06.05.1950
Neðri deild: 96. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2892)

63. mál, fjárhagsráð

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Meðan þm. Hafnf. (EmJ) var viðskmrh., lýsti ég mig samþykkan þeirri skoðun, að það væri galli á l. um fjárhagsráð, að framkvæmd þeirra heyrði undir ríkisstj. alla. Í fyrsta lagi vegna þess, að erfitt væri að fá fastan grundvöll til að starfa eftir, þegar margir vildu ráða, og í öðru lagi vegna þess, að með því fyrirkomulagi væri ekki hægt að fá neinn sérstakan ábyrgan aðila í sambandi við framkvæmdina. Reynslan hefur líka sýnt, að þetta fyrirkomulag er ónothæft og blessast alls ekki til frambúðar. Hv. þm. Hafnf. hefur óskað eftir að vita, hver væri stefna stj. í þessum málum. Það stóð víst ekki á stefnunni, þegar hann var sjálfur ráðh. Þó verður maður nú að ætla eftir reynslunni, að sú stefna hafi verið eitthvað hlykkjótt, enda var sannleikurinn sá, að sú stjórn hafði enga heildarstefnu, þó að vísu hafi verið sett lögin um fjárhagsráð. Það virðist því koma úr hörðustu átt, þegar þessi þm., sem hefur að baki hina bitru reynslu, fer að krefja núv. stjórn um ákveðna stefnu í þessum málum, þar sem hún hefur ekki setið nema tiltölulega mjög skamman tíma, miðað við þau verkefni sem fyrir hafa legið. Annars ætla ég ekki að fara lengra út í það mál nú, en væntanlega verður hægt að gefa upplýsingar um þetta atriði fljótlega.

Í sambandi við skömmtunina þá tel ég hana algerlega þýðingarlausa, eins og nú er komið. Þegar fólk getur ekki fengið út á sína seðla, til hvers á þá að vera að kasta of fjár í slíka endileysu sem skömmtunin þá er orðin? Og satt að segja hélt ég, að hv. þm. hafi verið búinn að sjá í gegnum þessa vitleysu, þegar hann var ráðherra. Ég er ekki að ásaka hann neitt sérstaklega; það hafa eflaust legið margar ástæður til þess, að skömmtunin varð ónothæf í framkvæmd og að af henni hlauzt ekki annað en kostnaður fyrir hið opinbera. Og það eru áreiðanlega ekki fleiri ráð til að kippa þessum málum í lag nú en í ráðherratíð þessa hv. þm., og þess vegna hljómar það dálítið einkennilega, að hann skuli nú fyrst vera að benda á þau. Hafi ekki verið hægt að tryggja nægar vörubirgðir í landinu þá, eru enn minni möguleikar til þess nú, og þetta hlýtur þessi hv. þm. að vita. Ég er líka sannfærður um, að ef við spyrðum fólk almennt, hvaða reynslu það hefði af skömmtuninni,, þá mundi svar flestra verða á þá leið, að reynslan væri afleit og skömmtunin væri einskis virði. En hvers vegna eigum við þá að vera að kosta upp á slíka starfsemi, þegar svo er komið? Er ekki bara réttara fyrir okkur að viðurkenna hreinlega, að slíkt sé einungis fálm, sem beri að afnema tafarlaust?