25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (2826)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Eins og hv. alþm. frá seinasta þingi rekur minni til, þá var frv. samhljóða þessu borið fram hér í hv. d. á því þingi, og lauk því á þann hátt, að það var gefin yfirlýsing af minni hálfu um það, að ég mundi láta skipa nefnd manna, sem athugaði, hvort hægt væri að koma á löggjöf um þetta efni, sem að einhverju leyti væri byggt á samkomulagi milli sjómanna og útgerðarmanna eða togaraeigenda. Á s. l. vori skipaði ég þessa n. þannig, eins og menn munu hafa veitt athygli, að sjómannafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði skipa tvo menn í n. og félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda tvo. Þar að auki valdi ég einnig tvo menn af hálfu ríkisvaldsins til þess að hafa forustu í n., þá Torfa Hjartarson tollstjóra og Jónatan Hallvarðsson hæstaréttardómara, m. a. með hliðsjón af því, að þessir tveir ágætu embættismenn hafa hvor fyrir sig um talsverðan tíma gegnt sáttaumleitunarstarfi í vinnudeilum. Ég gat þess þá, að ég hefði talið eðlilegt, að hægt væri að leysa þetta mál á einhvern vinsamlegan hátt, á þann veg, að það hefði verið gagnkvæmur skilningur sjómanna annars vegar og togaraeigenda hins vegar um lausn málsins. Þessi n. starfaði svo í sumar og aflaði sér gagna og kynnti sér löggjöf víða um lönd í þessum efnum, um vinnuvernd sjómanna. En því miður varð niðurstaða n. neikvæð, þar sem nefndarmenn skiptust í tvennt, en embættismennirnir tóku ekki neina ákveðna afstöðu. Fulltrúar sjómanna lýstu yfir, að þeir væru því fylgjandi að koma á 12 tíma hvíld, en fulltrúar togaraeigenda lýstu sig því hins vegar algerlega andstæða og töldu, að það væri mjög hættulegt fyrir togaraútgerðina, eins og nú standa sakir. Þeir hafa ekki einungis haft í huga togarasjómenn, þegar um er að ræða hvíldartímann, heldur hafa þeir einnig orðið þess varir, að hlutarsjómenn telja nauðsynlegt að koma á einhverjum reglum, annaðhvort með samkomulagi milli atvinnurekenda og sjómanna eða með löggjöf frá Alþ., sem tryggði sjómönnum bæði á togurum og mótorbátum vissa hvíld á hverjum sólarhring. — Alþýðusamband Íslands eða stjórn þess hefur líka athugað þetta mál, eftir að niðurstaða fékkst frá n. Stjórn Alþýðusambandsins skrifaði Alþ. bréf, og hef ég fengið eftirrit af því sent frá alþýðusambandsstjórninni um þetta mál, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa þetta bréf upp. Það hljóðar svo:

„Hinn 8. júní 1948 skipaði félagsmálaráðuneytið nefnd til þess að gera tillögur um hvíldartíma togarasjómanna. Nefnd þessi hefur nú skilað tveimur álitum, sem mjög ganga hvort í sína áttina. Þar sem svo mikið ber á milli álitanna, má telja víst, að enginn árangur verði af starfi nefndarinnar. Nú er engin heildarlöggjöf til um vinnuvernd íslenzkra sjómanna (farmanna og fiskimanna). Er slíkrar löggjafar brýn þörf. Stjórn A. S. Í. leyfir sér því að skora á hið háa Alþingi að skipa þegar nefnd til þess að semja frumvarp til laga um vinnuvernd sjómanna, og verði Alþýðusambandi Íslands gefinn kostur á að tilnefna menn í nefndina, sem fulltrúa sjómannastéttarinnar.“

Ég vildi aðeins láta þessi orð fylgja þessu frv., áður en það fer til n., og vil ég biðja hlutaðeigandi n. að athuga þetta bréf frá Alþýðusambandinu og er fús til þess að láta n. í té álitsgerðir og gögn þeirrar n., sem starfaði að því að ná niðurstöðu um þetta mál milli sjómannasamtakanna annars vegar og togaraeigenda hins vegar. Í gögnum þeim, sem n. aflaði, er mikinn fróðleik að finna um þetta mál meðal annarra þjóða, bæði í Norður- og Vestur-Evrópu og jafnvel í Austur-Evrópu. Tel ég æskilegt, að n. kynni sér þessi gögn sem allra bezt og einnig að hún athugi, hvort hugmynd ríkisstj. og Alþýðusambandsins um allsherjar löggjöf og vinnuvernd sjómanna væri ekki verkefni nú fyrir Alþ. að taka til afgreiðslu, svo fljótt sem kostur er á.

Annað ætla ég ekki að segja um þetta mál á þessu stigi. Ég mun láta þeirri n., sem um þetta mál fjallar, í té þau gögn, sem fyrir liggja, og einnig það bréf frá stjórn Alþýðusambandsins, sem ég hef nú lesið upp.