25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2832)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég var að vona, að hinn gamli og reyndi verkalýðssinni, hv. 6. þm. Reykv., hefði kannske í of miklum hita ofmælt, að það væri æskilegt fyrir sjómennina að afnema l. um hvíldartíma togaraháseta. Það vill hann ekki gera, heldur skjóta sér bak við einhverjar raddir, sem hann hafi heyrt frá sjómönnum um þessi efni. Ég vildi, að hann hefði hreyft því meðal sjómanna yfirleitt, hvort þeir vildu afnema þessi l. Ef það hefði verið samþ., þá hefði ég undrazt, en hann fengið staðfestingu á fullyrðingum sínum.

Það er vissulega svo, að enginn sjómaður og enginn verkamaður, sem skilur þjóðfélagsaðstöðu sína, hafnar því að fá l., sem tryggja honum viss minnstu réttindi, jafnvel þó að hann telji þau of lítil. Ég held það sé leitun á mönnum, sem séu svo skammsýnir, og þess vegna held ég, að ekki sé rétt að orða sjómannastéttina við þessa hugmynd, sem skaut upp hjá hv. 6. þm. Reykv. Hitt er misskilningur, sem mér fannst koma fram hjá honum, að l. hefðu ákvarðað, að vinnutíminn skyldi vera 16 stundir á sólarhring, en hvíldartíminn 8 stundir, því að eins og tekið hefur verið fram í umr. hér, er það greinilegt, að vinnutíminn má ekki vera lengri, en 16 stundir á sólarhring og hvíldartíminn þar af leiðandi ekki styttri, en 8 stundir.

Nú er það svo, að það háttar mjög misjafnlega til um togaraútgerð og veiðiaðferðir. Í síðustu samningum, sem gerðir voru milli sjómanna og útgerðarmanna, þá var sjómönnum tryggð veruleg hvíld frá því, sem áður var, hjá sjómönnum, sem veiddu ísfisk og seldu hann til útlanda. Það hefur því tekizt að tryggja sjómönnum betri aðstöðu og aðbúnað, svo að það ætti að geta orðið og það ætti að verða samspil milli löggjafarvaldsins og alþýðusamtakanna að vinna að þessu máli.

Hv. 6. þm. Reykv. talaði um, að þetta væri afturför frá því, sem var á skútuöldinni, því að þá hefði hvíldartíminn verið 12 stundir. Ég veit ekki, hvort hann hefur verið á skútu. Ég hef sjálfur verið það, eina heila vertíð, og þekki það vel. Þó að það sé rétt, að frívaktirnar hafi verið 12 tímar á sólarhring, þá voru launakjörin þannig, að hver sjómaður, sem vildi efla tekjur sínar og komast sæmilega af, stóð frívaktina, svo að hvíldartíminn varð oft eigi langur. Ef hv. 6. þm. Reykv. hefur einhvern tíma verið á skútu, þá veit ég, að hann þekkir þetta jafnvel og ég.

Það er líka hart að halda því fram, að aðbúnaður togarasjómanna hafi versnað, eftir því sem lengra hefur liðið, því að hann hefur batnað, ekki sízt með hinum nýtízku togurum, sem keyptir hafa verið til landsins, því að það er enginn vafi, að þar er það þannig, að aðbúnaður sjómanna er hvergi eins góður og þar. Þannig hefur með löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi tekizt að bæta aðbúnað sjómanna, og sjómenn hafa bætt tekjuöflun sína og aðbúnað með samningum við útgerðarmenn.

Hv. 6. þm. Reykv: minntist einnig á, að það væri ekki saman að jafna löggjöfinni um vinnuvernd og eftirlit með öryggi á vinnustöðum við þetta mál, sem hér er um að ræða. Nú veit ég, að hann, sem um langt skeið hefur staðið í fyrirsvari fyrir stærsta verkalýðsfélagi landsins, kannast við, að einn þátturinn í samning. um hefur oft verið að tryggja öruggari aðbúnað á vinnustöðum. Þetta hefur verið gert með samningum og tekizt stundum. En það er alls ekki fullnægjandi. Þess vegna þarf að setja heildarlöggjöf um öryggi á vinnustöðum, og frv. það, sem hér liggur fyrir, er merkilegt og stórt skref í íslenzkri félagsmálalöggjöf. Ég efast ekki um, að þess sjái verulega stað, eftir að það frv. hefur verið samþ. hér á þingi, sem ég vil vænta, að verði nú á yfirstandandi þingi. Þetta kom ekki sjálfu frv. við, sem hér er til umr., en ég vildi láta þessa skoðun mína koma fram að gefnu tilefni frá hv. 6. þm. Reykv., þar sem mér fannst gæta verulegs misskilnings af hans hálfu, hvað snertir baráttu að hálfu verkalýðssamtakanna.