05.01.1950
Neðri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla að verða mjög stuttorður, þótt atvmrh. hafi nú raunar gefið tilefni til lengri ræðu, en ég ætlaði að halda. Bæði er það, að hv. þm. Siglf. hefur ýtarlega rakið afstöðu okkar sósíalista til þessa máls, og auk þess fer það til n., sem ég á sæti í, og mun ég þar fá tækifæri til að fá ýtarlegri upplýsingar, en nú liggja fyrir. Nokkur atriði eru það þó, nokkrar spurningar, sem ég vildi beina til atvmrh., og mun þó reyna að stytta mál mitt, því að það er ekki tilgangur okkar að tefja þetta mál.

Það er þá í fyrsta lagi viðvíkjandi því spursmáli, sem ýmsir hafa komið inn á, hvort það sé tap á útgerðinni á Íslandi. Ég held, að það sé ákaflega rangt að líta svo á, að svo sé. Við getum stillt spursmálinu þannig, hvort það sé tap á gjaldeyrisframleiðslu Íslendinga, hvort það sé tap fyrir þjóðina að vera að framleiða gjaldeyri, því að ef við ætlum að leggja fram lausn á þessu máli, verðum við fyrst að stilla spurningunni rétt upp. Mitt álit er, að það sé stórgróði á gjaldeyrisframleiðslu Íslendinga. En þessi gróði fer á ýmsa staði aðra en til þeirra, sem bera ábyrgð á rekstri útgerðarinnar. Það er verzlunin, sem sogar í sig gjaldeyri frá útgerðinni, og bankarnir, sem verzla með gjaldeyri og lána út fé til þess að hagnýta gjaldeyrinn, hafa á sama tíma og talið er, að útgerðin tapi, þá halda þeir um 30 millj. kr. gróða. Það er gróði, sem fyrst og fremst og að mestu leyti stafar af gjaldeyrisframleiðslu. Þessar 30 millj., sem eru hreinn gróði bankanna á s.l. ári og mörgum undanförnum árum, er gróði, sem er þannig að miklu leyti tekinn frá útgerðinni. Sömuleiðis er svo og svo mikið af þeim gróða, sem verzlunarauðmagnið í landinu fær, gróði af útgerðinni. Þá er líka mikið af útgjöldunum í sambandi við skrifstofubákn ríkisins tekið af útgerðinni. Þetta þarf að gera sér ljóst, þegar við ætlum að skapa jafnvægi í þjóðfélaginu. Hvernig ætti þá að kippa þessu í lag? Í kapítalistísku þjóðfélagi, þar sem gróðinn við reksturinn er hvötin, sem rekur atvinnurekandann til þess að reka þennan atvinnuveg, er ekki hægt að halda þessum atvinnuvegi gangandi án þess að gróði sé á honum. Þegar þjóðfélagið ætlar að ráðstafa, hvar gróði skuli vera og hvar ekki, þarf að koma því þannig fyrir, að gróði sé á þeim hlutum, sem þarf að reka, og við erum sammála um, að það þarf að vera gróði á útgerðinni. Ef við álítum, að við höfum ekki efni á því að láta reka verzlunina með gróða, verðum við að taka hana sömu tökum og við tókum t.d. símaþjónustuna og hafnargerðir, þ. e. að þjóðnýta hana, svo að engir gróðamöguleikar séu þar. Ef við ætlum að sjá til þess, að útgerðin gangi, þá verður að taka mikið af þeim gróða, sem fer til bankanna, og veita til útgerðarinnar. Við getum gert það með ýmsu móti. Það er hægt að gera það með þjóðnýtingu, en ef við ætlum að lækna þetta mein, verðum við að gera okkur ljóst, hvernig í því liggur og hvernig á að skera meinsemdina.

Í öðru lagi vildi ég vekja athygli á því, að tilgangurinn með þessu frv. er sá, að því er 1. gr. snertir, eins og alltaf hefur verið með fiskábyrgðarl., að tryggja atvinnu og tryggja framleiðsluna. Við verðum að sjá til þess, þegar við ræðum um þessa hluti, að við göngum þannig frá þessu, ef það varðar miklar álögur á þjóðina, að það komi að fullum notum. Ráðstafanir verður að gera til þess að þjóðin fái meiri framleiðslu og aukinn gjaldeyri, en það er langt frá því, að það sé gert með þessu frv. T.d. er alveg óþolandi, að gömlu togararnir liggi bundnir við bryggju, þegar við erum í slíkum gjaldeyrisvandræðum sem nú, og það er hægt að bæta úr þessu með því að láta bæjarfélögin reka togarana og leyfa þeim að ráðstafa gjaldeyrinum. Þannig skapaðist stórkostlega aukinn gjaldeyrir fyrir þjóðina. En svo er það eitt atriði, sem ég vildi spyrja hæstv. atvmrh. um. Það er í sambandi við þá ábyrgð, sem ríkissjóður ætlar að taka á sig, og viljum við þm. fá að vita í fyrsta lagi, hvort ábyrgðin muni koma sjávarútveginum að gagni, og í öðru lagi, hvort þjóðfélagið geti staðið undir henni, og enn fremur langar mig til þess að fá upplýst, hvort fiskábyrgðin er slík, að bankarnir í krafti hennar álíti sér fært að veita útgerðarmönnum og hraðfrystihúsum lán, sem þeim eru nauðsynleg. Það hefur einmitt verið gildi fiskábyrgðarinnar, að bankarnir hafa séð sér fært hennar vegna að lána til sjávarútvegsins, en þó hafa orðið misfellur á því. Bankarnir hafa það alveg í hendi sinni, hvort þeir veita þessi lán, og ég hef stundum orðið var við, að þeir hafa stöðvað hraðfrystihúsin og sagt: Við getum ekki lánað út á ykkar fisk, því að við erum ekki öruggir um söluna á honum. — Sem sagt, bankarnir hafa ekki tekið ríkisábyrgðina á fiskverðinu sem fulla tryggingu og vilja vita það með fullri vissu, hvort fiskurinn selst. Því er viðbúið, að bankarnir segi nú: Við vitum ekki, hvernig gengur með söluna á fiskinum, þótt ríkissjóður hafi tekið ábyrgð á verðinu, og þið skuldið okkur svo mikið, að við sjáum okkur ekki fært að veita ykkur lán. — Það getur því hæglega komið fyrir, að bankarnir geri ekki mikið með ríkisábyrgðina, ef sala á okkar afurðum er í óvissu. Ég vil þess vegna fá að vita, hvort bankarnir hafa tekið á sig almennar skuldbindingar um að velta lán til útgerðarinnar, eða hvort við megum búast við því, að þeir stöðvi bátana og hraðfrystihúsin þrátt fyrir ríkisábyrgðina. Þetta er ákaflega alvarlegt mál, því að ef bankarnir beittu þessari aðferð, þá er þessi fiskábyrgð gagnslaus og útgerðin stöðvast, en slíkt ástand veit ég, að enginn hv. þm. vill eiga þátt í að skapa. Þess vegna er það ekki aðeins Alþingis, heldur og Landsbankans, að taka þessa ábyrgð á sínar herðar, og það er skylda bankans að taka þessa ríkisábyrgð gilda án tillits til markaðsspursmála. Ef slíkt er ekki fyrir hendi, þá þurfum við að gera okkur ýtarlegri grein fyrir útlitinu í markaðsmálum okkar og þá sérstaklega hvað snertir ísfiskinn. Freðfiskframleiðslan var komin upp í 75 millj. kr. í októberlok og er þar með langstærsti hluti útflutnings okkar. Salan á honum er því þýðingarmesti þáttur útflutningsverzlunarinnar, og hvernig var sú sala á s.l. ári? Mig minnir, að Þýzkalandsmarkaðurinn hafi verið aðalbjörgunin, þannig að Marshallfé var fengið og kallað andvirði fisksins. Í stað gjafa og lána, sem við gátum fengið, borguðum við Marshallféð með þessum fiski. Þetta þýðir náttúrlega sama og gefa fiskinn. Varðandi England þá er það vitað, að enska ríkisstj. kaupir ekki fisk í ár, og eru þannig tveir stærstu ísfiskmarkaðir okkar í óvissu, og er þá ekki óeðlilegt, að þm. vilji fá að vita, hvað hæstv. ríkisstj. meinar um horfurnar í markaðsmálunum. Hæstv. atvmrh. sagði, að þegar enska ríkisstj. hætti að kaupa fiskinn, þá væri þar með frjáls verzlun á fiski í Englandi. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefur sagt þetta af vanþekkingu eða ekki, en ég veit ekki til þess, að til sé frjáls freðfiskverzlun í Englandi. Ég held, að fyrirtæki þau, sem fengizt hafa við fiskverzlun í Englandi s.l. 3 ár, hafi verið keypt upp af feitmetishringnum Unilever, sem stjórnar nú allri fisksölu í Englandi og hefur keypt allan fiskinn, sem enska stjórnin hefur keypt af okkur. Unilever ræður alveg yfir fiskverðinu í Englandi, svo að þar er freðfisksalan einokuð sem mest má verða og ekki um neina frjálsa verzlun að ræða, og skil ég ekki, hvers vegna ráðamenn hér á landi dylja þjóðina þessa. En þetta er staðreynd, að við erum alveg upp á þennan hring komnir, en hann tekur mun minna tillit til sjónarmiða okkar en enska stjórnin gerði, meðan hún keypti af okkur fiskinn. Mér finnst því nauðsynlegt, að einhverjar upplýsingar fáist um horfur á sölu freðfisksins. Ég heimta þær ekki nú á stundinni, en óhjákvæmilegt, að sú n., sem fær málið til meðferðar, fái gagngerðar upplýsingar um þetta efni. Það er jú bókstaflega þannig, að ef við erum ekki öruggir með freðfiskmarkaðinn, þá erum við með samþykkt þessa frv. að stofna til ríkisgjaldþrots, ef freðfiskframleiðslan selst ekki. Því þarf n. að fá um þetta gagngerðar upplýsingar.

Hæstv. atvmrh. minntist á markaðsmálin viðvíkjandi okkar viðskiptapólitík. Ég er þess alveg reiðubúinn að ræða þessi mál, ef hæstv. ráðh. væri viðstaddur, en býst við að geyma mér það til 2. umr., ef hann skyldi verða við þá. Það er hægt að gefa upplýsingar um ónotaða möguleika í markaðsmálunum, og það er alveg óþarfi, þegar við fáum spark frá Bretum. að vera að útbásúna þá sem tryggustu og beztu viðskiptavini okkar. Þeir hafa arðrænt okkur og tekið með hervaldi okkar vörur fyrir smánarverð, svo að það er lítil ástæða til að vera að flytja þeim sérstök þakkarávörp.

Ráðh. hæstv. minntist einnig á S.Í.F. og rakti sögu þess. Ég er nú hræddur um, ef við ættum að ræða það mál, að þá kæmist málið ekki til n. fyrstu vikurnar, ef ég færi að ræða það allt saman, t.d. þegar brbl. voru sett rétt eftir þinglokin 1935 og Haraldur Guðmundsson, núv. hv. 4. þm. Reykv., var kúgaður til hlýðni við Kveldúlf og Alliance. Ef ég ætti enn fremur að ræða það, þegar S.Í.F. er notað til þess að halda niðri verði á íslenzka fiskinum, þá veit ég ekki, hvar við lentum með þessa umr.

Út af ummælum hæstv. ráðh. um það, að við sósíalistar værum svo ósvífnir, að við vildum samþykkja ríkisábyrgðina, en ekki skattana til þess að afla tekna á móti, þá vil ég minna á, að hér var samþykkt fyrir jólin þáltill., sem felur í sér tugmilljónaútgjöld fyrir ríkissjóð, án þess að nokkurra tekna væri aflað á móti. Hverjir fluttu þá till. og samþykktu? Voru það ekki meðal annarra sjálfstæðismenn? Væri ekki með því að samþykkja ábyrgðina, en ekki skattana, verið að fara troðnar slóðir Sjálfstfl.? Og það verð ég að segja, að álögur þær, sem frv. felur í sér, eru ósvífnar. Ekki eingöngu vegna þess, hve þungt þær koma niður á alþýðu manna, heldur og vegna þess, að þær miða einnig að því að auka dýrtíðina í landinu og stefna yfirleitt í hreinan voða. Ef við ættum að hafa nokkurt réttlæti í þessum málum, þá verðum við að taka það fé, sem vantar, fyrst og fremst af heildsölunum og bönkunum. Við verðum að þora að skera niður gróðamöguleika verzlunarinnar, skrifstofubákn ríkisins og óhófsgróða bankanna. Hins vegar er alveg óréttmætt að ásaka okkur sósíalista fyrir það, að við höfum ekki bent á tekjulindir. Við fluttum 1947 hér á Alþingi frv. í 8 köflum um þessi mál. Við höfum lagt fram till. um að taka peningana hjá þeim, sem geta látið þá í té, og að ríkið einoki fyrir sig gróðamöguleikana í þjóðfélaginu, og við erum reiðubúnir hvenær sem er með till. um slíkt. Hins vegar voru till. okkar felldar 1947, því að hér á Alþingi var ekki fyrir hendi meiri hluti, sem vildi láta verzlunarauðmagninu blæða fyrir töp sjávarútvegsins. Við höfum því bent á tekjuleiðir, og við mótmælum síðustu greinum þessa frv., af því að við álítum þær álögur, sem þar felast, óréttmætar og við viljum ekki láta meiri hluta Alþingis sleppa við að leysa þessi mál, vandamál sjávarútvegsins, á kostnað þeirra, sem á sjávarútveginum græða. Það er hins vegar eðlilegt, að Sjálfstfl., flokkur auðmannanna, reyni að leysa þessi mál á kostnað alþýðunnar, en það er það, sem Alþingi má ekki láta ske. Ég vona svo að fá upplýsingar hjá hæstv. ráðh. um það, sem ég gat um áðan, hvort sem það verður nú eða við 2. umr.