11.05.1950
Neðri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (2845)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Frsm. 1. minni hl. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Mál þetta á sér nokkuð langa sögu. Það var fyrst árið 1942, að frv. um 12 stunda hvíldartíma togarasjómanna var flutt á Alþingi af Ísleifi Högnasyni, þáv. landsk. þm. Þá stóð svo á, að um almennan áhuga sjómanna á málinu var ekki að ræða vegna þess, að þá var eingöngu um ísfiskveiðar að ræða, sem þýddi svona 10–13 daga skorpur, en svo hvíld eða hæga vinnu við siglingar til Englands. Saltfisktúrar voru þá engir. Nú er þetta gerbreytt, og var frv. flutt aftur 1946, og var þá áhugi togarasjómanna á málinu geysimikill, sem bezt sést á því, að um 500 togarasjómenn skoruðu á Alþingi að lögfesta 12 stunda hvíld, og síðan hefur það áunnizt, að fleiri og fleiri hafa nú augun opin fyrir því, að þetta er réttlætismál, sem hlýtur að verða að l. fyrr eða seinna. Ástandið er núna svo óskaplegt, að sjómenn standast alls ekki áreynsluna. Þeir þurfa að vinna 16 tíma á sólarhring nær alla daga mánaðarins, þegar gæftir eru, og það er orðið slæmt veður, þegar ekki er farið á veiðar. Sóknin á nýsköpunartogurunum er gífurleg og miklu meiri, en á þeim gömlu. Það var t. d. róið í illviðri yfir alla jóladagana, þangað til 2. jóladag, að einn togari á Halanum missti tvo menn útbyrðis og annar drukknaði. Það er því miður oft sótt af lítilli forsjá, og slys á nýsköpunartogurunum hafa verið óhugnanlega tíð, en það kann að vera af því, að hásetarnir séu alveg útkeyrðir. Það er vissulega flestum um megn að þræla 16 tíma dag eftir dag í kulda og vosbúð, enda eru flestir togarasjómenn komnir í land fyrir fertugsaldur og eru þá venjulega orðnir heilsulausir menn. Nú skyldu menn halda, að þeir menn, sem þetta leggja á sig, hefðu mikið kaup, en það er síður en svo. Á saltfisktúrunum núna er kaupið 1.800–2.000 kr. á mánuði, og af því er slit á stakki og stigvélum milli 300–400 kr. Eftir eru þá um 1.500 kr. til að lifa af eftir þetta 16 tíma strit. Það er augljóst, að þeir, sem eru á móti þessu máli, horfa ekki á kjör sjómannanna, heldur aðeins á hitt: Getur togaraútgerðin staðizt þetta? — En það má ekki eingöngu miða við það, heldur á að spyrja: Er það forsvaranlegt að fara svona með menn? Og ég vil segja: Þjóðfélagið hefur ekki efni á slíku, að slíta mönnum svo út, að þeir verði heilsulausir á bezta aldri. Auk þess er þetta mannúðarmál, þar sem slík vinnuþrælkun er bókstaflega óleyfileg, þegar búið er að lögleiða 8 stunda vinnudag í landi. Það er alveg óforsvaranlegt, að menn, sem stunda svo hættulega og erfiða vinnu, hafi slíkan aðbúnað, hvað hvíldartíma og kaup snertir. Ég er alveg hissa á því, að hv. fulltrúi Framsfl. í sjútvn. skuli hafa skrifað undir álit meiri hl. um að drepa málið. Í sjálfu sér bjóst ég ekki við öðru af fulltrúum Sjálfstfl., því að þeir skoða sig fyrst og fremst fulltrúa togaraeigenda og hafa sýnt það, að þegar hagsmunir atvinnurekenda eru annars vegar, þá verða mannúðarsjónarmiðin að hverfa. En ég er hissa á afstöðu hv. þm. N-Þ. Ef ekki er hægt að láta togarana bera sig án þrælkunarvinnu, þá á þessi atvinnurekstur engan rétt á sér. Hins vegar er ég á þeirri skoðun, að togararnir geti vel borið sig, þótt frv. verði samþ. Hinu gagnstæða var haldið fram, er 6 stunda hvíldin var lögleidd 1921 og þegar 8 stunda hvíldartími var lögfestur 1928, en reynslan varð sú, að meiri afköstum var náð með sama mannskap. Sjómennirnir unnu betur, þegar þeir gátu hvílt sig, heldur en ef þeim var þrælkað út í marga daga samfellt. Ég er sannfærður um, að ef togarasjómenn fengju meiri hvíld, en þeir hafa nú, þá mundu afköst verða meiri á togurunum.

Það er búizt við því, að framkvæmd l. muni hafa það í för með sér, að nokkrum mönnum þurfi að bæta við á skipin, og er dálítill ágreiningur um það, hve margir þeir þyrftu að vera. Sumir gera ráð fyrir 4–6 mönnum, en ég hef heyrt fulltrúa sjómanna færa rök að því, að ekki muni þurfa að bæta við nema 2–3 mönnum, enda munar það svo miklu, hvað hver maður afkastar meiru með betri hvíld. Það er greinilegt hverjum skipstjóra, hve afköst slakna t. d. eftir að sjómennirnir hafa verið dálítinn tíma á hafi á siglingu.

Ég býst ekki við, að það hafi farið fram hjá neinum alþm., hve algengt er nú orðið að sjá auglýsingar í blöðum um það, að menn vanti á togara, og miklu algengara jafnvel en að sjá auglýst eftir vinnukonum á Landsspítalann. Og af hverju skyldi þetta stafa? Á því, að sjómennirnir þola ekki þennan þrældóm og gefast upp. Skipstjórarnir sjá þetta og viðurkenna. Þeir verða oft að fara þannig út, að meiri parturinn af skipshöfninni eru viðvaningar og aðeins nokkrir vanir sjómenn um borð, sem verða að leggja enn harðar að sér en ella, og afleiðingin er þannig aukinn þrældómur, minni afköst, slæm flatning á fiskinum og lélegri vara. Þetta er viðurkennt af flestum nema nokkrum hinna þröngsýnustu útgerðarmanna. Í till. meiri hl. n. koma till. þeirra einna fram. En það er í alla staði óhyggilegt og heimskulegt að þráast svona við eins og meiri hl. gerir og hætta er á, að Alþ. geri nú. Ég tel, að ef hér yrði bót á ráðin og frv. þetta næði samþykki, þá mundi mjög lagast samkomulag á milli togaraeigenda og sjómanna, því að vinnuþrælkunin er allverulegur þáttur í gremju togarasjómanna og þeirri óánægju, sem ríkjandi er meðal þeirra nú.

Hv. þm. Ísaf. (FJ), sem skilaði hér 2. minni hl. nál., leggur til breytingu við það, sem í frv. segir, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er skip er að veiðum með botnvörpu eða á siglingu milli innlendra hafna og fiskimiðanna, skal jafnan skipta sólarhringnum í fjórar 6 stunda vökur eða tvær tólf stunda vökur, eftir því sem hásetar á viðkomandi skipi kjósa heldur.“ Hv. þm. Ísaf. leggur til, að orðin „eða tvær tólf stunda vökur, eftir því sem hásetar á viðkomandi skipi kjósa heldur“ falli niður. Ég held, að ekki sé hyggilegt að binda slíkt í lögum. Samkvæmt vökulögunum eins og þau eru nú eiga skipverjar að hafa 8 klst. hvíld á sólarhring. Þetta er framkvæmt þannig, að það kemur út sem 16 tíma hvíld á tveimur sólarhringum, og þá skiptingu töldu hásetar heppilegri. Og ég held, að réttara sé að hafa þetta óbundið, svo að frjálst samkomulag geti orðið um það. Ég get ekki lagt mikið upp úr því, hvað stjórn Sjómannafélagsins segir um þetta. Hún hefur ekki, að því er ég bezt veit, komið á togara á s. l. 20 ár eða lengur. Og ég tel, að það, sem lögin þurfi að binda, sé þetta ákveðna lágmark hvíldartímans. Það verður að tryggja. En hitt á að vera frjálst samningsatriði á milli háseta og skipsstjórnar, hvernig tímanum er skipt. Ég get því ekki fallizt á brtt. hv. þm. Ísaf. á þskj. 538.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. E. t. v. gefst mér tækifæri til að ræða þetta nánar, er frsm. meiri hl. hefur gert grein fyrir skoðun hans.