06.05.1950
Neðri deild: 96. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2890)

63. mál, fjárhagsráð

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur nú verið oft á dagskrá hér í hv. d., og ég hef ekki látið það til mín taka og ekki tekið til máls í því fyrr en nú. Það var flutt snemma í vetur og hefur verið nokkuð seinfara gegnum umr. hér í hv. d., þar sem 2. umr. þess fer nú fram um það í fyrri d. Það er nú ekkert óeðlilegt, að svona frv. fari nokkuð hæga ferð í gegnum þingið, og ólíklegt er, að það nái nokkurn tíma þeirri ferð, að það komist í gegn.

Verzlunarmálin hafa verið mjög til umr. hinn síðari tíma, sérstaklega síðan fór að þrengjast um gjaldeyri og vöruskortur fór að gera vart við sig. Hefur þá verið sótt fastar á, eftir því sem meir hefur þrengzt um í þeim efnum, með að fá innflutningsleyfi fyrir þeim vörum sérstaklega, sem hefur skort. Ég býst við, að flestir séu þeirrar skoðunar, að stefna beri að afnámi hafta og skömmtunar, og ég er einn af þeim, sem vildu óska þess, að það mætti sem fyrst verða. Ég held, að það hljóti að vera takmarkið, að við getum búið við frjálsa verzlun og losnað við skömmtunarfarganið og allan þann kostnað og þau óþægindi, sem af því leiðir. En í dag búum við, við skömmtun, og við búum við innflutningshöft, og því miður verðum við sennilega að gera það að einhverju leyti enn um sinn. Er þá um það að ræða, hvernig við getum komið okkar málum þannig fyrir, að allir geti sæmilega við unað, undir þeim kringumstæðum, sem við er að búa.

Ég er sammála hæstv. viðskmrh. um það, að skömmtunin komi ekki nema að takmörkuðu gagni, eins og hún er núna, og að það beri að aflétta henni eins fljótt og auðið er. En eftir þeim upplýsingum, sem hann gaf hér áðan, sem reyndar var vitað áður, að mun minna vörumagn muni verða á markaðinum hér á næstu mánuðum, en verið hefur, þá býst ég ekki við, að á næstu mánuðum verði horfið að því að aflétta skömmtuninni með öllu. Hitt þykir mér ekki ótrúlegt, þar sem svo fáir vöruflokkar eru skammtaðir, að það mætti á einhvern hátt draga úr þeim einnar millj. kr. árlega kostnaði, sem nú er vegna skömmtunarinnar. Og það er til athugunar fyrir hæstv. viðskmrh. og hæstv. ríkisstj., hvort nú er nauðsynlegt, eftir að þeim vörum hefur svo mjög fækkað, sem skammtaðar eru, að hafa jafnmikið húsnæði og jafnmikið starfslið við skömmtunina og var, þegar skömmtunin var yfirgripsmest. Eins og ég sagði áðan, þá tel ég, að það sé nauðsynlegt, meðan við getum ekki losnað að öllu leyti við skömmtunina og við höftin, að þessum málum sé skipað þannig, að sæmilega verði við unað, og helzt af öllu þannig, að við gætum losnað við þann leiðinlega reipdrátt, þau pólitísku átök, sem verið hafa undanfarið um verzlunarmálin. Og það munu flestir muna, að á síðasta hausti var í alþingiskosningunum hvað mest rætt um verzlunarmálin og mest átök hvað þau snerti af þeim málum, sem á dagskrá voru, og með þeim sterka áróðri, sem haldið hefur verið uppi undanfarið af vissum aðilum, hafa margir lagt trúnað á það, að skömmtunarseðlafrv. framsóknarmanna og sósíalista gæti orðið til þess að bæta til muna verzlunarástandið í landinu. Tæplega held ég þó, að þeir séu margir, sem gera sér það í hugarlund, að vörumagnið ykist nokkuð við það, þó að það frv. væri samþ. Hins vegar hafa menn gert sér vonir um það, að dreifing vörumagnsins gæti með því móti orðið á einhvern hátt réttlátari, enda hefur verið óspart á því hamrað, að hún sé óréttlát með því fyrirkomulagi, sem nú ríkir, og að þeir, sem í dreifbýlinu búa, hafi verið mjög afskiptir, miðað við þá sem búa í kaupstöðunum. Má vel vera, að þeir, sem fjærst eru kaupstöðum og verzlunum, hafi eitthvað orðið afskiptir, ég skal ekki leggja dóm á það, en ég vil þó fullyrða, að meira er gert úr þessu, en sanngjarnt er og raun ber vitni um.

Sú breyting, sem gerð er með þessu frv. frá hinu upphaflega fósturbarni framsóknarmanna og sósíalista, er á 3. gr. þessa frv. Er sú breyt. allveigamikil og í því fólgin, að veita skuli stofnleyfi, sem skuli vera 50% af því vörumagni, sem ákveðið er að flytja inn, og stofnleyfunum skal skipta þannig, samkv. 3. gr. þessa frv., að Samband íslenzkra samvinnufélaga skal fá 45% í sinn hlut, og aðrar verzlanir skulu fá 55%. Það er áreiðanlegt, að það er alveg nýmæli hér á ferðinni. Það þekkist hvergi í löggjöf nokkurs menningarríkið, að það sé lögfest, að ákveðnir aðilar skuli fá svo og svo mörg prósent af heildarinnflutningnum, hvernig sem þeir annars rækja skyldur sínar við neytendur, hvernig sem þeir annars haga innkaupum sínum eða hvort þeir annars eru starfi sínu vaxnir til þess að þjóna hagsmunum neytenda og alþjóðar. Ég held nú, að þótt fjórir hv. alþm. hafi fengizt til þess að flytja þessa till., þá komi það ekki til mála, að meiri hl. alþm. fáist til þess að ljá henni atkvæði. Ég tel svo fráleitt, að það komi til nokkurra mála. Ég ætla ekki að fara að gera hér að umtalsefni hæfni S. Í. S. annars vegar og hæfni hinnar svokölluðu frjálsu verzlunar hins vegar til þess að annast vöruinnflutning og vörudreifingu til landsmanna. Ég ætla ekki að gera það hér að neinu umtalsefni. Ég býst við, að undir mörgum kringumstæðum megi telja ýmsa kosti báðum þessum aðilum til framdráttar. En mér þykir ekki nein goðgá að benda á, fyrst farið er að ræða þetta frv., sem ætlað er að veita S. Í. S. 45% af öllum heildarinnflutningnum, að á þeim tíma, þegar verzlunin var sama sem frjáls hér í landi, þegar innflutningsleyfin voru veitt aðeins að nafninu til, gjaldeyrir nógur og flestir fengu það, sem þeir óskuðu eftir, var innflutningskvóti S. Í. S. í skófatnaði og vefnaðarvörum 16% og í byggingarefni t. d. einnig 16%. Á þessum árum var í ríkisstj. maður, sem nú veitir S. Í. S. forstöðu, og á þeim tíma heyrðust engin óánægjuorð frá hans hendi um það, að þetta væri of lítið fyrir S. Í. S. Ég er ekkert að segja hér í dag, að þetta hafi verið nóg fyrir S. Í. S., þetta hafi verið það eðlilega og þetta sé það eðlilega nú í dag. En dálítill leiðarvísir ætti þetta að vera fyrir okkur á þeim villugjarna vegi, sem við göngum, að S. Í. S. skyldi ekki nota meiri leyfi, stærri kvóta, þegar enginn skortur var á innflutningsleyfum eða vörum í landinu. Ég minnist þess að hafa heyrt einn háttsettan alþýðuflokksmann gefa þær upplýsingar, að Alþfl. hefði raunar dugað S. Í. S. sérstaklega vel, því að meðan Alþfl. hefði átt viðskmrh., hefði kvóti S. Í. S. í byggingarefni, vefnaðarvörum og skófatnaði hækkað úr 16% upp í 33%, eins og hann mun hafa verið á síðasta ári. Þetta gerðist eftir að vöruskorturinn fór að gera vart við sig, eftir að það fór að ráða nokkuð miklu hinn sterki áróður og hin pólitíska togstreita í innflutnings- og verzlunarmálum, sem gilt hefur hina síðustu mánuði. Ég tel það hreina fjarstæðu, eins og ég áður tók fram, að vera að lögfesta hin svokölluðu stofnleyfi. Ég get, af því ég vona, að skömmtunin þurfi ekki að standa lengi, fallizt á að gera tilraun að nokkru með skömmtunarseðla, eins og till. mínar á þskj. 650 bera með sér. En um leið og það er lögfest, að skömmtunarseðlarnir skuli vera mælikvarði fyrir hverja smásöluverzlun, sá mælikvarði um það, hve miklar vörur hún skuli fá, vil ég, að allir byrji með hina sömu og jöfnu aðstöðu og þannig, að ekki sé um nein stofnleyfi að ræða, heldur aðeins það, að þeir, innflytjendur, sem gera bezt innkaup, verði látnir sitja fyrir innflutningsleyfum. Og ef hv. alþm. lesa tillögur mínar á þskj. 650, sjá þeir, að þar er orðað greinilega, þannig að ekki verður um villzt, að eftir að fjárhagsráð hefur gert áætlun um innflutning á hinum ýmsu vörutegundum, er því skylt að gera útboð á þessu vörumagni og láta þann innflytjanda sitja fyrir leyfunum; sem býður hagkvæmast verð. Það mun nú einhver segja, að þetta ákvæði sé í l. eins og þau eru í dag, en þetta er þannig orðað í l., að það er hægt að sigla fram hjá því, enda hefur það verið gert óspart og ekkert eftir þessum lagabókstaf farið, enda segir, að þetta skuli gert eftir því sem unnt er og ástæður leyfa, og fjárhagsráð og viðskiptanefnd hafa sagt: Það er ekki unnt — og notfært sér það, En það er þeim mun nauðsynlegra að lögfesta þetta ákvæði nú alveg ótvírætt, nauðsynlegra nú, en nokkru sinni fyrr, þar sem gjaldeyrir þjóðarinnar er jafntakmarkaður og nú. Dýrtíðin hefur vaxið gífurlega upp á síðkastið og kaupmáttur krónunnar minnkað. Það er þess vegna nauðsynlegra nú en nokkru sinni áður að tryggja það, að varan sé keypt til landsins á lægsta fáanlegu verði, sem ýtir undir dugnað og hæfni verzlunarstéttarinnar til vörukaupa. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að við eigum hér í landinu ötula og duglega verzlunarstétt, og það er ómögulegt um það að segja, hverjir verða ofan á og hverjir verða undir í þeirri samkeppni um vöruinnkaup, sem þetta ákvæði hlýtur að skapa. Ég ætla ekkert um það að segja, hvort það verður hin svokallaða frjálsa verzlun eða t. d. S. Í. S., sem fær meginið af innflutningnum vegna þessa ákvæðis. Það skiptir engu máli, en hitt skiptir höfuðmáli, að þjóðinni, sem hefur yfir litlum gjaldeyri að ráða, verði sem mest úr þessum gjaldeyri, og þetta ákvæði er til þess að drýgja gjaldeyri þjóðarinnar og er sennilega bezta baráttutækið gegn dýrtíðinni, sem við höfum ráð á í dag, því að enginn vafi er á því, að með því að lögfesta þetta ákvæði er stuðlað að því, að ýmsar vörur lækki mjög í verði. Er þá nokkuð annað frekar en þetta, sem getur tryggt almenning í landinu gegn því, að á honum sé okrað? Og er það nokkuð annað frekar en þetta, sem getur dregið úr minnkandi kaupmætti hinnar íslenzku krónu, sem svo mjög hefur verið talað um síðustu mánuðina? Ég held, að hverjir sem verða útundan eða hverjir sem verða duglegastir í því að ná innkaupum, þá verði ekki um það deilt, að þetta ákvæði þurfi að setja í l. og það verði svo ótvírætt, að fjárhagsráð geti ekki skorazt undan að framkvæma það, ekki undir neinum kringumstæðum.

Það er þá í sambandi við þær vörur, sem enn eru skammtaðar og skammtaðar verða á næstunni, bætt sérstökum ákvæðum í þessum till. mínum, og í öðru lagi eru sérákvæði, svo sem eru í 3. gr. frv., um aðrar vörur, svo sem smávörur, sem skal úthlutað til smásöluverzlana af innflutningnum í hlutfalli við innlagða skömmtunarseðla fyrir skófatnaði og vefnaðarvöru, nema til sérverzlana, þar sé miðað við meðalumsetningu síðustu þriggja ára og úthlutað þannig til þeirra. — Þá er ákvæði um, að þurrkuðum og niðursoðnum ávöxtum, hvers konar kryddvörum og nýlenduvörum skuli skipt milli smásöluverzlana í hlutfalli við skilaða skömmtunarseðla fyrir sykri árið á undan. Virðist ekki hægt að finna betri úthlutun á þessum vörum. — Þá er till. í sambandi við úthlutun á varahlutum til bifreiða og bifreiðagúmmíi. Er lagt til, að þessu verði úthlutað til viðgerðarverkstæða í réttu hlutfalli við stærð og afkastagetu verkstæðanna. Það er enginn vafi á því, að svona verkstæði eru komin í hverja einustu sýslu á landinu, og stærð þeirra og afkastageta er áreiðanlega miðuð við það, hver þörfin er í hverju héraði. Virðist því rétt og eðlilegt að miða úthlutunina á hverjum tíma við stærð og afkastagetu héraðanna. Er gert ráð fyrir, að skömmtunarskrifstofa ríkisins semji skýrslu til innflytjenda þessara vara, sem þeir geti byggt á við úthlutun varanna til hinna ýmsu verkstæða.

Að því er snertir byggingarefni, er um litla breytingu að ræða frá því, sem er í frv., að öðru leyti en því, að ég tel alveg fráleitt að skipta því byggingarefni, sem fer í mannvirki og framkvæmdir, sem ekki þarf fjárfestingarleyfi til, í réttu hlutfalli við framfærslu í sveitum og kaupstöðum, vegna þess að viðhald hlýtur að vera miklu meira í sveitum, en í kaupstöðum, og koma þar t. d. til öll peningshús, en í kaupstöðum aðeins íbúðarhús og verzlunarhús. Legg ég því til, að þessu verði breytt þannig, að byggingarefni, sem ætlað er til viðhalds mannvirkja og framkvæmda, sem ekki þarf fjárfestingarleyfi fyrir, skuli úthlutað til verzlana eftir skýrslum byggingarfulltrúa í bæjum og hreppstjóra eða oddvita í þeim sveitum, þar sem framkvæmdirnar eru gerðar. Um innflutning á öðrum vörum en þeim, sem nefndar eru í þessari grein, fer eftir áætlun fjárhagsráðs, og gildir það t. d. um útgerðarvörur og annað slíkt.

Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) er hér með brtt. við þetta frv. Hann gengur nokkuð langt í því að nálgast flm. frv. Hann leggur til, að stofnleyfin séu 50% til samvinnufélaga og 50% til annarra verzlana, en mér er ekki ljóst, hvernig hann hugsar sér, að þessu væri skipt milli samvinnufélaganna. Ja, það er nú kannske eðlilegt, að Samband íslenzkra samvinnufélaga hafi sínar aðferðir um skiptingu til samvinnufélaganna. En það eru nokkuð mörg samvinnufélög utan S. Í. S., og hvað er þeim þá ætlaður mikill hluti af því, sem samvinnufélögunum er ætlað? Ef þessi brtt. yrði samþ., teldi ég eðlilegast, ef hv. flm. hefur gert sér nokkra grein fyrir því, að tekið væri fram í till., hvað samvinnufélög utan sambandsins eiga að fá mikinn hluta af þessum 50%. Ég segi, ef hún verður samþ., sem mér þykir harla ótrúlegt.

Till. á þskj. 566 geri ég ekki að umtalsefni. því að ég geri ekki ráð fyrir, að hún verði samþykkt, og vil því ekki eyða tíma í að ræða hana. En ég vænti nú þess, sérstaklega ef atkvgr. verður frestað í dag og þm. fá góðan umhugsunartíma, að till. mínar á þskj. 650 verði samþykktar vegna þeirrar brýnu nauðsynjar, sem er á því að ráðast gegn dýrtíðinni. Ég vænti þess, sérstaklega ef þm. fá umhugsunarfrest, að þeir aðhyllist þessar tillögur mínar. Nú, það er alkunnugt og ekkert leyndarmál, að með þeim aðferðum, sem notaðar hafa verið fram að þessu um innflutning til landsins, þá hefur lítið verið að því spurt, á hvaða verði varan hefur verið keypt til landsins, og þeir hafa kannske alveg eins fengið innflutningsleyfi, sem ekki hafa gert hagkvæm kaup. En við höfum verðlagseftirlit, sem búið er að starfa í mörg ár, og munu sumir segja, að það sé mjög nauðsynleg og gagnleg stofnun. Menn hafa nú skiptar skoðanir um þetta efni. Ég minnist þess, að það er ekki langt síðan ég heyrði valdamenn í verðlagsmálum eyða góðum tíma í það að ákveða, hvort hrífuhaus ætti að kosta kr. 5.00 eða kr. 5.20. Ég gæti nú trúað því, að í sambandi við verðlagsmálin færi ákaflega mikill tími í smámuni, í það t. d. að ákveða, hvort einn hrífuhaus eigi að kosta kr. 5.00 eða kr. 5.20, en fram hjá því sé svo gengið, sem mestu máli skiptir, sem sé því, að varan sé keypt til landsins á því bezta verði, sem fáanlegt er á heimsmarkaðinum. Að vísu eru nú takmörk á því, sem við ráðum ekki við, því að við getum ekki alltaf keypt vörurnar eins og þær eru ódýrastar á heimsmarkaðinum, vegna „clearing“-viðskipta eða vöruskiptasamninga, en við ættum að geta ráðið því, að þær séu keyptar á því lægsta verði, sem þær eru fáanlegar á í því landi, sem við verðum að kaupa hverja vörutegund í samkvæmt samningum, því að það er kunnugt, að það eru mörg útflutningsfirmu í sama landi á hverja tegund, og þá skiptir mestu máli, að lægsta tilboðinu sé tekið.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar till. mínar eða frv. að þessu sinni. Ég lýsti því í upphafi, að ég óskaði þess, að skömmtun og önnur höft mættu verða afnumin sem allra fyrst. Þessar till. mínar miða aðeins við það ástand, sem nú er, og við það, að við sennilega verðum nú um sinn að búa við höft að einhverju leyti, og ég tel þá, að þessar till. mínar, ef þær ná fram að ganga, skapi það réttlæti í löggjöfinni, sem allir landsmenn gætu unað við, og að þær yrðu það aðhald í verðlagningu og öðru slíku, sem er alveg nauðsynlegt núna, þegar kaupmáttur krónunnar hefur farið svo mjög minnkandi sem raun ber vitni um.