25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2830)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég stend upp til þess eins að láta í ljós undrun mína yfir þeirri skoðun hv. 6. þm. Reykv. (SG), að ástæða sé til þess að afnema l. um hvíldartíma á botnvörpuskipum, togaravökul. svo nefndu. Mig furðar þeim mun meir á þessari skoðun hv. þm. sem hann er formaður stærsta verkalýðsfélags landsins. Það hefur þegar verið tekið fram, að togaravökul. eru vinnuverndarl., sem ákveða sjómönnum ákveðinn lágmarkshvíldartíma. Þau tryggja sjómönnum ákveðinn lágmarkshvíldartíma á hverjum sólarhring. Með því er engan veginn ákveðið, að hvíldartíminn megi ekki verða lengri, ef frjálsir samningar takast um það milli útgerðarmanna og sjómanna. Hann má aðeins ekki verða styttri. Verkalýðsfélögunum hefði verið frjálst, þrátt fyrir ákvæði þessara l., að semja um lengri hvíldartíma á togurum, ef þau hefðu talið sig hafa bolmagn til þess að hrinda slíku máli fram. En einmitt það, að þau hafa leitað á náðir Alþ. um þetta mál, sýnir, að verkalýðssamtökin hafa ekki treyst sér til þess að hafa nægilegt bolmagn í frjálsum samningum til að hrinda málinu í framkvæmd. Af. sömu ástæðu var leitað á náðir Alþ. fyrir tæpum 30 árum og um 20 árum í annað sinn.

Ég vil nota tækifærið til þess að lýsa eindregnu fylgi mínu við frv., hvort sem horfið verður að því að afgreiða það eins og það liggur fyrir hér eða það verður lögfest sem liður í viðtækari heildarlagasetningu um þessi mál. En ég vildi ekki láta umr. lokið án þess að andmæla sterklega þeim ummælum hv. 6. þm. Reykv. (SG), að togaravökulögin gerðu ekki gagn lengur. Í þessu sambandi má geta þess, að fyrir þessari hv. d. liggur mjög stór lagabálkur, frv. um öryggi á vinnustöðum, sem mun vonandi hljóta afgreiðslu á þessu þingi. Í báðum þessum frv. er um að ræða lágmarksákvæði um öryggi á vinnustöðum. En þó að slík lagasetning nái fram að ganga, þýðir það auðvitað ekki, að einstök stéttarfélög hafi ekki heimild til að semja um víðtækara öryggi á vinnustað, en ákveðið er með þeim l. Nú vona ég, að það sé ekki skoðun hv. 6. þm. Reykv., formanns Dagsbrúnar, að slík lagasetning um öryggi á vinnustöðum sé óþörf, vegna þess að verkalýðsfélögin hafa stundum með frjálsum samningsrétti tryggt félagsmönnum sínum hliðstæð réttindi. Ástæðan til þess, að verkalýðssamtökin standa einhuga um þessar lagabreyt., er sú, að þau álita, að heppilegt sé, að l. tryggi ákveðið lágmarksöryggi, sem gildi fyrir alla. Svo geta einstök verkalýðsfélög komið til skjalanna og notað sinn samningsrétt til að knýja fram meira öryggi á einstökum sviðum og nánari ákvæði, en ástæða er til eða hentugt þykir að hafa í heildarlagasetningu. Ég er því mjög eindregið á þeirri skoðun, að þó að fyllsta ástæða sé til að lengja hvíldartíma háseta á botnvörpuskipum, þá eigi að gera það á þann hátt, sem markaður var, þegar fyrsta lagasetningin var gerð um þetta 1921. Það er eðlilegt, að þetta sé löggjafaratriði. Á þann hátt er hagur sjómannanna bezt tryggður. Ég hygg, að það væri mjög óheppilegt að afnema þessa réttindalöggjöf, en láta það síðan vera komið undir samningum útgerðarmanna og sjómanna, hve mikinn hvíldartíma tekst að tryggja togarahásetum hverju sinni. Ég vil ekki spá því, að hann yrði styttri, frá því sem hann nú er, en hitt kynni vel að geta átt sér stað, að það tækist alls ekki í frjálsum samningum við togaraeigendur að ná fram þeim réttarbótum, sem vonir ættu að geta staðið til að næðust fram hér á Alþ., þótt málið hafi að vísu sótzt seinna, en æskilegt hefði verið. Það tók líka sinn tíma að fá fram þær réttarbætur, sem áður hafa fengizt á þessu sviði.