06.12.1949
Sameinað þing: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

Stjórnarskipti

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Þegar ný ríkisstjórn tekur við störfum í dag, þykir mér rétt að taka það fram af hálfu Alþýðuflokksins, að hann hvorki styður hina nýju ríkisstjórn né veitir henni hlutleysi.

Alþýðuflokkurinn mun eins og áður miða afstöðu sína eingöngu við málefnin. Hann mun fylgja málum, er til heilla horfa, og styðja þau, en berjast eftir mætti gegn þeim málum, er hann telur brjóta í bága við hagsmuni almennings. Fer það svo eftir stefnu og störfum hæstv. ríkisstjórnar, hvernig viðbrögð Alþýðuflokksins verða.

Tímar eru nú vissulega örðugir og framtíð torráðin. Veltur því á miklu, að lausn málefna verði á þann veg, að hagsmuna alþýðunnar sé vel gætt. Það hlutverk mun Alþýðuflokkurinn rækja í samræmi við markaða stefnu sína og með lýðræðislegum og ábyrgum hætti. Hvað sem við kemur ágreiningi lýðræðisflokkanna, meira og minna djúpsettum, í innanlandsmálum, vildi ég mega vænta þess, að áfram geti haldizt góð og heilbrigð samvinna lýðræðisflokkanna um utanríkis-, sjálfstæðis- og öryggismál þjóðarinnar.