13.12.1949
Neðri deild: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2870)

63. mál, fjárhagsráð

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. hefur gert nokkrar aths. við þetta frv. eða nokkur atriði í því. Hann ræddi fyrst um það ákvæði frv., að gefa skuli út stofnleyfi, eða innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, sem eru kölluð stofnleyfi, fyrir nokkrum vörutegundum á næsta ári, sem eiga að gilda í sex mánuði, og hann taldi það ekki rétt að setja á þennan hátt lagafyrirmæli um ákveðna skiptingu á þessum vörum á milli sambandskaupfélaganna annars vegar og kaupmannaverzlana hins vegar. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að þegar frv. okkar um verzlunarmálin kom hér fyrir á síðasta þingi, og reyndar síðan í umr. um málið, þá hefur því mjög verið haldið fram og þá einkum af flokki hæstv. ráðh., að einn af höfuðgöllum þess hafi verið sá, að ef framkvæma ætti það, sem þar var farið fram á, þá hefðu menn vegna vöruskorts orðið að afhenda fyrir fram sínar innkaupaheimildir til verzlana, án þess að geta fengið vörur út á þær samtímis. Var talið, að þetta mundi hafa mikil óþægindi í för með sér, bæði fyrir verzlunarfyrirtæki og einstaklinga. M. a. með tilliti til þessa — þrátt fyrir það að ég geri ekki mikið úr þeirri aðfinnslu —, þá höfum við hér lagt til, að þessi stofnleyfi verði gefin út aðeins fyrir sex fyrstu mánuðina. Mundi það verða til þess, að færri en ella þyrftu að afhenda seðla sína fyrir fram til verzlana til þess að fá vörur út á þá seinna. Einkum þegar á það er litið, að seðlamagnið í umferð yrði takmarkað við aðeins 70% af innflutningsleyfunum, þá má gera ráð fyrir, að menn gætu yfirleitt fengið vörur jafnharðan út á þessa seðla og fært sig þá á milli verzlana og keypt þar, sem þeir teldu sér hagkvæmast. — Ég vil benda á, út af aðfinnslum hæstv. viðskmrh., að þessi ákvæði um ákveðna skiptingu á milli þessara tveggja höfuðaðila í verzluninni gilda aðeins um stofnleyfin, sem eiga að gilda í 6 mánuði. Eftir þann tíma eru þau ákvæði úr sögunni. Eftir þann tíma fer skiptingin á milli þessara aðila eftir því, hve margir vilja skipta við hverja verzlun á hverjum tíma, og eftir því á þetta að fara og ekki öðru. Réttur einstakra verzlana til innflutnings á hverjum tíma á að fara eftir því, hve margir landsmenn vilja við viðkomandi verzlun skipta, og ekki eftir neinu öðru. Hæstv. ráðh. talaði um, að þetta mundi hvergi þekkjast á byggðu bóli, þar sem innflutningstakmarkanir eru. Skal ég ekki þrátta um það við hann. En ég held, að við séum þá sérstæðir að fleiru leyti í okkar viðskiptum og fjárhagsmálum, ef út í þá sálma væri farið. Og þetta fyrirkomulag væri alls ekki fordæmanlegt af þeim sökum, þrátt fyrir það að upplýst kynni að verða, að það væri ekki annars staðar.

Hæstv. viðskmrh. telur, að eftir kvótareglunni sé farið annars staðar, og virðist telja, að sú leið sé bezta leiðin í þessum efnum. En hvað þýðir kvótareglan? Hún þýðir það, að verzluninni er haldið í sömu skorðum, þannig að hún geti ekki hreyfzt til. Og þessi regla verður því verri fyrir landslýðinn sem höftin standa lengur. Með því að halda kvótareglunni og fylgja henni er í raun og veru sagt við landsbúa, hvern og einn: Þarna verzlaðir þú í gamla daga, þegar höftin gengu í gildi, og þarna átt þú að halda áfram að verzla, því að þessi verzlun á að fá innflutning í samræmi við það, sem hún hafði fyrr á tíma, þegar meira frelsi var í verzluninni. — Þetta tel ég slæma reglu. Ég tel, að hún eigi ekki rétt á sér. Samkvæmt henni getur maður, sem á þeim árum, sem miðað er við í útreikningi kvótans, hefur verzlað við kaupmann, ekki síðar, þó hann vilji, tekið þátt í að mynda kaupfélag og tekið að verzla við það. Og á sama hátt getur maður, sem á þeim tíma verzlaði við kaupfélag, en kemst að þeirri niðurstöðu síðar, að heppilegra sé að verzla við kaupmann, ekki fært sig til með verzlun sína. Þetta er gamla bindingin, sem þekktist á tímum einokunarverzlunarinnar í gamla daga. Og það fyrirkomulag hefur nú ekki verið hátt lofað á seinni tímum.

Hæstv. ráðh. talaði einnig hér um 1. tölul. í fimmtu málsgr. 3. gr. frv. og segir, sem alveg er rétt, að þar séu ekki settar neinar reglur um það, hvernig eigi að skipta á milli kaupmannaverzlana því magni af þar tilgreindum vörum, sem kemur í þeirra hlut í heild. Það er rétt, að ákveðnar reglur eru ekki settar um það, og spurning er, hvort hann hefði verið ánægðari með frv., þó að við hefðum sett einhverjar reglur um það. En þetta yrði annaðhvort að vera í höndum fjárhagsráðs eða leitað yrði til samtaka kaupmanna um till. um þetta eða þeim gefið úrskurðarvald um það, hvernig kaupmenn ættu að skipta þessu á milli sín.

Þá talaði hæstv. ráðh. um þá erfiðleika, sem samfara mundu vera því fyrir fjárhagsráð að reikna út hvern nagla og hverja skrá og ró, sem þyrfti í hvert hús, sem byggt væri, eins og hann sagði. Það er ekki í frv. þessu neitt um það, að ávísanir þurfi fyrir allra smæstu hlutum. Við teljum upp í frv., hvaða hluti menn eigi að fá ávísanir fyrir. Það er timbur, sement, steypustyrktarjárn, þakefni, miðstöðvarefni, hreinlætistæki, gólfdúkur og rúðugler. Þetta er það helzta, sem þarf til bygginganna. Öðrum smærri hlutum er sleppt. Og ég vil benda á, að það hefur mjög vafizt fyrir mönnum, þó að þeir hafi haft fjárfestingarleyfi í höndum, að fá suma þessa hluti til bygginga. Ég held því, að óþarfi sé að tala um Kleppsvinnu í þessu sambandi. Og ég vil benda á, að í fjárfestingarleyfum þeim, sem fjárhagsráð hefur veitt að undanförnu, er tilgreint það magn af sementi, timbri og fleiri vörutegundum, sem áætlað er, að þurfi til bygginganna, og fjárhagsráð hlýtur að fylgjast svo vel með, að það geti vitað, hvað þurfi af erlendum gjaldeyri fyrir þetta á hverjum tíma.

Þá segir hæstv. ráðh. um það, sem hér er talað um byggingarefni til viðhalds mannvirkjum og til framkvæmda, sem ekki þurfi fjárfestingarleyfi fyrir, að líkur séu til þess, að ætlað sé, að það eigi að veita þetta til bæjar- og sýslufélaga. Þetta er fjarri öllum sanni, því að hér eru reglur um það, hvernig eigi að skipta þessu á milli verzlana. Þessi ummæli hæstv. ráðh. benda til þess, að hann hafi ekki lesið frv., áður en hann talaði um það, og vil ég gefa honum það ráð að líta yfir þetta frv., áður en hann talar um það næst.

Það er alveg rétt hjá hæstv. viðskmrh., að gjaldeyrisástandið hjá okkur, er nú slæmt. Ég hef og heyrt það áður, að hér liggi nú vörur frá útlöndum óinnleystar, sem ekki hefur enn verið hægt að borga vegna vöntunar á erlendum gjaldeyri, þrátt fyrir það að innflytjendur þeirra hafi í höndum innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir þeim frá yfirvöldunum. Þetta er mjög slæmt ástand. En einmitt vegna þess, hvernig ástandið er og að útlit er fyrir, að það þurfi mjög að takmarka vörukaup til landsins á næstu missirum vegna þessa slæma gjaldeyrisástands, þá er enn ríkari ástæða til þess að setja fyrirmæli um framkvæmd þessara mála, sem tryggi það, sem á að vera höfuðatriðið að mínum dómi, að því takmarkaða vörumagni, sem hægt er að kaupa til landsins, verði skipt sem sanngjarnlegast á milli landsmanna og að þeir hafi sem mest frelsi — og helzt fullt frelsi — til þess að ákveða það, hjá hvaða verzlunarfyrirtæki þeir kaupa þann takmarkaða skammt hverju sinni. Og allra sízt ætti flokkur, sem a. m. k. fram að þessu hefur haft frjálsa verzlun mjög ofarlega á sinni stefnuskrá, að mæla gegn því, að landsmenn allir eigi að hafa þetta frjálsræði. Ef hæstv. ráðh. getur bent á eitthvað annað, sem leiði að þessu sama marki, þá er vitanlega sjálfsagt að taka það til athugunar.