11.05.1950
Neðri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (2844)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Frsm. 2. minni hl. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Mál þetta hefur verið æði oft á dagskrá, en ekki komizt til umr. fyrr en nú. Mér þykir leitt, að hv. frsm. meiri hl. skuli ekki vera við, en hér eru þó tveir aðrir hv. nm. úr sjútvn., sem standa með honum að nál., og hygg ég, að rétt sé, að málið sé tekið til umr. og afgreiðslu nú. Málið hefur legið lengi hjá sjútvn., og leitaði hún um það ýmissa upplýsinga, m. a. nál. frá mþn., sem skipuð var í málið, og gekk á milli allra nm. til að heyra álit þeirra. Auk þess sendi n. Alþýðusambandi Íslands og Landssambandi íslenzkra útvegsmanna frv. til umsagnar og fékk frá þeim aðilum báðum umsagnir, sem prentaðar munu vera með nál. hv. meiri hl. Í grg. mþn. og svörum þessara aðila koma fram rök bæði með og móti og raunar frá öllum hliðum, og enn fremur er saga málsins rækilega rakin bæði í mínu nál. og nál. hv. 1. minni hl., hv. þm. Siglf. (ÁkJ). Ég sé því ekki ástæðu til að halda hér langa ræðu, þar sem málið liggur svo ljóst fyrir hv. þm., að þeim er innan handar að gera upp við sig, hvaða till. þeir vilja fylgja í þessu máli. Við það, að saltfiskveiðar togaranna eru nú teknar upp á ný, þá er vinna hásetanna orðin svo hörð, að slík vinna þekkist ekki við aðra atvinnuvegi hér á landi. Það hefur og komið í ljós, að síðan togararnir fóru aftur að veiða í salt, þá hefur þeim gengið illa að fá menn, enda var launum þeirra breytt til hins verra með gengislækkuninni. Meðan togararnir sigldu með ísfisk reglulega til útlanda, fengu hásetarnir annað slagið verulegar hvíldir, en eftir að farið er að veiða í salt á ný, hefur þetta breytzt mjög til hins verra, og ég hygg, að engin vinna í landinu sé sambærileg við vinnu togarasjómanna nú. Ég tel, að með því að hafa ekki hvíldartímann lengri, en í l. er nú, þá sé heilsu hásetanna beinlínis stefnt í voða, og af þeirri einu ástæðu er Alþingi rétt að hafa afskipti af málinu. Atvinnuvegurinn er og sjálfur í hættu vegna þess, að menn fara ekki á saltfiskveiðar til lengdar, nema þeir eigi einskis annars völ. Þá er og hætta á, að til þessa starfs veljist ekki eins duglegir menn og þörf er á vegna þess, að þeir, sem duglegastir eru, eiga frekar völ á annarri vinnu. Ég heyrði að hæstv. forsrh. sagði í útvarpið í gær, að eitt af stefnumálum hæstv. ríkisstj. væri að gera framleiðslustörfin eftirsóknarverð. Ekki virðist þó vera að því stefnt með þeim aðferðum, sem togarasjómenn eru beittir, því að þeirra framleiðslustörf eru nú sízt allra eftirsóknarverð, og með það fyrir augum, að togararnir gefa landinu mjög verulegan hluta allra gjaldeyristeknanna, þá verður að líta svo á, að Alþingi verði hér að skerast í leikinn og framkvæma þann vilja hæstv. ríkisstj. að gera þessi framleiðslustörf sem eftirsóknarverðust, en það er ekki gert, ef kjörum háseta er stórspillt með gengislækkunarlögunum og vinnutími þeirra er svo langur, að hætt er við, að þeir leiti í aðrar atvinnugreinar, ef þeir mögulega geta. Ég hef því lagt til, að frv. þetta verði samþ. með þeirri breyt., að orðin „tvær 12 stunda vökur“ falli niður. Ástæðan fyrir því er sú, að ég tel heppilegra að hafa þrískiptar vökur, og er þessi brtt. flutt í samráði við stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur, sem taldi þetta fyrirkomulag heppilegra. Fjölyrði ég svo ekki meira um þetta, en vísa til glöggra raka, sem fyrir liggja, bæði með og móti, en ég tel, að þau rök, sem mæla með því, séu svo yfirgnæfandi, að ég hygg, að hv. þm., ef þeir íhuga málið, hljóti að fylgja því, og þá væntanlega með brtt. minni.