtar að svo stöddu, hljóti að verða sérstök hvöt fyrir þingið til þess að reyna að finna leið til þess, að hægt verði eigi að síður að veita nokkur stofnlán til þeirra, sem mesta þörf hafa fyrir þau, þó að dráttur verði á greiðslu umræddra afborgana. Það er áreiðanlega rík nauðsyn á því að gera einhverjar ráðstafanir í því sambandi, t. d. með því annaðhvort að sjá þessum lánsstofnunum fyrir nýju fjármagni eða t. d. að fara þá leið, sem bent hefur verið á hér á þinginu, að auka starfsfé fiskimálasjóðs. Frv. um það hefur, að því er ég hygg, verið lagt fyrir hv. Ed.

Ég vil svo segja það um 2. gr. frv., að náttúrlega má gera ráð fyrir, að það geti komið til mála, að framkvæmd hennar þýði það, að meira eða minna af aðstoðarlánunum verði beinlínis gefið eftir, án þess að um aðrar eftirgjafir verði að ræða. En ákvæði gr. miða að því, að slíkar ráðstafanir verði hægt að gera án þess að fullnægt sé skilyrðum dýrtíðarl. um það efni, sem sé, að menn verði að ná samningum við aðra lánardrottna, en ríkissjóð. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu. Viðvíkjandi bráðabirgðalánum, sem veitt voru árin 1948 og 1949, er mér ekki kunnugt um, hvað þar var um háar upphæðir að ræða. Þetta eru lán sem bankarnir veittu síldveiðiskipunum með ábyrgð ríkissjóðs til þess að koma í veg fyrir, að þau hættu veiðum. Og ég ætla, að það sé ekki tekið fram í grg., hvað hér sé um háar upphæðir að ræða.

Hv. þm. Borgf. og hv. þm. Siglf. hafa rætt hér nokkuð um sjóveðin fyrir sumarið 1949. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. sjútvmrh. muni ræða það mál.