28.02.1950
Efri deild: 65. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (2798)

23. mál, viðskiptasamningar milli Íslands og Póllands

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara og vil með fáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna. Ég er samþykkur því, sem í fljótu bragði virðist vera efni frv., sem er það að jafna verð á innfluttum og útfluttum vörum frá Póllandi, þannig að verðhlutfallið haldist það sama og það var, áður en gengisbreytingin var gerð. En þegar betur er að gáð, þá er þessi verðjöfnun ekki aðalefni frv., heldur hitt, að bæta Landsbankanum upp svokallað gengistap, vegna skulda, sem hann var í við pólska þjóðbankann, þegar gengislækkunin varð. Þetta er langsamlega stærsti hluti þeirrar upphæðar, sem hér er um að ræða, langsamlega stærsti hluti þeirrar upphæðar, sem heimilt er að halda eftir af andvirði pólskrar vöru, sem um ræðir í frv. Þessu er ég andvígur og það af eftirtöldum ástæðum: Ég sé ekki neina nauðsyn bera til þess að láta Landsbankann hafa sérstöðu fram yfir allar aðrar stofnanir og aðila í landinu, að því er þetta varðar. Það hafa sjálfsagt ýmsir orðið fyrir sams konar gengistapi, ýmsir aðilar, sem höfðu skuldað í gjaldeyri, sem hélt sínu háa gengi eftir að gengisbreytingin varð, en þeim hefur að engu leyti verið bætt það tap. Engum slíkum aðila, sem fyrir gengistapi hefur orðið, hefur verið bætt það upp, nema Landsbankanum. Hann er látinn hafa hér sérstöðu. Landsbankinn virðist ekki vera svo illa á vegi staddur, að nokkur nauðsyn sé fyrir slíka uppbót, þar sem hreinn gróði hans s. l. ár mun hafa verið um 18 millj. kr. Auk þess er vafasamt, hvort hægt er að kalla gengistap slíkt sem þetta raunverulegt tap. Bankinn verður að vísu að greiða fleiri krónur, en þær eru bara að sama skapi verðminni. Hagur bankans fer ekki eftir því, hvað hann á margar íslenzkar krónur í seðlum, heldur hvað hann á mikið í verðmætum gjaldeyri og gulli til tryggingar þeim. Það væri fróðlegt að fá að vita, hvernig þessu verður fyrir komið í gildandi samningum við Pólland, því að hér er aðeins um að ræða fyrri viðskiptasamninga. Fjhn. óskaði eftir að fá þennan samning hjá ríkisstj., og munu vera liðnir þrír mánuðir síðan, en samningurinn er ekki kominn enn, svo að mér er ókunnugt um, hvernig ríkisstj. hugsar sér, að þessu verði fyrir komið í viðskiptum samkvæmt gildandi samningum. Ef frv. um gengislækkun o. fl., sem nú liggur fyrir Nd., nær fram að ganga, þá hækka pólskar vörur frá því, sem þær voru áður en gengisbreytingin varð í haust, um rúmlega 150%, þ. e. a. s. þær 2½-faldast í verði, þegar báðar gengisbreytingarnar leggjast saman. Sömuleiðis margfaldast verð fyrir þær vörur, sem seljast til Póllands, með 2½, þær hækka um rösklega 150%. Ef nú útflutningurinn til Póllands hefur verið fullsæmdur af því verði, sem fengizt hefur fyrir gengisbreytinguna í haust, hvað verður þá eftir gengisbreytinguna, sem nú er fyrirhuguð? Þess vegna er þetta aðalatriðið, sem við hljótum að spyrja um, hvernig þessu verði fyrir komið á yfirstandandi ári, þegar horfur eru á 150% hækkun á vörum, keyptum og seldum frá Póllandi. Þess vegna hef ég ekki talið ástæðu til að koma með brtt. við frv., þar sem hér er um brbl. að ræða, sem búið er að framkvæma að langmestu leyti. Ég vildi aðeins láta þessa skoðun mína í ljós.