04.05.1950
Neðri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (2886)

63. mál, fjárhagsráð

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er eins hvað mig snertir, að ég hafði búizt við því, að það hefði verið samið um þetta mál í ríkisstj., áður en umr. lyki. Úr því að nú er svo komið, að komið er að atkvgr., þá sé ég nú ástæðu til þess að segja nokkur orð um þetta mál almennt, og býst ég við því, að ræða mín muni kannske taka lengri tíma, en þær fimmtán mínútur, sem eftir eru af fundartímanum.

Ég skal geta þess í tilefni af ræðu hæstv. dómsmrh., en hann minntist á það, að í tíð fyrrv. ríkisstj., eða næstfyrrv., hefðu verið ríkjandi þrjár stefnur í verzlunar- og viðskiptamálum, en slíku ásigkomulagi má líkja við ríki með þrem konungum, þar sem hver konungurinn færi í sína átt. Hinu er svo ekki hægt að neita, að er sú stjórn tók við völdum, var ein stefnan að koma fram l. um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit. Af þeim lögum hefur að mínum dómi hlotizt mest ógagn í verzlunar- og viðskiptamálum og í ýmsu öðru, sem þau lög snerta. Það eru ekki aðeins viðskiptamálin, sem orðið hafa fyrir barðinu vegna þessara laga, en einnig ýmsar verklegar framkvæmdir í landinu. Menn mega ekki hreyfa fót til neinna framkvæmda nema spyrja það háa vald, ekki einu sinni koma sér upp kofa fyrir kind eða hross. Ég veit, að þeir þm., sem setið hafa á undanförnum þingum, vita það, að ég var á móti þessu máli og kysi því helzt nú, að þessi lög væru nú afnumin með öllu. Ég tel, að því fyrr sem það yrði gert, því betra væri það. Nú hafa menn hlustað á umr. um þetta mál og heyrt fulltrúa stjórnarandstöðunnar lýsa því, hvert vandræðaástand þessi lög hafa skapað. Fulltrúi Alþfl. í fjhn. hefur lýst því yfir, að lög þessi komi ekki að gagni, og má það til sanns vegar færa. Þetta frv. hv. þm. V-Húnv. og fleiri framsóknarmanna bætir lítið úr þessu ófremdarástandi, sem nú ríkir í viðskiptamálum, þótt samþykkt yrði, en gæti skeð, að það ylli enn meiri grautargerð í skiptingu gjaldeyrisins á milli kaupmannaverzlana og verzlana samvinnufélaga. Mér er það vel ljóst, að það þarf að hafa eftirlit með úthlutun gjaldeyris, en ég teldi eðlilegast og heppilegast, að þau mál séu í höndum bankanna og að þeir annist um það, hverjar verzlanir fái yfirfærslur. En að skipta þessu verkefni niður á milli fjögurra til fimm aðila er aðeins til þess að koma á slíku vandræðaástandi sem mönnum er nú kunnugt um. Menn kynnu nú að spyrja, hví ég hefði ekki flutt till. sem nm. í fjhn. um að nema úr gildi lögin um fjárhagsráð. Það er vitað, að mikill hluti þess meiri hl., sem styður þessa ríkisstj., vill ekki samþykkja að losa þjóðina undan því fargi, og mun ég því ekki gera tilraun til þess að endurflytja þær till., sem ég flutti á síðasta þingi og taldi, að yrðu til bóta, en þær fengu lítið fylgi, og kom þá í ljós, að ekki var mikill vilji í þinginu fyrir því að auka frelsið í viðskipta- og verzlunarmálunum. Nú hefur skapazt breytt ástand með setningu gengisbreytingarl. Af þeim sökum má gera ráð fyrir því, að ásókn til kaupa á erlendum gjaldeyri verði ekki eins mikil og verið hefur til þessa, vegna þess að misræmið á verði erlends gjaldeyris með tilliti til sölugengis og þess, sem hann hefur verið metinn, hefur breytzt. Þetta breytta viðhorf gerir viðskiptin örðugri, bæði að afla þeirra nauðsynja, sem fólkið þarf til daglegs viðurværis, og þeirra framkvæmda almennt, sem þjóðin óskar að koma í verk. Það má vera, að þetta breytta fjárhagsástand verði til að hamla því og verði nægilegt til að varna því, að menn hlaupi út í öfgafullar framkvæmdir, og við þurfum ekki að hafa lengur milljónastofnun sem bannaðila. Að öðru leyti vil ég segja þetta: Ef það væri vilji þm. að spara ríkissjóði fjárútlát, þá á hæstv. ríkisstj. að byrja á því að ráðast þarna á garðinn. Hér er um að ræða alveg óþarfa stofnun, sem minnstur skaði er að losna við. Vegna alls þessa er ég ekki með í því að samþ. frv, hv. þm. V-Húnv. Þetta frv. er gamall kunningi og hefur verið flutt hér þing eftir þing. Það hefur einu sinni eða tvisvar flotið í gegnum þessa hv. d. með eins atkvæðis mun. Hins vegar hefur það ekki komizt í gegnum hv. Ed., og hefur það verið heldur til góðs, því að þessi regla er svo fáránleg, og má það furðulegt teljast, að svo greindir menn sem að þessu frv. standa skuli bera upp hér á Alþingi slíka firru sem þetta seðlaúthlutunarmál er. Þótt nú frv. fljóti í gegnum þessa umr., mun ekki fara hjá því, að ríkisstj. taki sínar ákvarðanir í þessu máli, en þar sem fundartíminn er nú alveg á þrotum, skal ég ljúka máli mínu nú.