28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2769)

58. mál, ríkisborgararéttur

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg, að það hafi verið svo um þá Þjóðverja, þýzka ríkisborgara, sem dvöldu hér í stríðsbyrjun, að þeir hafi yfirleitt verið meðlimir í nazistaflokknum þýzka. Um þetta liggja fyrir skýrslur í dómsmrn., og er vorkunnarlaust fyrir hv. allshn., ef hún vill fá upplýsingar þar um, að fá þau skjöl til athugunar. Annað mál er það, hvort hv. allshn. álítur, að slík þátttaka í pólitískum öfgaflokki ætti að verða þess valdandi, að menn, sem hafa átt þá þátttöku í þeim flokki, ættu ekki að fá íslenzkan ríkisborgararétt, eftir að hafa dvalið hér 10 ár samfleytt í landinu, en mér skilst, að í þessu tilfelli vilji og hv. n. gera undantekningu. Ef ég man rétt, þá eru í lögum um íslenzkan ríkisborgararétt ákvæði um það, að eitt af skilyrðunum fyrir því, að menn fái íslenzkan ríkisborgararétt, sé það, að menn hafi átt samfellda 10 ára búsetu í landinu, áður en umsóknin um ríkisborgararéttinn berst Alþ. í hendur. Ef 10 ára búsetan er eitthvað slitin, jafnvel þó, að hún hafi verið alls um lengri tíma en þetta, ef hún slitnar eitthvað í sundur, þá er ekki í l. um íslenzkan ríkisborgararétt gert ráð fyrir, að menn geti öðlazt íslenzkan ríkisborgararétt. Ég hygg, að ég muni það rétt, þannig að hv. allshn. sé í þessu tilfelli að gera undanþágu frá því, sem annars er ákveðið í l. frá Alþ. Hv. frsm. n. leiðréttir þetta efalaust, ef þetta er misminni hjá mér. Ég hef ekki l. þessi fyrir mér hér, en hygg, að þau séu svona. Yfirleitt voru þeir þýzkir borgarar, sem hér dvöldu, aðrir en konur þessara manna, fluttir til útlanda í stríðsbyrjun. Og mér er þá spurn, hvort ekki muni standa líkt á um nr. 8 og nr. 21 í brtt. n. eins og u,m nr. 11, að þeir hafi verið fluttir úr landi þannig og skorti um þá nokkuð upp á, eins og um nr. 11, að þeir hafi haft samfellda 10 ára búsetu hér á landi, áður en umsóknir þeirra um ríkisborgararétt bárust Alþ. Ég vildi gjarnan fá þetta upplýst hjá hv. frsm. allshn.