04.05.1950
Neðri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (2887)

63. mál, fjárhagsráð

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð vegna þess, sem hæstv. dómsmrh. sagði um stefnu ríkisstj. í verzlunar- og viðskiptamálum. Það er alveg rétt, að í fyrrv. stjórn, eða þeirri, sem 8. landsk. (StJSt) veitti forstöðu, voru skiptar skoðanir um viðskiptamál og hafði hver flokkur sína skoðun um þau mál, en þeir komu sér þó saman að lokum um eina stefnu eða sameiginlega stefnu. Þó að hver hefði sína skoðun, tókst að ná samkomulagi um eina heildarlínu. Með setningu l. um fjárhagsráð og fleiri ráðstöfunum var sú lína mörkuð. Þetta gerir allan mun á fyrrv. stjórn og núv. hæstv. ríkisstj. Flokkar þeir, sem standa að núv. ríkisstj., höfðu ekki komið sér saman um framkvæmdir í viðskiptamálum, áður en stjórnin var mynduð. Í fyrrv. stjórn komu ýmsir annmarkar fram á því að ná samkomulagi, er fram í sótti. Þá bar ég fram frv. á Alþingi til þess að leitast við að ná endanlegu samkomulagi og samræma sjónarmið, sem fyrir hendi voru. Þessi tilraun tókst ekki, og var það ein orsök þess, að slitnaði upp úr stjórnarsamstarfinu. Hins vegar hefur þessi ríkisstj. enga tilburði sýnt til þess að reyna að samræma þau sjónarmið, sem uppi eru í viðskiptamálunum. Það er lágmarkskrafa þm. að fá að vita eitthvað um það, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að snúa sér í þessum málum. Ég stóð upp til að undirstrika það, að er fyrrv. samsteypustjórn var mynduð, hafði verið gerður fyrir fram samningur um meðferð málsins. Nú er enginn samningur fyrir hendi, en eftir honum er beðið.