10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Skúli Guðmundson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efni frv. almennt. Vil ég aðeins minnast á tvær brtt., sem eigi hefur áður verið getið og ég er flm. að. — Á þskj. 182 flyt ég brtt. ásamt hv. þm. Snæf., þess efnis, að á eftir 5. gr. frv. komi ný gr. um ábyrgð ríkissjóðs á verði fyrir útflutt kjöt. Gr. þessi er samhljóða að efni samsvarandi ákvæði í l. nr. 100/1948, um aðstoð við atvinnuvegina. En ríkið mun ekki hafa þurft að greiða neitt vegna þess ákvæðis, því að ekki hefur verið flutt út neitt af kjöti á verðlagsárinu frá 31. ágúst 1949 til 1. sept. 1950. Ég býst ekki við, að til þessa þurfi heldur að taka nú, því að horfur eru á, að allt kjöt, sem kom á markaðinn í haust, verði selt innanlands. En okkur þótti rétt, að ákvæðið stæði áfram.

Þá flyt ég brtt. á þskj. 183, um viðbót við 12. gr. frv., en í henni eru ákvæði um það, að verði eigi gerðar aðrar ráðstafanir fyrir lok febrúarmánaðar, en í þessu frv. felast, þær er leysi rekstrarvandamál bátaútvegsins, þá skuli gildi l. framlengjast til 15. maí og skuli þá framlag ríkissjóðs hækka. Nú tel ég, að kæmi ný löggjöf áður en ábyrgðin fellur niður, þ. 15. maí, ætti framlagið að lækka hlutfallslega. E.t.v. hefði verið hægt að orða þetta á heppilegri veg, en mönnum á að vera ljóst, að gangi ný löggjöf í gildi fyrir 15. maí, þá verði þessi upphæð að lækka hlutfallslega eftir því, hvenær þetta ákvæði fellur niður.

Varðandi orð hv. 2. þm. Reykv. (EOI) vil ég taka fram, að við fjárhagsnm. höfum til athugunar eina brtt. í viðbót. Við höfum þó eigi getað rætt hana, og er þá til athugunar, hvort við komum henni að við 2. eða 3. umr. En þar eð hún liggur eigi fyrir enn, geri ég hana ekki frekar að umtalsefni.