17.04.1950
Neðri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (2856)

26. mál, utanríkisráðuneytið og fulltrúar þess erlendis

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Vafalaust hefði ekki verið beitt sér fyrir því, að lögbinda skyldi tölu sendiherra Íslands erlendis, ef eigi hefði sýnt sig, að þeir hefðu verið óþarflega margir, sakir kostnaðar. Frv. þetta er borið fram af sparnaðarástæðum. Það er ekki síður nauðsyn að hafa gát á útgjöldum ríkisins í þessum efnum en öðrum. Ef litið er á, hvernig þessum málum er nú háttað, þá ætti að vera auðvelt fyrir Ísland að komast af með einn sendiherra fyrir Norðurlönd, einn á meginlandi Evrópu, og að sjálfsögðu þurfum við að hafa sendiherra í Ameríku. Við lítum svo á, að heppileg lausn þessa máls felist í frv. þessu, og leggjum til, að frv. verði samþ. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um mál, sem liggur svo glöggt fyrir og er svo einfalt. Menn hafa kynnt sér, hver kostnaður fylgir sendiherraembættunum, — og er nú ekki um að gera að leitast við að spara á sem flestum sviðum? Er ekki nóg, að ríkið hafi einn sendiherra fyrir Norðurlönd?