09.12.1949
Neðri deild: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2762)

58. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það hefur verið venja að leggja fyrir Alþ. frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar, byggt á þeim umsóknum, sem fram hafa komið. Nú liggur fyrir um þetta frv., eins og vant er. Sumar þær umsóknir, sem borizt hafa, fullnægja alls ekki þeim skilyrðum, sem lögin gera ráð fyrir nú samkv. 4. gr. l. Um sumar þessar umsóknir geta verið vafaatriði. En ég taldi rétt að taka þá eina til greina, sem segja má, að ótvírætt sé, að ættu að fá réttinn, það fólk, sem hér hefur dvalið og er af íslenzku bergi brotið, eða menn, sem giftir eru íslenzkum konum og hafa verið hér lengi. En þær umsóknir, sem liggja fyrir, verða bráðlega sendar þinginu, og þær geta þá komið til athugunar hv. n. og þeirra hv. þm., sem vilja gera brtt.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.