25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2836)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Flm., (Sigurður Guðnason) :

Það er viðvíkjandi því, sem inn í þetta mál hefur spunnizt, um öryggislögin, sem ég vil aðeins taka nokkur orð fram.

Hv. 3. landsk. (GÞG) sagði að mér væri ókunnugt um, hvað í þessum l. stæði, en ég vil benda á, að öll atriði um útbúnað á vinnustöðum hafa þegar verið tekin upp af fjöldamörgum verkalýðsfélögum, og ég veit, að margt af þessu hefði mönnum ekki dottið í hug að setja í þessi l., ef ekki væri búið að fá um það samninga við atvinnurekendur. Eins er hitt, að í mörgum verkalýðsfélögunum er nú búið að semja um 8 stunda vinnudag, og í Dagsbrún er samið sérstaklega um yfirvinnu og næturvinnu, og nú er svo komið, að næturvinnu má ekki vinna nema með sérstöku leyfi, því að samningarnir um 8 stunda vinnudag voru ekki nóg vinnuvernd, því að þá var látið vinna áfram yfirvinnu og næturvinnu. Þá var þetta ákvæði sett, að næturvinnu megi ekki vinna, nema sérstaklega standi á, og það er eitt allra stærsta atriðið, sem áunnizt hefur, bæði fyrir verkamenn og líka fyrir atvinnurekendur. Þeir hafa viðurkennt, að það er líka hagsbót fyrir þá, vegna þess að þeir fá betri vinnuafköst. Þetta var orðið svo, að menn unnu alla nóttina, og menn voru að, þangað til þeir gátu ekki unnið lengur. Þetta hefur nú verið afnumið. Slík ákvæði hafa gegnumsneitt komizt inn í samningana, áður en þau hafa verið tekin upp í löggjöf. Ég sný því ekki aftur með það, að ef lögunum um hvíldartíma háseta á togurum verður ekki breytt, þá rekur að því, að það verður að fara þá leið að semja um það, og þá eru l. í raun og veru ekki lengur í gildi, því að þau eru það ekki, þegar búið er að semja um, að hásetar skuli hafa 12 tíma lágmarkshvíld.