25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (2828)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 6. þm. Reykv. skal ég fyrst geta þess, að þó að þessi till. og yfirlýsing mín um skipun n. væri gerð á Alþ., sem telst til ársins 1947, þá var það ekki fyrr en kom alllangt fram á árið 1948, sem þetta var gert, þannig að frá því málið var afgreitt og þangað til ég skrifaði hlutaðeigandi aðilum varð enginn óþarfa dráttur af minni hálfu eða ríkisstj. í þessu máli. Hitt er svo annað mál, sem hv. 6. þm. Reykv. kom inn á, hvort ætti að afnema l. um hvíldartíma íslenzkra háseta. Ég er honum mjög andvígur, hvað þessa skoðun snertir. Við þekkjum báðir, hv. 6. þm. Reykv. og ég, sögu þessa máls frá árinu 1920 til þessa dags, og höfum báðir kannske átt þar einhvern þátt að. Það var kunnugt á sínum tíma, þegar togaravökul. voru samþ. á Alþ. 1921, að þá var það sá fengur, sem sjómannastéttin vart getur fullþakkað. 1928 eða 1929 var hvíldartíminn lengdur upp í 8 stundir á sólarhring, en í l. frá 1921 var hann ákveðinn 6 stundir á sólarhring. Það er líka aðgætandi í þessu máli, og vil ég benda hv. 6. þm. Reykv. á það, að l. ræða þarna um lágmarkshvíldartíma hásetanna, svo að það er jafnopið, ef hægt væri að gera samninga um lengdan hvíldartíma, og hafa sjómannasamtökin þá það öryggi að baki sér, að þeim er tryggt með l., að hvíldartíminn má ekki vera skemmri, en 8 stundir á hverjum sólarhring. Ég tel, að togarasjómennirnir séu ánægðir með að hafa þessa lágmarkstryggingu, þó að þeir óski eftir að hafa hvíldartímann lengri. Ég held, að þeim væri gerður bjarnargreiði með því að fella þessa löggjöf úr gildi, jafnmikla baráttu og hún kostaði á sínum tíma og þær endurbætur, sem á henni fengust 10 til 15 árum seinna. Spurningin er svo aftur á móti um það, hvernig á að leysa það, sem fram hefur komið í þessu máli: kröfu sjómannanna um lengri hvíldartíma og andstöðu togaraeigenda við að semja um lengdan hvíldartíma á togurum.

Ég vil að lokum ítreka það, að ég tel, að þetta mál sé vandasamt og ekki auðleyst, hvorki fyrir löggjafarvaldið né sjómannasamtökin. Ég tel, að mikið sé undir því komið, að hægt verði að koma málinu áleiðis á þann veg, að hvort tveggja sé tryggt, að sjómennirnir njóti betri aðbúnaðar en áður, án þess að hætta væri á því, að slíkir samningar eða slík löggjöf hefðu í för með sér nokkuð það, er gerði það að verkum, að örðugra yrði að fást við íslenzka togaraútgerð, en það er nú í dag. Þar má vissulega ekki á bæta. Þó vil ég taka það mjög skýrt fram, að ég tel það sízt sjómönnunum að kenna. Þar eru atriði, sem koma til greina, sem enginn fær við ráðið. Hvorki íslenzka sjómannastéttin né íslenzkir útgerðarmenn valda því, að illa horfir í þessum efnum. Ég tel brýna nauðsyn bera til þess að skapa íslenzku sjómannastéttinni, bæði þeim sjómönnum, sem vinna á togurum, mótorbátum og öðrum skipum flotans, betri og öruggari aðbúð, samtímis því, að tryggt væri, að útgerðin gæti gengið með sem allra fyllstum krafti.