28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (2773)

58. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég vék einmitt að þeim ástæðum í ræðu minni, sem urðu þess valdandi, að ekki var alveg hægt að uppfylla nákvæmlega orðanna hljóðan í löggjöfinni, viðvíkjandi þessum mönnum um búsetuskilyrðið. En með till. n. ætla ég, að anda þeirrar löggjafar sé fullkomlega fylgt. Eftir skilningi hv. þm. Ísaf. ættu þeir menn, sem fluttir voru móti vilja sínum af landi burt örfáum dögum áður en þeir væru búnir að fylla 10 ára búsetutímann, að falla undan því að vera taldir hafa uppfyllt þetta ákvæði l. um búsetu hér á landi. Um þann mann, sem ég gat um í minni fyrri ræðu, er það að segja, að hann vantaði fáa daga til þess að hafa dvalið hér á landi í 10 ár samfleytt, er hann var fluttur af landi burt af Bretum 1940 til Englands. Þar áður hafði hann óskað eftir að fá íslenzkan ríkisborgararétt, en það var varla að búast við því, að það væri samþykkt þá, þar sem maðurinn var farinn úr landinu. Ef ætti að fylgja þessu ákvæði bókstaflega, sem hv. þm. Ísaf. minntist á, þá ætti ekki að veita mönnum ríkisborgararétt fyrr en þeir væru búnir að dvelja óslitið hér á landi í 10 ár. Og það var það, sem ég gerði áðan að umtalsefni, að ef ekki hefði komið gagnvart þessum mönnum sú hindrun, sem þeim var ósjálfráð og þeir á engan hátt gátu ráðið við, á því, að þeir uppfylltu búsetuskilyrðið, þá væru þeir nú búnir að öðlast íslenzkan ríkisborgararétt. Og þar sem svona er ástatt um þetta fólk, eins og ég hef áður lýst, þá finnst mér það ekki vera rétt að synja þeim um að fá þennan rétt hér. Með því að veita þeim íslenzkan ríkisborgararétt væri áreiðanlega fullnægt anda l. í þessu efni. Mér finnst, þar sem allt annað er í lagi viðkomandi umsókn þessara manna, þá sé þetta mannúðarmál líka fyrir þingið, hvernig það afgreiðir slíka samþykkt, og ég ætla, að slíkt kunni að vera nokkurs virði fyrir fleiri, en aðeins þá, sem þessa eiga að njóta, einnig þá, sem hafa það á valdi sínu, hvernig afgreiðsla málsins fer.