25.11.1949
Efri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (2793)

23. mál, viðskiptasamningar milli Íslands og Póllands

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Viðskiptasamningar þeir, sem í gildi voru milli Íslands og Póllands þar til nú fyrir fáum dögum, voru frá 14. júní 1948 og 7. apríl 1949. Gert var ráð fyrir jafnvirðiskaupum á milli landanna, þó þannig, að vöruverðið var reiknað í Bandaríkjadollurum. Þegar breytingin varð á gengi pundsins gagnvart dollar, þá leiddi af henni, ef ekki var að gert, að vörur frá Póllandi hefðu stórhækkað í verði og náttúrlega útflutningsvörur okkar þangað sömuleiðis. Nú eru aðalvörurnar, sem við kaupum af Pólverjum, kol, en þó er nokkuð af kolum keypt í Englandi, og hefði þá skapazt slíkur verðmunur á kolum, að ekki var við það unandi. Hins vegar var verð á útflutningsvörum til Póllands mjög hagstætt, svo að pólski markaðurinn var með okkar allra beztu mörkuðum, og eftir gengisbreytinguna hefði verð á útflutningsvörum þangað orðið óeðlilega hátt. Pólverjar héldu fast við ákvæðið um að miða verð vörunnar við dollar, og fékkst þá samið um að láta gamla dollaraverðið gilda. Í framkvæmd er þetta þannig, að stofnaður er sjóður á þann hátt, að skattur er tekinn af öllum útflutningi til Póllands, þannig að útflytjendur fá gamla dollaraverðið fyrir vörur sínar. Sjóðurinn er síðan notaður til þess að greiða niður pólskar innflutningsvörur. Þótti öllum þessi leið hin ákjósanlegasta, til þess að viðskiptin gætu haldið áfram sem áður, án þess að nokkur biði fjárhagslegt tjón af. Þá er þess og að geta, að fyrir gengisbreytinguna skuldaði Landsbankinn 700 þúsund dollara í Póllandi og hefði því orðið fyrir tapi, ef ekki hefði verið að gert. Nú er sjóðurinn, sem ég gat um áður, notaður til þess að greiða þessa skuld jafnframt því að greiða niður innflutningsvörur frá Póllandi, eins og ég rakti áðan. Ég hygg, að ég hafi ekki að svo stöddu fleira um þetta að segja, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.