10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Finnur Jónsson:

Við tveir þm., hv. þm. Borgf. (PO) og ég, höfum flutt brtt. við annað lagafrv. í þinginu fyrir áramót vegna sjóveðskrafna þeirra, sem á fiskiskipum hvíla eftir síldarvertíðina. Nú höfum við fengið upplýsingar um, að þetta hafi eitthvað lagazt. En hins vegar liggur fyrir í bréfi, sem fylgir þessu frv., að Landssamband íslenzkra útvegsmanna telji það eitt af skilyrðum þess, að hægt verði að hefja útgerðina í vetur, að sjóveðskröfurnar verði innleystar með aðstoð ríkisins hið allra fyrsta. Áður hafði Landssambandið gert um það ákvörðun eða samþykkt á fundi sínum fyrir áramótin, sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Með skírskotun til samkomulags þess, er fulltrúafundur L.Í.Ú. gerði við ríkisstj. þ. 11. jan. 1949, þar sem ríkisstj. lofaði setningu laga um afla- og hlutatryggingasjóð bátaútvegsins og jafnframt, að sjóðurinn yrði starfræktur árið 1949, samþykkir aðalfundur L.Í.Ú. að skora á Alþingi, að með því að lögin um afla- og hlutatryggingasjóð ákveða, að greiðslur úr sjóðnum nái ekki til ársins 1949, þá geri það þegar ráðstafanir í sambandi við frumvarp til laga um viðauka við og breytingu á lögum nr. 100 29. des. 1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna o.fl., á þá leið, að síldarútvegsmönnum, er gerðu út á síldveiðar sumarið 1949, verði veitt aðstoð vegna aflabrestsins, eigi minni og með svipuðu fyrirkomulagi og gert var vegna síldarleysisins 1948.

Í þessu sambandi vill fundurinn vekja athygli Alþingis á því, að þar sem margir útvegsmenn hafa enn ekki getað innleyst sjóveðskröfur af skipum sínum, er það mjög aðkallandi, að máli þessu verði hraðað.“

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í það að ræða þessa till. frekar. Það var á sínum tíma samkomulag um það milli fjórða sambandsþings útgerðarmanna og ríkisstj., að aflatryggingasjóðurinn skyldi taka til starfa 1949, en síðan var ákveðið með l. frá Alþ., að það skyldi ekki verða fyrr en 1950. Ríkið hafði veitt þeim mönnum nokkra fyrirgreiðslu, sem verst höfðu orðið úti, er síldarvertíðin brást í annað, þriðja og fjórða sinn, en í fyrrasumar var það í fimmta sinn, sem vertíðin brást, og þar sem aflatryggingasjóðurinn gat ekki tekið til starfa fyrir þá vertíð, er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að Alþ. veiti heimild til þess að greiða fyrir þeim, sem fyrir aflabresti urðu þarna fimmta sinn, er vertíðin brást s.l. sumar. Það er því þess vegna, sem við höfum lagt fram þessa till. núna, þar sem það er einnig sýnilegt, að það gæti ekki komið annars það fljótt á dagskrá núna, að það yrði afgreitt í tæka tíð. Till. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 14. gr. komi ný grein, er verður 15. gr., svo hljóðandi (og breytist greinatala samkvæmt því):

Ríkisstjórninni heimilast að veita útgerðarmönnum þeirra skipa, er síldveiðar stunduðu fyrir Norðurlandi sumarið 1949, fyrirgreiðslu samkvæmt 2. gr. laga nr. 85 frá 15. des. 1948, enda gildi ákvæði þeirra laga um framkvæmd aðstoðarinnar, eftir því sem við á.

Ríkisstjórninni heimilast að taka lán í þessu skyni, allt að einni og hálfri milljón króna.“ Lögin, sem þarna er vitnað til, eru frá 15. des 1948, um aðstoð til útvegsmanna, er síldveiðar stunduðu sumarið 1948. Í 2. gr. þeirra laga er það tekið fram, að ríkissjóður geti leyst til sín lögveðskröfur á hendur þeim útgerðarmönnum og útgerðarfyrirtækjum, sem síldveiðar stunduðu sumarið 1948. Enn fremur er heimilt að veita útgerðarmönnum og útgerðarfyrirtækjum lán samkv. lögum þessum, sem svara til krafna þeirra, er í 1. mgr. eru taldar, ef aðilar hafa þegar greitt þær og þeim ella væri ókleift að halda áfram rekstri vegna aflabrests 1948. — Þá eru í 3. gr. þessara laga ýmis fyrirmæli um það, hvernig hagað skuli innlausn þessara krafna, og annað, sem nauðsynlegt er að lögum. En samkv. 5. gr., sbr. 6. gr., skipar sjútvmrh. 5 manna nefnd, skilanefnd, til að hafa á hendi innlausn lög- og sjóveðskrafna og aðra framkvæmd laganna.

Nú er svo komið, að starfandi er skilanefnd, skv. l., og er þá ekki nema eðlilegt, að hún hafi á hendi innlausnina.

Það má segja, að það hafi verið heldur hljótt um þetta mál hér á þingi og gætir um það nokkurs misskilnings, því að stjórn L.Í.Ú. heldur því fram, að hún hafi haft samband og miklar umr. um þetta mál við fyrrv. hæstv. sjútvmrh., núv. atvmrh., en hann heldur því hins vegar fram, að það hafi varla verið minnzt á þetta mál víð sig. En það má vera, að þeir hafi álitið sem svo, að þar sem áður var búið að gera nauðsynlegar ráðstafanir, er vertíðin hafði brugðizt sumrin á undan, þá hafi þeir nú talið, að þessar ráðstafanir mundu nú einnig verða gerðar án sérstaks eftirgangs. En hvað sem því líður, þá hefur L.Í.Ú. nú safnað skýrslum um sjóveðskröfur á viðkomandi skipum, og eftir því sem fyrir liggur, virðist sjóveð nú vera á um það bil 70 skipum, sem síldveiðar stunduðu s.l. sumar. Eflaust er það nú svo, að þessi skip fara nú ekki öll á þorskveiðar í vetur. En ef sjóveðin væru innleyst af þeim, þá gæti það munað miklu um þann afla, sem þau veiddu, ef þau færu öll á vertíðina í vetur. Eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja, nemur sjóveðið um 3 millj. króna á þessum skipum, en eðlilega þarf þessi skýrsla endurskoðunar við, en við flm. höfum þó haldið okkur við þá upphæð, en flm. erum við hv. þm. Borgf. (PO), hv. þm. Siglf. (ÁkJ), hv. þm. Snæf. (SÁ) og ég. Ætlunin var, að hv. sjútvn. Nd. flytti þessa till., en við náðum ekki í hv. þm. N-Þ. (GG) það tímanlega, að hann gæti sagt álit sitt á henni eða gefið svar um, hvort hann yrði með henni, svo að þess vegna er hún flutt af okkur hinum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þessa till., en vil leyfa mér að leggja hana fram núna og óska, að afbrigða verði leitað fyrir henni. Einnig vil ég leyfa mér að vænta þess, þar sem það lítur út fyrir, að flokkarnir séu sammála um að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir stöðvun útvegsins, að þá verði einnig gerðar ráðstafanir til þess að sjá fyrir þessu veigamikla atriði.