04.05.1950
Neðri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (2883)

63. mál, fjárhagsráð

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Við upphaf þessarar umr. lýsti hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ) því yfir, að fjhn. hefði eigi borizt neitt frá ríkisstj. í sambandi við þetta mál, og hann lýsti jafnframt eftir stefnu hennar í viðskiptamálum. Ég tek undir orð hv. þm. V-Ísf., en enn skortir á, að stefnuyfirlýsing hæstv. ríkisstj. varðandi verzlunar- og viðskiptamál sé fyrir hendi eða að þar liggi nokkuð fyrir um. Af þeim sökum vil ég leyfa mér að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að hann ljúki ekki þessari umr. fyrr en hæstv. viðskmrh. verður viðstaddur, en Alþfl. vildi beina til hans nokkrum spurningum. Hver er stefna ríkisstj. í viðskiptamálum yfirleitt? Það er óviðunandi og óviðeigandi, að hæstv. ríkisstj. hefur ekkert látið til sín heyra um þessi mál. Það er mjög eðlilegt, að stjórnarandstaðan og ekki þá síður sjálfir stjórnarflokkarnir fái að vita afstöðu ríkisstj. í heild varðandi þessi mál. Eins og hv. þm. V-Ísf. lýsti hér yfir, er þá fyrst tími til kominn fyrir hv. alþm. að flytja brtt. við þetta mál, er stefna ríkisstj. liggur fyrir, ef þeir eru ekki sammála stefnu hennar. Ég vil einnig undirstrika þau orð hv. þm. V-Ísf., að við Alþýðuflokksmenn töldum og teljum, að með samþykkt frv. þess, sem hv. þm. Hafnf. (EmJ) flutti á síðasta þingi, hefði verið lagður grundvöllur, sem hefði verið eins konar bráðabirgðaúrræði á þessu viðkvæma og ekki vandalausa máli. Ég óska því eftir því, að er þetta mál verður tekið fyrir, þá verði hæstv. viðskmrh. viðstaddur, svo að hægt verði að fá að vita um afstöðu ríkisstj. til máls þessa. Þá fyrst ætti að vera hægt að taka til óspilltra málanna í afgreiðslu málsins og bera fram brtt. við frv. Ég fæ ekki skilið, að það geti verið svo, að sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr að völdum og mér hefur skilizt, að hafi verið mynduð til þess að ráða fram úr öngþveiti viðskiptamálanna, hafi ekki ákveðna stefnu í þeim málum, og því er það lágmarkskrafa, að við fáum að vita um stefnu hennar og hæstv. ríkisstj. gefi þinginu greinargerð í þessu máli. Hið háa Alþingi má ekki ljúka störfum á annan veg, en að það fái að vita, hver stefna ríkisstj. er í viðskiptamálum, svo að okkur óbreyttum þm. gefist kostur á að yfirvega þá stefnu og ljá henni jákvæði eða gera athugasemd út af þeirri markaðri stefnu, sem kæmi fram.

Að lokum vil ég ítreka það, að ég óska þess, að 2. umr. ljúki ekki fyrr en við Alþýðuflokksmenn höfum átt þess kost að heyra greinargerð hæstv. ríkisstj. varðandi stefnu hennar í viðskipta- og verzlunarmálum.