06.05.1950
Neðri deild: 96. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2924)

65. mál, jeppabifreiðar

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Nú þegar er viðurkennt, að þörf sé á að hafa reglur um úthlutun jeppa, er fluttir eru inn. Um það er eigi hægt að segja, hvort tækin verða flutt inn, en við því verður að búast, að eigi verði ævinlega í framtíðinni búið við sömu kjör og í dag, greiðast muni úr þessu og þar með haldið áfram að flytja inn nauðsynleg tæki. Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) viðurkenndi, að þörf væri á að skapa reglur, sem unandi væri við, um úthlutunina. Ég er sammála því. Ég vantreysti ekki hæstv. landbrh., en meira öryggi finnst mér í því, að þetta standi í l., fyrir bændur, fremur en þeir séu háðir landbrh. um það, hvaða reglur verði settar. Ég skil ekki, að í fyrra hafi gilt sérstakar reglur um þetta, því að málið kom þá einkennilega fyrir sjónir. Mér þykir rétt og nauðsynlegt að hafa reglur um þessi mál og vænti þess, að hv. þd. sjái sér fært að samþ. frv., svo að bændur geti talið sig örugga.

Að öðru leyti mun ég ekki segja fleira, en vona, að málið fái skjóta afgreiðslu.