28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2766)

58. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson) :

Herra forseti. Eins og segir í nál. á þskj. 487, hefur allshn. orðið ásátt um að leggja til, að d. samþykki frv. með þeim brtt., sem hermir á nefndu þskj.

Fyrir n. lágu margar umsóknir um ríkisborgararétt, og hún hefur í till. sínum farið eftir gömlum lagafyrirmælum og fornri venju um að veita þeim einum ríkisborgararéttinn, sem uppfylla skilyrði laganna um veitingu ríkisborgararéttar að þessu leyti. Eins og tíðkazt hefur, hefur það verið látið nægja um fólk, sem er af íslenzku bergi brotið, að eigi væri rétt að gera það að höfuðskilyrði, að það fólk þyrfti að hafa dvalizt eins lengi í landinu og menn af öðrum þjóðum, og því er líka í till. n. farið eftir þeirri venju. Hinu sama máli gegnir og í þessum till., varðandi veitingu ríkisborgararéttar, um fólk, sem komið er hingað frá Norðurlöndum. En auk þeirra manna, sem eru frá þessum þjóðum eða svona er ástatt um, þá er hér í brtt. n. lagt til, að nokkrum mönnum, sem fæddir eru í Þýzkalandi, verði veittur ríkisborgararéttur. Þeir uppfylla öll skilyrði l. nema eitt. Flestir hafa dvalizt miklu lengur, en krafizt er, tekið sér hér fasta bólfestu og eru að öllu leyti orðnir íslenzkir þegnar. Sumir hafa unnið hér jafnvel áratugum saman, hafa bezta orð á sér fyrir reglusemi og ástundun og eiga hér börn. Flest þeirra eru fædd hér á landi og njóta hér fræðslu í skólum ríkisins, Og má segja, að föðurland flestra þessara manna hafi verið hér. Fólk þetta uppfyllir m. ö. o. öll þau skilyrði, sem krafizt er, að séu í lagi, að einu undanskildu, sem eigi er hægt að ætlast til, að menn geti uppfyllt, eins og nú er ástatt, en það er hegningarvottorð frá Þýzkalandi. Eftir ófriðinn er svo mikið rót og truflun á öllu þar í landi, að ómögulegt er að afla þaðan slíks vitnisburðar frá yfirvöldum þess lands. En fólk þetta hefur vottorð um búsetu sína hér á landi og hegningarvottorð héðan og er það óaðfinnanlegt í alla staði og í bezta lagi. Þegar þannig er ástatt, sá n. eigi ástæðu til annars en leggja til, að öllu þessu fólki verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja hér feril hvers manns. Þess getur í brtt., af hvaða bergi hver og einn sé brotinn. — Ég held þá, með skírskotun til gagna þeirra, sem fyrir liggja, að þetta sé nægjanlegt.

En auk þessa lágu fyrir umsóknir frá öðrum mönnum um veitingu ríkisborgararéttar. N. sá þó eigi ástæðu til eða varð ekki sammála um að taka þar fleiri upp, enda skortir á, varðandi meginþorra þeirra, sem um ríkisborgararétt sóttu eftir á, að fullnægjandi skilyrði séu fyrir hendi, eins og tíðkazt hefur. Margir þeirra hafa dvalizt of stuttan tíma hér á landi. Þá hefur dvalartími annarra slitnað sundur, þó að skjöl þeirra séu að öðru leyti í lagi og ekki annað sjáanlegt, en sumir þeirra, meðan eigi verður annað séð, muni geta öðlazt íslenzkan ríkisborgararétt innan skamms, ef þeir dveljast áfram á Íslandi, fullnægjandi skilyrði séu uppfyllt að því leyti og að öðru leyti verði þá skjöl þeirra í lagi.

Ég sé svo eigi ástæðu til að taka fleira fram. þessi atriði virðist mér að skipti höfuðmáli.