28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2770)

58. mál, ríkisborgararéttur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. frsm. allshn. hefur nú gert nokkra grein, frá sínu sjónarmiði, fyrir því, sem ég ræddi hér. Hann kom nú samt ekki inn á spursmálið um, að dvöl þess manns, sem ég sérstaklega ræddi um, hefði slitnað í sundur, og af hverju ekki væri tekið tillit til þess. Ég gat þess áðan, að ég vildi ógjarnan ræða persónuleg mál manna á opinberum vettvangi. En þessi mál eru þannig, að það er eðlilegt, að þau séu athuguð og það betur en gert hefur verið. Hv. þm. Ísaf. (FJ) hefur nú nokkuð minnzt á þetta, og ég vil minna á, að hér voru meira að segja mjög heitar umr., hér í þessari hv. d., út af dvalarleyfi fyrir einstaka menn af þessum mönnum, þar sem þeim var af þáv. dómsmrh., hv. þm. Ísaf., neitað um dvalarleyfi hér. — Nú vildi ég, út frá þessu, sem hv. frsm. hv. allshn. hefur sagt, benda honum á, af því að hann lauk ræðu sinni með því að tala um, að það væri aðeins verið að láta gilda jafnrétti, þegar lagt er til, að Max Keil væri látinn fá ríkisborgararétt, — ég vildi benda honum á, að í umsóknum þeim, sem liggja fyrir, er umsókn frá manni, sem heitir Heinz Friedlaender. Þessi maður kom til landsins 1935, hefur verið hér í 15 ár og hefur aldrei farið til útlanda síðan hann kom hér. Hann er giftur, á hér tvö börn, talar íslenzku og hefur unnið sem verkamaður allan þennan tíma, við landbúnað 1935 og síðan hér í Reykjavík og er nú vélsmiður. Hann hefur ágæt vottorð og ágætt álit, og hann var í Þýzkalandi sviptur ríkisborgararétti á sínum tíma af þáverandi stjórnarvöldum, þegar Hitler réð þar. Þessi maður hefur ekki enn þá fengið íslenzkan ríkisborgararétt, og hv. allshn. hefur nú ekki séð ástæðu til að leggja það til að þessu sinni. Þetta er ekki jafnrétti. Ég álít, að ef hv. n. ætlar að láta jafnrétti gilda um þetta, þá eigi hún ekki að taka einstaka menn út úr á þennan hátt, menn, sem hafa allan þann rétt til þess að fá íslenzkan ríkisborgararétt, sem almennt er gert sem forsenda í lögum. Ég vil nú vonast eftir því, að hv. allshn. athugi þetta mál betur, ef hún hefur ekki einhverjar þær upplýsingar að gefa, sem geti breytt áliti manns á þessu, sem ég held, að séu ekki fyrir hendi. — Að svo komnu ætla ég ekki að gera þetta frekar að umtalsefni. Það var minnzt á það af hv. frsm. n., að það væri betra, ef hægt væri að láta málið ganga áfram til 3. umr. nú. Ja, ef þær brtt., sem hér liggja fyrir, eru teknar til baka til 3. umr., hef ég ekkert við þetta að athuga. En ég álít ekki rétt, að svo komnu máli, að láta nú eins og stendur greiða atkv. um brtt. Ég vildi, að hv. allshn. endurskoðaði afstöðu sína um þá menn, sem umsóknir hafa sent, en hún hefur ekki lagt til, að fengju ríkisborgararétt, og þá um nokkra einnig, sem hún hefur tekið í till. sínar.