05.01.1950
Neðri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það hafa komið fram ýmsar aths., sem ætla mátti og eðlilegt þykir í sambandi við þetta mál, og að því er snertir fsp. til mín út af einstökum atriðum, þá er mér skylt að leysa úr þeim, eftir því sem efni standa til. Ég held samt, að ég verði sjálfur að koma fram með eina fyrirspurn til hv. 1. þm. S-M., sem fór mörgum orðum um það afskaplega tjón, sem bátaútvegurinn hefði hlotið af því, að þetta frv. var ekki borið fram nokkrum dögum fyrir jól, heldur nú fyrstu dagana í janúar. Ég skil varla, að hv. þm. sé svo ókunnugri vertíðarrekstri, en allir aðrir, að hann viti ekki sjálfur, að þetta getur ekki skipt miklu máli. Sannleikurinn er sá, að vertíð hefst ekki í veiðistöðvum hér, fyrr en nokkuð er komið fram í janúar, sums staðar talsvert seinna. Hitt veit ég, að undirbúningur undir vertíðina er á ýmsum stigum á leiðinni alla tíð frá haustnóttum, og vitaskuld verður þeim undirbúningi haldið áfram í þetta sinn eins og ávallt áður, án tillits til þess, hvað snemma slíkar till., sem hér eru til umr., væru lagðar fram. Hitt er annað mál, að hefði það dregizt fleiri víkur fram í janúarmánuð, að tekin væri afstaða til þeirra till., sem L.Í.Ú. gengst fyrir, fyrir hönd útgerðarmanna, þá mætti fara að tala um, að af því hlytist mikið tjón. Það liggur ekki fyrir að ræða um tjón, og sízt stórtjón, þó að síðasta vika desembermánaðar liði án þess að ábyrgðarfrv. kæmi fram. Ég sé, að hv. 1. þm. S-M. hefur gengið frá, svo að ég get beðið með fyrirspurn þá, sem ég vildi fyrir hann leggja.

Ég vendi þá mínu kvæði í kross og leyfi mér að ávarpa fyrrverandi kollega minn úr fyrrv. ríkisstj., hv. þm. Hafnf. Mér fannst það undarlegt, hvernig hann gat fullyrt það, svona upp úr sér, að ríkisstj. væri með þessu frv. að þrefalda tekjurnar á móts við það, sem fram þyrfti að leggja. Hann endurtók þetta, og ég skrifaði það hjá mér. Þessi fullyrðing er byggð á ákaflega miklum misskilningi, eins og líka fullyrðing hans um, að söluskatturinn, samkv. 21. gr. l., sem um hann gilda, sé skilyrðislaust lagður á allar nauðsynjavörur. Þetta endurtók hv. þm. svo oft, að það var eins og hann vildi hamra þessu inn í þá þm., sem hér voru viðstaddir. Sannleikurinn er sá um söluskattinn, að undanþágur frá honum eru gefnar og auglýstar fyrir langalöngu, í tíð fyrrv. ríkisstj., í Lögbirtingablaðinu. Ég kann þann lista ekki utan að, en fjmrh. hefur haft heimild til þess að gefa víðtækar undanþágur á vissum vörutegundum, eftir því sem þörf krefur. Og þessi heimild var notuð í tíð fyrrv. ríkisstj. þannig, að það er langur listi í Lögbirtingablaðinu yfir vörutegundir, sem undanþegnar hafa verið söluskatti. Þar eru t.d. fóðurvörur og rekstrarvörur ýmiss konar, sem ég man sérstaklega eftir. Þess vegna hef ég, þegar rætt er um söluskattinn, lagt þann skilning í þetta mál, að sama heimild og hefur verið í l. og hefur fylgt ákvæðunum um söluskattinn haldist áfram, þannig að það sé á valdi fjmrh. að verða við sanngjörnum óskum um undanþágur, eins og leitazt var við að gera í tíð fyrrv. stj. Það er þess vegna fjarri því, að sú fullyrðing hv. þm. Hafnf. hafi við rétt rök að styðjast, að söluskatturinn sé undantekningarlaust lagður á allar nauðsynjavörur. Þetta tel ég nauðsynlegt að upplýsa, því að vitanlegt er það, að allir slíkir skattar eru nægilega óvinsælir, ég vil segja hjá þm. og landsfólki öllu, þó að ekki sé verið að gera leik að því að láta þá líta verr út, en þeir gera í raun og veru. Þá fullyrti hv. þm. í þessu sambandi, og ber við sinni fyrri staðhæfingu um söluskattinn, að hér væri verið með sama sem 30% gengisfellingu. Það ræður að líkindum, að þegar grundvöllurinn er skakkur, eins og hann var að því er snerti fyrri fullyrðingar þm., þá verður prósentuútreikningurinn a.m.k. vafasamur. Ég skal játa, að ég er ekki sérstaklega flughastur reikningsmaður, og skal láta það liggja milli hluta að gera samanburð á gengislækkun og þessum skatti, og einnig hvað mörg prósent geti verið um að ræða, en ég leyfi mér að vefengja ákaflega mikið þessa fullyrðingu, og sérstaklega slæ ég því föstu, að hún er byggð á röngum forsendum. En hjá þessum þm. kom líka fram sérstök fullyrðing um það, hve mikið hefði verið kastað til þess höndunum að reikna út þörfina fyrir fjárframlög í þessu skyni. Ég lýsti því upphaflega í stórum dráttum, hvað álitið væri, að til þess þyrfti, og það kemur fram í frv. Hv. þm. Hafnf. fullyrti, að eftir sínum reikningi væri hækkunin, sem hér um ræðir, á ábyrgðarverði og öðru, samkv. þessu frv. skakkt út reiknuð, og taldi, að miðað við afla alls ársins gæti verið um hækkun að ræða, sem gæti numið 16 til 18 millj. kr. Hér ber vissulega mjög mikið á milli, og ef þessir útreikningar þm. væru réttir, væri vissulega til of mikils mælzt, hvað tekjuöflun snertir. Nú er það svo, að þessir útreikningar hafa að vísu verið framkvæmdir undir handleiðslu ríkisstj., en þeir eru aðallega framkvæmdir af fiskábyrgðarn., en hún hefur jafnan verið ráðunautur um þessi mál, og hefur með útfærsluna af fiskábyrgðinni að gera síðan hún var sett á stofn. Ég skal nú, til þess að leitast við að skýra þetta mál betur, en ég gerði í frumræðu minni, upplýsa, hvernig þetta er reiknað út, samkvæmt þeim plöggum, sem fyrir liggja. Það er reiknað með, að afli bátaflotans til loka febrúarmánaðar geti orðið 23 þús. smálestir, en 86 þús. smálestir frá 1. jan. til 15. maí. Hækkunin á fiskverðinu, sem fyrir liggur í þessu frv., miðað við janúaraflann, svo að við tökum tímabilið janúar–febrúar, mundi nema 2.300.000 kr. og svo greiðslunni samkv. 5. gr. Hluti af þeim 5 millj. kr., sem áður voru í l., mundi nema 1 millj. kr. á afla þessara tveggja mánaða. Svo kemur hækkun á framleiðslukostnaði freðfisks og óhjákvæmileg breyting á verkun og pökkun á þessar 23 þús. smálestir af hráefni, eða það, sem ætlazt er til að fari í frystihús. Er gert ráð fyrir, að þessi liður hækki um 2.870.000 kr. yfir þessa tvo mánuði. (EmJ: Það er útilokað.) Ég vil nú beiðast þess, að menn telji ekki útilokað það, sem reiknað er út af trúnaðarmönnum ríkisstj., án þess að þeir séu heyrðir og lagðar séu fram allar þær röksemdir og áætlanir, sem þeir hafa með höndum. En ég býst ekki við, að hv. þm. hafi gert sér það ljóst, hvernig ástandið er að því leyti er við kemur pökkun og öðru hjá hraðfrystihúsunum. Ég álít ekki í frumræðu ástæðu til að halda hér langan fyrirlestur um það, en þar um er ákaflega margt að segja. Það er vitanlegt, að undanfarið hefur meginið af hraðfrysta fiskinum verið pakkað í svokallaða 7 lbs. pakka, en í þessari pakkningu er allt það magn fisks, sem fer til Englands, Hollands og Tékkóslóvakíu, og líka það, sem í fyrra var sent til Vestur-Þýzkalands, selt. Sá fiskur, sem seldur hefur verið til Ameríku, og það litla, sem hefur verið selt til Sviss, er ekki pakkað á þennan hátt. Nú er það ljóst, og hefur raunar verið ljóst allt síðasta ár, að hraðfrystihúsin hafa litla von um að selja framleiðslu sína lengur á Mið-Evrópumarkaðinum í þessum umbúðum. Það má segja, að í starfsemi þeirra þurfi að verða bylting, hvað það snertir að ganga frá vörunni. Norðmenn, sem eru þar eins og víðar keppinautar Íslendinga, bjóða vöru sína ekki í þessum stóru og óhentugu pökkum, sem Íslendingar hafa hingað til notað og kaupendur eru mjög ófúsir á að taka við, og hefur það oft komið í ljós, þótt það hafi verið hægt að svæla þessari vöru inn á þá. hess vegna er nú gert ráð fyrir, að mig minnir, að um 12 þús. tonn verði á þessu ári pökkuð í nýtízku umbúðir, þ.e.a.s. í eins lbs. og tveggja lbs. pakka eða kannske eins lbs. og eins kg pakka. Þetta út af fyrir sig hefur í för með sér ákaflega mikla hækkun á vinnulaunum, burtséð frá þeirri almennu vinnulaunahækkun, sem nú er fyrir dyrum hjá hraðfrystihúsunum, því að það gefur auga leið með það, að það tekur meiri tíma að afgreiða fiskinn eins og nú verður að gera en eins og hingað til hefur verið gert. Og það er sjáanlegt, að við höldum ekki markaðinum með því að breyta ekki til. Hér við bætist, að smáir pakkar verða miklu dýrari. Nú er ég ekki kominn til að segja, að hver stafur í útreikningum hraðfrystihúsanna og eins niðurstöðum fiskábyrgðarn., sem fram hefur komið og hér liggur fyrir, sé réttur, en ég fullyrði, að hér sé ekki um neinar stórkostlegar skekkjur að ræða, svo mikið er búið að grandskoða, hver aukakostnaður verður vegna þessarar breyttu meðferðar fisksins. Það er í rauninni ákaflega undarlegt, að þm. hafa ekki gert sér grein fyrir því, þegar þeir hafa verið að gagnrýna þennan skatt, að þessi breyting er nauðsynleg. Og hún er nauðsynleg. Það telja allir umboðsmenn hraðfrystihúsanna og allir aðrir, sem kunnugir eru verzlun, að Íslendingar haldi ekki velli og engin von sé til þess, að þeir haldi velli á þessum mörkuðum, nema breytt sé til um frágang fisksins. Ég vík svo að því aftur, að hækkun sú, sem þessi breytta meðferð fisksins orsakar, mundi á því magni, sem hér er lagt til grundvallar, nema 2.870.000 kr. Þeir póstar, sem hér hafa verið nefndir, gera þá á það fiskmagn, sem ég hef hér talað um 6.170.000 kr. En miðað við ástandið s.l. ár eða samkv. ábyrgðarl., sem þá voru í gildi, hefur ábyrgðin á þessum hluta numið 5.400.000 kr. Og þegar svo hækkunin kemur til greina, þá verður það, svo framarlega sem um 23 þús. tonn verður að ræða 11.570.000 kr. sem þetta mundi kosta ríkissjóð. Ef tekið er svo tímabilið janúar–maí eða öll vertíðin, þá verða þessir liðir sem hér segir: Þá er um að ræða 86 þús. tonn. Hækkun á fiskverðinu, 10 aur. á kg á 86 þús. tonn, mundi nema 8.600.000 kr. Greiðsla samkv. 5. gr. yrði yfir þennan tíma 3.500.000 kr. Þá kemur sá liður, sem ég hef eytt mestum tíma í að skýra, kostnaðaraukinn vegna hækkunar á framleiðslukostnaði hraðfrystihúsanna og óhjákvæmilegra breytinga á verkun og pökkun hraðfrysta fisksins, en sá liður er 9.300.000 kr. Þessar tölur gera samtals 21.400.000 kr., og er þá verið að tala um kostnað vegna hækkaðs hrávöruverðs, aukinna vinnulauna almennt, aukins kostnaðar vegna breytinga á framleiðsluaðferðum hraðfrystihúsanna. Áætlaðar greiðslur á þetta magn, miðað við fiskábyrgðina frá 1949, nema 20.200.000 kr. Samtals eru þetta 41.600.000 kr. Það gefur svo auga leið með það, að n., sem fær þetta mál til meðferðar, fær vissulega tækifæri til þess, bæði hjá fiskábyrgðarn. og öðrum aðilum, sem að þessu hafa unnið, að ganga úr skugga um, hvernig þessir kostnaðarliðir eru reiknaðir út. Ég tel það frekar fánýtt að eyða miklum tíma í það við 1. umr. málsins að deila um, hvort þetta muni vera rétt út reiknað, vegna þess að ég lít svo á, að villur, sem kynnu þarna að finnast, geti aldrei verið það miklar, að það skipti neinu máli.

Þetta, sem ég hef sagt hér, vildi ég upplýsa, til þess að leggja þetta mál eins greinilega fram og mér er unnt og á hverju eru byggðir þeir kostnaðarliðir frv., sem svo mjög hafa verið vefengdir af einstökum þm. Ég skal bæta því við, vegna þeirrar sérstöku fullyrðingar hv. þm. Hafnf., að hækkunin miðað við allt árið væri að hans dómi réttilega metin á 16 til 18 millj. kr., að ég hef líka útreikning yfir það, byggðan að vísu á sömu forsendum, þar sem sömu kostnaðarliðirnir eru teknir til greina og í þessu frv. Ef miðað er við, að afli alls ársins sé 130 þús. tonn, þá verður 10 aura hækkunin á hvert kg á 130 þús. tonnum 13 millj. kr., og hækkunin samkv. 5. gr. er nærri því 51/2 millj. kr. Þá vantar að taka tillit til aukins kostnaðar vegna breyttra pökkunaraðferða hraðfrystihúsanna, og er hann hátt á 14. millj. kr. Málið liggur því þannig fyrir, að í stað þess, að þetta sé hæfilega metið á 16 til 18 millj. kr., eins og hv. þm. Hafnf. hélt fram, þá er nær sanni að segja, að það sé hæfilega metið á 321/2 millj. kr., og munar það þá nærri því helmingi frá því, sem rétt áætlun, eftir öllum atvikum að dæma, gefur í skyn, og frá því, sem þessi hv. þm. hefur fullyrt um þetta mál.

Ég hef þá leitazt við með tölum og þeim rökum, sem mér hafa borizt í þinghléinu frá aðilum, sem hér eiga hlut að máli, og frá trúnaðarmönnum ríkisins, að upplýsa það mál eftir föngum, sem snertir kostnað við fiskábyrgðina og þá hækkun, sem breytt viðhorf hefur í för með sér. Og þar með hef ég hrakið þær fullyrðingar, sem hv. þm. Hafnf. hafði um það atriði, en vitaskuld liggja þessar niðurstöður allar, eins og ég sagði áður, til gagnrýni fyrir fjhn., sem fær þetta mál til meðferðar. En ég vil a.m.k. samt segja það, að við höfum ekki leitazt við á nokkurn hátt í ríkisstj. að auka vísvitandi á þá kostnaðaráætlun, sem þurfti að gera, eða heimta vísvitandi hærri tekjur en við teljum, að þurfi.

Ég var að segja, í því að hv. 1. þm. S-M. gekk út, að ég vildi í sambandi við fullyrðingu hans um hið mikla tjón, sem hafi hlotizt af því, að málið kemur fram 5. jan., en ekki á Þorláksmessu, leggja þá spurningu fyrir hann, hvort hann hafi gert sér grein fyrir því undanfarin ár, hvað mikill afli hafi verið kominn á land af bátum 5. janúar. Það væri vissulega þörf á því, ef hann stendur í þeirri meiningu, að á þessu tímabili hafi orðið stórtjón fyrir seinlæti ríkisstj. varðandi fiskábyrgðina. (EystJ: Gerir hæstv. ráðh. sér von um, að málið verði afgr. í nótt?) Nei, en hinu vil ég bæta við, að ef hv. þm. lítur svo á, að á þessum dögum hafi yfirleitt orðið tjón af drættinum, þá vænti ég þess, af því að ég veit, að honum er vel við bátaútgerðina og ber hag útgerðarmanna fyrir brjósti, að hann muni vilja aðstoða ríkisstj. í því að draga úr þessu tjóni, sem er ekki nema ímyndað, en gæti orðið tjón, ef langur dráttur yrði á, að málið fengi afgreiðslu. Þess vegna er það rökrétt afleiðing af þeirri hugsun, sem sérstaklega kom fram hjá honum, að aðstoða ríkisstj. í að fá hraðað bráðabirgðalausn málsins, til þess að ekki hljótist tjón fyrir bátaútveginn af drætti á meðferð málsins á Alþingi.

Hv. 1. þm. S-M. spurði mig um það og mjög réttilega, — og ég virði mikils hans innstu hvatir í því efni, að því er snertir að burtnema óorð, sem sumir ætla, að hafi lagzt á bátaútvegsmenn vegna hins svo kallaða frjálsa gjaldeyris, — hv. þm. spurði um það, hvort ég vildi auglýsa, hvaða vörur þeir hefðu mátt kaupa fyrir hina svo kölluðu hrognapeninga og annað, sem féll í það kjölfar. Það er alveg rétt, að þetta sé upplýst, og ég tel það rétt athugað hjá hv. þm., eins og hann kom fram með, að það er til þess, að það sé ekki verið að hampa því í hvert sinn, sem einhver vara er óeðlilega dýr, að kenna það alltaf bátaútvegsmönnum og þeirra frjálsa gjaldeyri. Ég met þetta sjónarmið vissulega og er sömu hugsunar og hann í því efni. Nú er það að vísu svo, að ég hafði persónulega lítil eða engin áhrif á það, hvaða vörur leyfðar voru af innflutningsyfirvöldunum á sínum tíma fyrir þessa svo kölluðu hrognapeninga etc., en ég hef aflað mér upplýsinga, hvaða vörur það eru, og skal upplýsa, hvað það er, eftir upplýsingum, sem ég hef fengið í viðskmrn. Fyrir þennan gjaldeyri má kaupa í fyrsta lagi:

Niðursuðuvörur, gólfteppi, olíukyndingartæki, reiðhjól, snyrtivörur, skjalaskápa, ljósakrónur, þvottavélar, íþróttavörur.

Í 2. flokki eru þessar vörur:

Þakefni, gúmmískófatnaður, gólfdúkar, rörahlutir og rör, tilbúinn fatnaður.

3 flokkur:

Grammófónplötur, vélar til að nota í verksmiðjurekstur, enda séu þær ekki söluhæfar á almennum markaði, ljósmyndavélar.

Þetta fékk ég upplýst að gefnu tilefni hjá viðskmrn.

Ég býst við, að þetta sé hér um bil tæmandi, a.m.k. gat ég ekki komizt eftir, að um fleiri vörur væri að ræða. Það er leiðinlegt, ef allt óorð um dýrar vörur og jafnvel svartamarkaðsverzlun leggst á bátaútvegsmenn. Nú er það vitað, og vil ég gera mitt til þess eins og hv. þm. að hindra, að það verði. En fleiri hafa gjaldeyrisfríðindi, þó að það sé ekki í sama formi og bátaútvegurinn, og þá er eins líklegt, að þær vörur, sem óánægja er út af, hafi getað verið keyptar fyrir þann gjaldeyri, eins og þennan frjálsa gjaldeyri útvegsmanna. Þá hef ég upplýst þetta.

Hinn dýrmæta tíma, sem hv. 1. þm. S-M. talaði um, að farið hefði forgörðum, má mikið stytta, ef nú væri góður vilji að greiða fyrir málefnum útvegsins, og almanakstíminn er ekki svo langt liðinn í mánuðinum, að það þarf ekkert tjón að verða, ef þingið bregður fljótlega við að leysa þessi mál.

Þá spurði hv. 1. þm. S-M., hvaða verð á hraðfrysta fiskinum sé lagt til grundvallar. Ég held það hafi fallið einhver orð um það hjá einhverjum hv. þm., sem vék að, að það mundi vera miðað við verðið 1949, og ég tel, að það muni vera rétt. Fiskábyrgðarn. hefur sjálfsagt ekki getað miðað við neitt eða farið að búa sér til neitt tilvonandi markaðsverð á þessu ári og hefur miðað sína útreikninga við það, að fiskurinn seldist á svipuðu verði á erlendum markaði eins og s.l. ár, og það er þá svar við þeirri spurningu.

Hv. þm. hélt því fram, eða lét í það skína a.m.k., að hann teldi ekki hægt — hann leiðréttir það þá, ef ég hef misskilið það — að samþykkja það, sem hér liggur fyrir, þessar ráðstafanir til bráðabirgða nema gera um leið margháttaðar aðrar ráðstafanir. Ég verð að segja það, að fyrir þeim mönnum, sem þykir allt of seint ganga með að fá þessi mál fram, þá finnst mér það ekki vera til flýtisauka, ef alþm. gerðu það að skilyrði nú fyrir sömu ráðstöfunum og gerðar voru í fyrra án margháttaðra annarra ráðstafana, að nú ætti ekki málið að fá afgreiðslu nema gerðar væru um leið margháttaðar aðrar ráðstafanir. Og ég vil minna hv. þm. á það, að þegar við vorum að fást hér við sams konar mál s.l. ár rétt fyrir áramótin 1948–49, síðast á árinu 1948, þá var hann með í því eins og ég að gera þessar ráðstafanir, gangast undir fiskábyrgðina af nauðsyn, án Þess að hann þá teldi nauðsynlegt, að um leið þyrfti að gera margháttaðar aðrar ráðstafanir. Ég vil aðeins mínna á, að þetta væri nýjung, sem ekki væri í samræmi við fyrri afstöðu þm. og síður en svo til þess fallin að flýta fyrir málinu.

Hjá hv. 1. þm. S-M. og ég held líka hjá fyrrv. hæstv. forsrh., hv. 8. landsk., kom, að því er ég skildi það, fram sú skoðun, að ákvæði 12. gr. frv., sem gera ráð fyrir framlengingu til loka vetrarvertíðar, ef ekki hefðu aðrar aðgerðir komið áður, — ég skildi þá þannig, að þeir væru báðir á móti því, að þessi gr. næði lögfestingu. Ég skal strax taka fram út af aths. hv. 8. landsk., að það er ekki aðalatriði í þessu máli, þó að það standi þar í gr. Þetta atriði er auðvitað opið til umr., og má breyta því, ef það þykir sérstaklega hættulegt. En hitt vil ég benda þessum hv. þm. á, að það hefur verið í þeim samtölum, sem ríkisstj. hefur átt við útvegsmenn nú í þinghléinu og fyrir þinghléið, alveg ófrávíkjanleg krafa þeirra, að ábyrgðin yrði framlengd til vetrarvertíðarloka, ef ekki yrðu innan hæfilegs tíma, og þá helzt fyrir 1. marz, komnar aðrar ráðstafanir, sem tryggðu þeirra hlut sæmilega, hvað afkomu snertir. Þetta atriði út af fyrir sig var rætt mjög ýtarlega í þeim viðtölum, sem fram fóru milli okkar og fulltrúa útvegsmanna. Og þeir sögðu, og ég held, að þeir hafi alveg lög að mæla í því efni, að þegar þeir væru að ráða til sín fólk á vertíðinni eða færu að ráða til sín fólk fyrir vertíðina, þá gætu þeir ekki ætlazt til, að nokkur sjómaður vildi ráða sig upp á það að eiga enga atvinnu vísa, þegar febrúar væri liðinn. Að sjálfsögðu yrðu þeir að birgja sig upp að veiðarfærum og beitu og öðrum nauðsynjum allt miðað við rekstur vetrarvertíðar. Og þeir, sem til þekkja. vita, að þetta er satt. Ég hef sjálfur verið lengst af við þennan atvinnuveg riðinn, og ég veit, að þau rök, sem útgerðarmenn færðu fyrir nauðsyn tryggingar til vetrarvertíðarloka, eru rétt. Það er erfitt með nokkurri sanngirni að mótmæla þeim. Ríkisstj. vildi ekki taka á sig þá ábyrgð að skella skolleyrunum við jafneðlilegum og sjálfsögðum röksemdum útgerðarmanna. Og ég segi það, að ég skil ekki það hlutskipti að hampa ábyrgð framan í útgerðarmenn miðaða við aðeins tvo mánuði af vertíðinni, þannig að engin trygging sé fyrir framhaldi á henni, þegar aðalaflatíminn færi í hönd, en það tel ég að sé, þegar kemur fram í marzmánuð. Ég ímynda mér, að enginn þingmanna vildi verða til þess að haga því svo, því að það mætti ef til vill segja, að með því væru ginningar hafðar í frammi við útgerðarmenn og þá, sem að útgerð standa, sjómenn á bátum o.fl. Ég tel, að það sé ekki hægt að daufheyrast við réttum rökum útgerðarmanna og setja hnefann í borðið nú. hvort sem það væri ríkisstj. eða Alþingi, sem gerði það, og segja: Ábyrgð getið þið fengið í tvo mánuði aðeins, en síðan er ekkert víst, hvað fyrir liggur, og láta þannig hilla undir það, að útgerðarmenn, komnir af stað, verandi að ráða sér fast fólk, hafandi ábyrgð í huga fyrir alla vertíðina, kæmust í þá aðstöðu á miðri vertíð að verða algerlega ofurseldir, ég vil segja náð, bæði ríkisstj. og annarra ráðamanna í landinu. Ég vænti þess vegna einlæglega, að þessir alþm. og aðrir, sem athuga þetta mál, fallist á það, að svo fremi sem ekki er komið annað skipulag á þessa hluti áður en kemur fram í marzmánuð, þá verði fallizt á þá till. ríkisstj., að ábyrgðin haldi áfram, og það undirstrikað með því að samþykkja þær tekjur, sem ríkissjóður nauðsynlega þarf á að halda á einn veg eða annan, sem undir slíkri ábyrgð þarf að standa.

Ég vil í þessu sambandi, þótt það kæmi ekki frá þeim hv. þm., sem ég sérstaklega var að tala við nú, þó að það kæmi frá öðrum, svara um leið þeim aths. hv. þm. Siglf. (ÁkJ), að það væri rangt að láta ekki ábyrgðina þegar í stað gilda fyrir allt árið. Það mál horfir öðruvísi við. Það er ekki komið neitt fram af því, eins og er, að menn fari að útbúa sig fyrir vertíð, sem hefst í maímánuði eða eftir vetrarvertíð, og það er sjálfsagt ekki tilætlunin með þessum l. að gera hlut Vestfirðinga, Norðlendinga og Austfirðinga neitt minni en annarra landsmanna í þessu efni. heldur er þetta einvörðungu byggt á því, að ríkisstj. gæti þess fastlega, að áður en sá tími kemur, verði kominn á annar háttur og hægt verði að sigla fram hjá því að hafa framhaldandi ábyrgð allt árið. Verði það ekki, þá er það auðvitað atriðl. sem Alþingi bæði getur og ber skylda til, ef það hefur ekki farið aðra leið, að ganga forsvaranlega frá á góðum tíma, áður en maímánuður kemur.

Þá var af hv. 1. þm. S-M. og eins hv. 8. landsk. vikið að hinum svokallaða frílista. Við hann kann að vera margt að athuga. Fyrsta sporið í því efni var það, að á það var fallizt, sem bæði ég og aðrir sáu á sínum tíma, að það var einasta leiðin til þess að koma í veg fyrir, að verðmæti væri fleygt í sorpið eða hafið, það væri að gefa frjálsan gjaldeyri fyrir þessa vöru. Það voru hrognin. Um nokkurn tíma, áður en þetta var gert, höfðu útgerðarmenn ekki nokkurn áhuga fyrir að hirða hrognin. Það borgaði sig ekki á neinn hátt, verkalaun voru of dýr, og það fékkst of lítið fyrir vöruna. Þá var gripið til þess ráðs, góðu heilli, hygg ég, að þeir, sem hirtu hrognin, fengju frjálsan þann gjaldeyri, sem fyrir þau kæmi. Þar við hafa síðar bætzt aðrar vörur, og þær voru því aðeins hirðanlegar að dómi útgerðarmanna, að þeir gætu rétt hlut sinn með þessum gjaldeyrisfríðindum í sambandi við þennan frílista. Mér heyrðist og varð þess sérstaklega var í seinni ræðu hv. 1. þm. S-M., að nú væru talsverðar vangaveltur hjá honum og eins hjá hv. 8. landsk. um það, hvað gera beri í þessu efni. Síðast þegar við afgreiddum löggjöf um þetta sama efni, voru þessir hv. þm., sem þá voru í ríkisstj., sammála mér um það, að það yrði að láta eftir kröfum útgerðarmanna að hafa þessi fríðindi, og ég ætla, að hlutur sjómanna hafi talsvert drýgzt við það. Ég tel þess vegna, að út frá því sjónarmiði séð þurfi enginn að harma það, þó að þessi gjaldeyrir hafi verið gefinn fri á þann hátt, sem það var framkvæmt, sem ég tel of langt mál að útskýra hér, en það var framkvæmt undir eftirliti viðskmrn. og viðskiptan. Agnúar þykja á öllu, og eins hafa agnúar einhverjir fylgt þessum ráðstöfunum, en ég tel þó tvímælalaust, að hagnaðurinn hafi orðið meiri fyrir þjóðarbúið. Ég get þó ekki stillt mig um að segja, að ég hef reynslu fyrir því — og á þar ekki við þá þm., sem ég var að svara — , ég hef langa og miður skemmtilega reynslu af því, að ýmsar n. og ráðamenn í þjóðfélaginu virðast líta svo á, að það sé böl, ef sjómenn eða útgerðarmenn hirða illseljanlega vöru með þeim skilyrðum, að þeir megi fá þennan frjálsa gjaldeyri, sem svo er kallaður. Það hefur kostað mikla baráttu að fá ýmsar af þessum n., sem hér starfa, það hefur kostað mikið að teygja þær til að framkvæma eða gera þetta mögulegt í framkvæmd. Svona þröngur getur skilningurinn á alþjóðarþörfum og alþjóðarhag stundum orðið og ekki sízt í þjóðfélagi, sem er að verða nærri því yfirskipulagt á ýmsum sviðum, eins og okkar.

Út af þessu sérstaka atriði með frílista handa útgerðarmönnum vil ég benda þm. á það, að þeir hafa fengið þessi réttindi og nutu þeirra á s.l. ári í fullum friði við ríkisstj. og með hennar leyfi. Og fríðindi eru það vissulega þeim til handa. Hvað halda menn eiginlega um bátaútvegsmenn og þá, sem hjá þeim vinna nú á dögum? Við lifum á þeim tímum og erum búnir að gera alllengi núna upp á síðkastið, að það er hver stéttin af annarri að gera kröfur, ekki um það að fá að halda því, sem þær hafa, nei, um það að fá ný fríðindi, nýjar kauphækkanir, meiri frítíma og hvað annað. Eigum við á sama tíma að gera ráð fyrir því, að það sé réttmætt eða sanngjarnt að ætlast til þess, að af sjómönnum og útvegsmönnum séu tekin fríðindi, sem þeir hafa fengið á löglegan hátt? Ég skil ekki í, að hv. þm. séu þeirrar skoðunar, og ég teldi að það væri eftir atvikum, þegar allt viðhorf er tekið með í reikninginn að öðru leyti, allt viðhorfið gagnvart því, hvað hægt er að gera fyrir þennan atvinnuveg, að það væri mjög skakkt spor að taka af þessum atvinnuvegi þau litlu fríðindi, sem hann kann að hafa notið í gegnum þennan frílista? Mér er ekki nein launung á því, að ég hef látið í það skína í viðræðum við þessa menn, að ég teldi víst, að það mundi verða lítið svo á, að þessi fríðindi yrðu ekki af þeim tekin. Þessir menn eiga náttúrlega vissar óskir um aukin fríðindi á þessu sviði, og skal ég ekki um það segja, hvað rétt er að gera í því efni, og vil ekki gera mig að dómara í því efni á þessu stigi málsins, en ég vil segja, að það væri mjög ósanngjarnt og óhyggilegt að svipta þennan atvinnuveg þeim stuðningi, sem hann hefur gegnum hinn svokallaða frjálsa gjaldeyri og, hvað sem um hann má segja að öðru leyti, virðist þó ekki kosta nein framlög úr ríkissjóði.

Ég held, að ég hafi þá komið inn á þær beinu spurningar, sem hv. 1. þm. S-M. (EystJ) lagði fyrir mig, og að öðru leyti tekið til umræðu það, sem mér virtist þurfa að svara í tilefni af ræðu hans. En út í hin hreinpólitísku sjónarmið, eða þann part ræðu hans, sem var miðaður við kosningar og pólitík, hirði ég ekki um að fara, enda hefur hæstv. forsrh. talað um það.

Ég held að það atriði, hvað bæði hv. 1. þm. S-M. og, að ég hygg, einnig hv. þm. Hafnf. (EmJ) mikla fyrir sér, hvað tekjur af söluskattinum geti orðið, þurfi athugunar og endurskoðunar við. Ég ætla ekki að gizka á neinar tölur, enda fánýtt, því að fjhn. fær sjálfsagt tækifæri til þess við meðferð málsins að endurskoða og gagnrýna það, sem haldið er fram af stjórninni, sem hér leggur málið fram.

Ræða hv. þm. Siglf. (ÁkJ) var þannig löguð og hann kom svo víða við, að ég held, að ekki sé þörf á að eltast við allar hans mörgu kenningar og fullyrðingar í sambandi við þetta mál. Hann kom með svo einstaklega margt, sá þm., eins og hans er venja, sem ekki kemur málinu við. Þó finnst mér rétt að nota þetta tækifæri til þess að bera hönd fyrir höfuð einnar stofnunar hér á landi, sem þm. Siglf. lagði sérstaklega undir hnífinn, og taldi hana hættulega og skaðlega fyrir útveginn og ég held jafnvel fyrir þjóðina, þ.e. Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda. Ég veit það, að sölusambandið er ekki búið til af pólitískum ástæðum. Sölusambandið er upphaflega stofnað til þess að vera sjálfsvörn fyrir framleiðendur á saltfiski í þessu landi, sjálfsvörn gegn markaðstjóni og því verðfalli, sem fyrir allmörgum árum var hér að færast yfir þessa atvinnugrein út af óhyggilegri samkeppni ýmissa aðila, innlendra og útlendra, sem höfðu afskipti af saltfisksölunni. Það var oft boðið sama firmanu eða sama manninum erlendis frá tveimur aðilum, menn undirbuðu hver annan og framboðin komu þannig fram. að þar sem kaupandinn gat álitið, að um 1.000 tonn væri að ræða, gat það verið helmingi minna magn, eins og oft á sér stað, þegar eftirlitslaust er barizt um sölumarkað. Ég var sjálfur áratugum saman búinn að starfa í samtökum útvegsmanna að saltfisksölu á þrengra sviði, í fisksölusamlagi, sem voru til allviða, sérstaklega á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum, og við vissum það, sem þá áttum allt okkar undir því, hvernig varan seldist, hvaða erfiðleikar voru bakaðir saltfisksölunni út af samvizkulausum tilboðum, stundum frá mönnum, sem engan saltfisk áttu. Við reyndum að sameina saltfisksamlögin, en það mistókst, þar til bankarnir sáu fram á þau vandræði og það tjón, sem þetta bakaði atvinnugreininni, og gengu í fararbroddi að stofna þessi allsherjarsamtök, Sölusamband íslenzkra saltfiskframleiðenda. En sömu ástæður, sem lágu til grundvallar fyrir þessu, lágu líka til grundvallar fyrir því, þegar Alþ. stofnaði síldarútvegsnefnd. Munurinn er aðeins sá, að Alþ. hefur aldrei haft afskipti af þessum samtökum saltfiskeigenda, sem ég nú lýsti. Það er rangt, að hér sé um nokkur stórgróðasamtök að ræða. Þetta samlag er samlag, sem allir saltfiskframleiðendur í landinu eru þátttakendur í. Það starfar undir fullkomnu lýðræðisfyrirkomulagi, heldur sinn árlega aðalfund og safnar ekki í neinar kornhlöður, heldur fá útvegsmenn reikninga sína útborgaða eins og lög standa til. Ég veit, að þessi stofnun hefur orðið fyrir miklu ámæli í sambandi við kosningarnar s.l. haust, en ég vil mótmæla því, að sá áróður hafi haft við rök að styðjast, og tel ég ekki til framdráttar fyrir íslenzkan útveg að rýra gildi þessara samtaka saltfiskframleiðenda, sem aðeins gæti orðið til framdráttar niðurrifsstefnu hv. þm. Siglf. og annarra kommúnista. Það er eins og þeir megi hvergi sjá græna grein, því að þá telja þeir rétt að ráðast á þessi samtök.

Allur hugarburður hv. þm. Siglf. ýmist um markaðstap eða annað af völdum fyrrv. og núv. ríkisstj. er fleipur eitt og staðleysustafir. Það hefur sannarlega verið reynt að verzla við þessi lönd austan járntjaldsins eins og hægt hefur verið, og það hefur ekki staðið á Íslendingum. Og þegar hv. þm. talar um ómakleg orð ráðh. í garð Sovétríkjanna eða Stalíns, frábið ég mér slíkar athugasemdir, þar sem ég hef aldrei lagt slíka stjórn í einelti með skömmum. En hv. þm. Siglf. og flokksbræður hans hafa hvað eftir annað á Alþ. nítt niður viðskiptaþjóðir Íslendinga á hinn herfilegasta hátt og kallað samningana við Stóra-Bretland skemmdarsamninga, þó að Bretar hafi reynzt Íslendingum hinir tryggustu og beztu viðskiptavinir á öllum sviðum.

Eiginlega var það ágætt, að hv. þm. Siglf. klykkti út í síðustu ræðu sinni með þessu kjörorði kommúnista, sem alls staðar heyrist, hvort heldur er verið að ræða um fjárlög eða annað í þessu þingi, að hafa ábyrgðarverðið sem allra hæst, en segja líka, að það væri mjög slæmt að leggja nokkra skatta á til þess að standa við það verk. Þetta er hin venjulega kenning þessa hv. þm., það að lofa öllu, en hafa hvergi grundvöll til þess að geta staðið við loforðin.

Mér hefur fundizt í þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar, gæta allmikils misskilnings í garð útgerðarmanna, bæði að því er snertir fríðindi þeirra og kröfur um hækkað ábyrgðarverð. Það er a.m.k. rétt að taka fram, að allt þetta getur átt rót sína að rekja til þess, að menn hafa ekki nægilega komizt inn í sama andrúmsloft að því er snertir þarfir útgerðarinnar eins og þeir, sem hafa staðið í viðtölum við útgerðarmenn undanfarið. og sé það af svipuðum orsökum sprottið. að þm. munu yfirleitt ekki hafa getað gert sér grein fyrir því út af fyrir sig, að hraðfrysti fiskurinn þarf að vera í allt öðrum, betri og glæsilegri umbúðum á erlendum markaði, en við höfum hingað til boðið hann fram, en það hefur aukinn kostnað í för með sér. Ég vil þess vegna vona, að við nánari athugun þessa máls fallist þm. á það að greiða nú fyrir bátaútveginum, svo að þetta mál fái sem bráðast sína lausn, og að það sé gert þann veg, að þeir, sem nú ganga til verks á bátaflotanum við strendur landsins, hafi það öryggi, sem ég fyrir mitt leyti tel, að þeir eigi kröfu á að fá, og þeir gerðu á sínum tíma að ófrávíkjanlegri kröfu í viðtali við ríkisstj., að séð verði fyrir því, að hægt verði að halda því, sem hér verður á fallizt, í fullum gangi til vertíðarloka, hvað sem verður borið fram síðar.